Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:10:34 (1445)

1995-11-29 15:10:34# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:10]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið talað um forgangsröðun í íslensku heilbrigðiskerfi að undanförnu og hér erum við einmitt með dæmi sem sýnir forgangsröðun í kerfi okkar eins og reyndar flestir viðurkenna. Þetta mál snýst um það hvort ákveðinn hópur sjúklinga á að borga fyrir þá meðferð sem hann fær hugsanlega sér til bóta eða hvort um hann eiga að gilda sömu reglur og um aðra þá sem leita sér lækninga. Ófrjósemi er skilgreind sem sjúkdómur og við hljótum að spyrja hvers vegna það fólk sem á við ófrjósemi að stríða sætir allt annarri meðferð en aðrir. Hver eru rökin? Hvar er lagastoðin fyrir þessu? Hvert er réttlætið?

Þetta eru grundvallarspurningar sem við hljótum að verða að spyrja okkur, ekki síst núna þegar fram undan er að afgreiða fjárlögin. Ég hvet hæstv. heilbrrh. og skora á hann að sjá til þess að þessi ákveðni hópur sæti ekki ólögum af hálfu ríkisvaldsins. Ég átti mjög erfitt með að átta mig á þeim tölum sem hér voru nefndar og vonandi skýrast þær betur í umræðunni en ég fæ ekki séð að hér sé um neitt réttlæti að ræða.