Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:45:28 (1436)

1995-11-29 14:45:28# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:45]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Hæstv. forseti. Aðdragandi að fyrirspurn minni um menningarborg Evrópu er eins og mönnum er kunnugt tilnefning Reykjavíkur sem menningarborg Evrópu árið 2000, að vísu ásamt fleiri borgum, en um það var tilkynnt í síðustu viku.

Útnefning menningarborga Evrópu hefur farið fram á tveggja ára fresti sl. 10 ár. En það ár (fyrir 10 árum) ályktaði ráðherraráð Evrópusambandsins um grundvöll þessarar nýjungar í menningarlífi álfunnar. Margar borgir hafa hlotið þessa útnefningu en í fyrstu voru það borgir innan 12 ríkja Evrópusambandsins sem gjaldgengar voru til að verða menningarborg. Þá var ljóst að eftir ákveðið árabil yrði þeirri yfirferð lokið og af því tilefni voru rýmkaðar heimildir þannig að aðrar borgir í Evrópu kæmu til álita í þessu skyni. Grundvöllurinn var þó að ríki, sem borgin væri í, byggði á fjölflokkakerfi og þar væru lýðræðislegar leikreglur og mannréttindi.

Fyrsta borgin sem var utan Evrópusambandsins þegar hún var útnefnd var Stokkhólmur og hún verður menningarborg Evrópu árið 1998 en núna hefur Svíþjóð auðvitað gengið í Evrópusambandið. Af hálfu Evrópusambandsins er ekki gerð nein krafa um ákveðið umfang þeirra viðburða eða aðgerða sem gripið er til í sambandi við útnefninguna. Átt hefur sér stað þróun í þá átt að rýmka inntak þess sem gerir borg að menningarborg. Það hafa verið tekin inn málefni eins og íþróttamál, umhverfismál, útivistarmál, og rannsóknastarf. Í undirbúningsnefndinni sem vann að umsókninni, en ég átti sæti í henni, var talið að styrkleiki Reykjavíkur sem borgar fælist einmitt í málum af þessu tagi og tökum þá t.d. umhverfismálin fyrir.

Einnig er ljóst að framlög til menningarmála eru myndarleg í Reykjavík og hún býður upp á menningu sem er fyllilega sambærileg við stærri borgir í Evrópu. Framboð á menningarefni er með því allra mesta sem þekkist í borgum á stærð við Reykjavík. Þar er hægt að telja upp fjölmörg atriði, myndlistarsýningar voru t.d. yfir 300 árið 1994. Við rekum sinfóníuhljómsveit, við erum með óperu með metnaðarfullt verkefnaval, leikhúsaðsókn er mjög mikil á Íslandi, bóklestur, kórastarf og svo mætti lengi telja.

Árið 2000 halda Íslendingar upp á eitt þúsund ára afmæli kristnitöku. Árið 2000 verður haldin 18. listahátíð í Reykjavík og fleiri slíkir stóratburðir eiga sér stað á aldamótaárinu. Ég sé fyrir mér að vel megi tengja þetta undir sömu regnhlíf og kölluð er menningarborg Evrópu. Það eru nokkur ár til stefnu en samt þarf mjög mikla vinnu hvað þetta varðar og því vil ég spyrja menntmrh.: ,,Að hvaða leyti munu íslensk stjórnvöld taka þátt í undirbúningi fyrir verkefnið Reykjavík --- menningarborg Evrópu árið 2000?``