Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:00:50 (1442)

1995-11-29 15:00:50# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hafi málflutningur hv. 13. þm. Reykv. átt að stuðla að því að menn tækju höndum saman í þessu máli skil ég ekki hvernig að því skuli staðið undir slíkum formerkjum eins og hann notaði hér. En ég vil lýsa því yfir sem kom fram í svari mínu að ríkisvaldið stóð að því á sínum tíma að um það var sótt að Reykjavíkurborg yrði menningarborg Evrópu og hún fékk þann titil ásamt átta öðrum borgum. Eins og samtöl hafa farið fram á milli mín og fulltrúa borgarinnar er það nú Reykjavíkurborgar að leggja málið upp með nýjum hætti þegar samþykktin liggur fyrir. Við því þarf að sjálfsögðu að bregðast. Ríkisvaldið hefur ekki skuldbundið sig fjárhagslega í málinu. Það eru sameiginleg verkefni á vegum Reykjavíkurborgar og ríkisvaldsins sem lúta að listamálum, m.a. listahátíð í Reykjavík, sem á að efna til að óbreyttu árið 2000, og önnur verkefni sem bíða úrlausnar og snerta listir og menningu. Ég vona að við getum unnið að því undir þessum formerkjum og náð árangri þannig að Reykjavík --- menningarborg Evrópu árið 2000 standi undir merki.