Mengun af brennisteinssamböndum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:14:24 (1425)

1995-11-29 14:14:24# 120. lþ. 43.4 fundur 78. mál: #A mengun af brennisteinssamböndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er ekki miklu við að bæta það sem kom fram í svari mínu áðan. En ég hef hlýtt á athugasemdir hv. þm. og það er visslega rétt sem hann dregur fram og kom fram í svari mínu að Hollustuvernd ríkisins hefur bent á að það sé rétt að kanna vandlega sérstaka bókun um brennisteinsdíoxíð og að skipaður verði framkvæmdaraðili. Sennilega verður Hollustuvernd ríkisins, sem heyrir undir umhvrn., falið að fylgjast með þessu og taka ákvarðanir í framhaldi af því um staðfestingu eða undirritun þeirra bókana sem talið er mikilvægast fyrir okkur að undirrita.

[14:15]

Hitt er svo auðvitað rétt að vissulega er samhengi í málum hvað varðar umhverfismál og mengun á alþjóðlegum vettvangi og Íslendingar hafa reynt að gera sig þar gildandi í vaxandi mæli, auðvitað af litlum efnum með lítið lið. Þó hef ég veitt því athygli á tveimur slíkum ráðstefnum sem ég hef sótt í sumar og haust að það hefur virkilega verið tekið eftir því hvernig Ísland hefur staðið að undirbúningi þeirra funda og að sjónarmið þeirra hafa komið fram og hefur gætt í umræðunni. Ég held að það sé virðingarvert að við höfum reynt að leggja okkur fram í þessu efni en við höfum auðvitað líka reynt að forgangsraða og taka sérstaklega þátt í því sem ég tel að skipti okkur mestu máli. Auðvitað verður eitthvað að sitja eftir því að þessu fylgir að sjálfsögðu mikill kostnaður. Við höfum ekki mikinn mannafla til þess að fylgjast með öllum málum þó að við gjarnan viljum. Við gerum það eftir því sem hægt er í gegnum stofnanir okkar sem fylgjast með málum af þessu tagi og með upplýsingagjöf og samskiptum á því sviði en e.t.v. minna með ráðstefnum og kostnaðarsömum fundum á erlendum vettvangi.