Habitat-ráðstefnan 1996

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 13:57:59 (1419)

1995-11-29 13:57:59# 120. lþ. 43.3 fundur 91. mál: #A Habitat-ráðstefnan 1996# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[13:57]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það er ljóst að það er stutt til stefnu og þarf að halda vel á spöðunum til þess að undirbúningur Íslands verði jafnt til sóma við þessa ráðstefnu sem við kvennaráðstefnuna í Kína og ég er fegin að heyra það að málið er komið á rekspöl.

Af orðum hæstv. utanrrh. mátti ráða að hér er um mjög spennandi verkefni og spennandi umræðuefni að ræða sem auðvitað skiptir okkur Íslendinga máli eins og aðra jarðarbúa og verður mjög fróðlegt að heyra hvaða upplýsingar og niðurstöður koma þarna fram. En tilgangur minn með þessari fyrirspurn var ekki síst sá að vekja athygli Alþingis og hv. alþm. á þessari ráðstefnu og þá jafnframt að hvetja til þess að forsætisnefnd íhugi að gefa alþingismönnum kost á að sækja þessa ráðstefnu og það verði fastur liður í starfi þingsins að þingmenn fylgist betur með alþjóðlegri þróun og alþjóðlegri umræðu sem auðvitað kemur okkur við eins og öllum þjóðum heims, enda erum við þátttakendur í Sameinuðu þjóðunum og ýmsum alþjóðastofnunum sem eru að fást við þessi geigvænlegu vandamál sem steðja að mannkyninu.