Habitat-ráðstefnan 1996

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:54:03 (1418)

1995-11-29 13:54:03# 120. lþ. 43.3 fundur 91. mál: #A Habitat-ráðstefnan 1996# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Undirbúningur íslenskra stjórnvalda vegna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um byggðamál sem haldin verður í Istanbúl 3.--14. júní 1996 verður í umsjá utanrrn. Svipaður háttur verður hafður á og var við undirbúning ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, sem haldin var í Peking í september sl. Skipuð hefur verið undirbúningsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar forsrn., félmrn. og umhvrn. auk utanrrn. Undirbúningsnefndin mun innan tíðar kalla sér til ráðuneytis fólk frá stofnunum, félögum eða samtökum sem láta sig málefnið varða.

Vegna ráðstefnunnar munu íslensk stjórnvöld skila inn skýrslu til byggðastofnunar Sameinuðu þjóðanna um byggðaþróun hér á landi og stefnumörkun stjórnvalda í málaflokknum. Ráðstefnan sem haldin verður í Istanbúl er önnur í röð ráðstefna Sameinðu þjóðanna um byggðamál. Hin fyrri var haldin í Vancouver í Kanada árið 1976.

Ráðstefnan er jafnframt síðust í ráðstefnuröð Sameinuðu þjóðanna um önnur mikilvæg málefni og talið er að viðfangsefni hennar munu tengjast flestum þeirra náið. Fyrir hafa verið haldnar ráðstefnur og leiðtogafundir. Í New York um málefni barna, í Ríó um umhverfi og þróun, í Kaíró um mannfjölda og þróun, í Vín um mannréttindi, í Kaupmannahöfn um félagslega þjónustu og í Peking um málefni kvenna. Við undirbúning byggðaráðstefnunnar verður þetta samhengi haft í huga.

Meginviðfangsefni byggðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna verður fólksflótti úr dreifbýli í þéttbýli og þau vandamál sem slíkt hefur í för með sér. Bent hefur verið á að ráðstefnan kunni að verða síðasta tækifæri mannkynsins til að undirbúa sig undir þann mikla fólksfjölgunarvanda sem við blasir í borgum heimsins. Talið er að um næstu aldamót muni í 26 borgum búa fleiri en 10 milljónir manna. Flestar eru þessar borgir í þróunarlöndunum eða 21 talsins. Enn fremur er talið að árið 2025 muni þrír fimmtu hlutar mannkyns eða um 5 milljarðar búa á þéttbýlissvæðum.

Viðfangsefnin sem við blasa eru aðkallandi. Aukin þéttbýlismyndun raskar á margan hátt jafnvægi í lífi fólks og heilu þjóðanna og afleiðingarnar geta verið margvíslegar svo sem aukið atvinnuleysi, skortur á húsnæði, umferðaröngþveiti, mengun sem nær langt út fyrir mörk borganna auk ýmissa félagslegra vandamála. Hér á landi höfum við orðið vör við þróun af þessu tagi þótt við séum smá í samanburði við þessar stóru borgir. En við erum ekki eyland hvað það snertir. Við höfum því bæði nokkru að miðla til annarra af okkar reynslu og eins getum við lært af reynslu annarra. Þátttaka íslenskra stjórnvalda í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um byggðaþróun er því mikilvægt verkefni sem utanrrn. hyggst sinna eftir bestu getu í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti sem og stofnanir, félög og samtök sem málið varðar.