Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:02:16 (1443)

1995-11-29 15:02:16# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:02]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. heilbrrh. að því er varðar málefni glasafrjóvgunardeildar. Hér er um að ræða þjónustu sem tekur til stórs sjúklingahóps. Það voru um það bil 650--700 pör á biðlista eftir þjónustu þessarar deildar. Talið er að alls séu um það bil 13--14 þúsund manns á barneignaraldri sem eiga við ófrjósemi að stríða en þarna er um að ræða þjónustu við sjúklinga sem er mjög mikilvæg í heilbrigðiskerfi okkar.

Það vekur hins vegar athygli að í fjárlagafrv. er sérstaklega vegið að þessum hópi og tiltekið er að íþyngja eigi honum með hækkun þjónustugjalda. Verður ekki annað séð í fljótu bragði en að þessi sjúklingahópur einn eigi að greiða meðferð að öllu leyti. Ég minni á að í tíð fráfarandi ríkisstjórnar var þessum málum sérstaklega sinnt og það prýðilega. Í mars sl. var það ákvörðun þáv. ríkisstjórnar að veita aukafjárveitingu til kaupa á nýjum tækjabúnaði til stækkunar þessarar deildar þannig að hún gæti betur þjónustað þennan sjúklingahóp.

Enn fremur vekur athygli að núv. hæstv. heilbrrh., sem á síðasta kjörtímabili var mjög áhugasamur um framkvæmd þessara mála, virðist ekki vera það lengur ef aftur er vísað til fjárlagafrv. Hún lagði fram ásamt fleiri hv. þm. þáltill. þar sem skorað var á ríkisstjórn að styrkja og styðja þessa starfsemi.

Þá vekur þetta einnig upp þær spurningar ef mál ganga fram sem horfir í fjárlagafrv. hvort tekin hafi verið um það grundvallarákvörðun að þessi sjúklingahópur framar öðrum skuli að öllu leyti greiða fyrir þá þjónustu sem heilbrigðiskerfið veitir honum. Hver hefur tekið þá ákvörðun, á hvaða grundvelli er hún tekin og er von á fleiri ákvörðunum í svipuðum dúr? Í ljósi þessa hef ég leyft mér að varpa fram fjórum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Þær eru svohljóðandi:

1. Hvað er áætlað að hækka mikið gjöld á sjúklinga sem leita aðstoðar glasafrjóvgunardeildar Ríkisspítalanna með hliðsjón af áætlaðri hækkun sértekna af starfsemi deildarinnar samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996? Sundurliðunar er óskað.

2. Hvers vegna hefur framlagi að upphæð 25 millj. kr., sem samþykkt var í febrúar 1995 af þáverandi ríkisstjórn og verja átti til stækkunar og endurbóta á glasafrjóvgunardeild, ekki verið ráðstafað?

3. Má draga þá ályktun af fjárlagafrumvarpinu að ráðherra hafi skipt um skoðun á starfsemi glasafrjóvgunardeildar, sbr. þingsályktunartillögu hans á 118. löggjafarþingi (þskj. 623) um ,,eflingu glasafrjóvgunardeildar Landspítalans``?

4. Er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að tilteknir sjúklingahópar greiði nánast að fullu fyrir alla þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda? Ef svo er, hvaða hópar eru það og hvernig og af hverjum eru þeir valdir?