Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:29:28 (1429)

1995-11-29 14:29:28# 120. lþ. 43.5 fundur 170. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:29]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég vil bera fram þakkir til hæstv. umhvrh. fyrir svör hans og hvet til þess að reynt verði eins og síðasti ræðumaður sagði að fylgja eftir og reyna að tryggja sem best að mengun verði ekki í sjó. Í rauninni má bæta við að horfa megi á það í víðara samhengi. En til þess þarf auðvitað að leggja fram frv. til laga um breytingu á þessum lögum.

[14:30]

Hvað verður um þau skip sem hafa verið úrelt er náttúrlega talsvert misjafnt. Eitthvað er um það að trébátum sé komið fyrir á áramótabrennum og möguleiki er að vinna trékurl úr þeim, kannski í tengslum við byggðasamlögin eins og Sorpu. Mér skilst að talsvert sé um að skip eða bátar, sem hafa verið úrelt, hafi sokkið eða kviknað í þeim á ferð milli hafna og það er mál sem umhvrn. þarf að athuga nánar hvort fótur er fyrir. Ekki er hægt að gefa sér að þeim sé sökkt af ásettu ráði eða kveikt í þeim en það er a.m.k. einkennilegt að það komi fyrir á þennan hátt.

Það eru líka enn þá gömul skip í höfnum víða um land. Ég held að í Reykjavíkurhöfn séu fimm gömul úrelt skip, kannski fleiri. Þetta er því víða ófrágengið mál. Auðvitað er fyrri eigendum eða sveitarstjórnum til vandræða að losna við skip. Það er líka kostnaður við að farga þeim, það hefur líka verið kostnaður við að sökkva þeim í sjó. En ég held að með stefnunni um endurvinnslu hljótum við að gera kröfu um það að förgunin verði einungis á formi endurvinnslu og endurnýtingar.