Afnám mismununar gagnvart konum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:45:54 (1414)

1995-11-29 13:45:54# 120. lþ. 43.2 fundur 55. mál: #A afnám mismununar gagnvart konum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:45]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og eins fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Svörin voru nokkuð greinargóð en mörg hver frekar almennt orðuð sem kemur kannski ekki mikið á óvart, en ráðherrann vísaði einmitt til þess að samningurinn væri að mörgu leyti almennt orðaður og að íslensk löggjöf væri að mestu leyti í samræmi við efni samningsins. Þetta er að mörgu leyti rétt. Það er rétt að íslensk löggjöf er að mestu leyti í samræmi við efni samningsins, en spurningin er hins vegar, hvað er með framkvæmdina? Og ef við skoðum t.d. 2. gr. samningsins, þá takast aðildarríkin á hendur þá skyldu að koma á lagavernd á grundvelli jafnréttis kvenna og karla og tryggja m.a. fyrir lögbærum dómstólum landsins og öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn hvers konar misrétti. Ein aðalástæða þess að ég vík að þessum samningi hér er einmitt til að minna á hann vegna dóma sem hafa fallið á árinu. Það virðist ekki vera sem dómstólar hafi í raun og veru aðlagað sig að efnisákvæðum samningsins og það er kannski það sem er alvarlegasta málið í þessu. Samningurinn á að tryggja að þau lög og þær reglur sem eru settar komi líka fram í niðurstöðum, m.a. dómstóla.

Svo var það eitt varðandi skýrslugerðina. Mér skildist af svari ráðherrans, ef ég heyrði rétt, að fyrstu skýrslunni hefði verið skilað 1993, en samningurinn fullgiltur 1985. Samkvæmt 18. gr. samningsins átti að skila fyrstu skýrslunni innan eins árs frá gildistöku og síðan á hverjum fjórum árum. Það væri kannski forvitnilegt að vita hvers vegna svona mikill dráttur varð á skýrslugjöfinni vegna samningsins, hvort það hafi verið einhverjar sérstakar ástæður fyrir því.