Stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:41:36 (1433)

1995-11-29 14:41:36# 120. lþ. 43.6 fundur 181. mál: #A stuðningur við nemendur sem eiga í lestrarörðugleikum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:41]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að fitja upp á svo mikilvægu máli sem læsi er. Við höfum alla jafnan gengið út frá því sem nokkuð vísu að allir í okkar samfélagi sem eru komnir á tiltekinn aldur væru læsir og gætu nýtt sér texta. Það kom einna best í ljós hverjum augum við lítum þá sem geta ekki lesið eða eru treglæsir þegar fjölmiðlar gerðu skil því frábæra átaki sem Iðnskólinn í Reykjavík fór í varðandi treglæsa nemendur. Það mátti helst skilja á túlkun fjölmiðla að eitthvað einstakt væri þar á ferðinni.

Ráðherra vitnaði áðan í það sem fyrirhugað er að gera, bæði vegna framhaldsskólanema, vegna fullorðinna og annarra sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Talað er um að um 3--4% úr hverjum árgangi kunni að stríða við dyslexíu. Það væri forvitnilegt í þessari umræðu að fá að vita hvort ráðherra byggir á könnunum, hvort það liggja fyrir kannanir um læsi Íslendinga og hvað þær hafa leitt í ljós umfram þá tölu sem hann nefnir hér og menn henda sín á milli í umræðunni.