Málefni glasafrjóvgunardeildar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:16:50 (1449)

1995-11-29 15:16:50# 120. lþ. 43.8 fundur 142. mál: #A málefni glasafrjóvgunardeildar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:16]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að rifja upp samninginn sem gerður var í fyrra varðandi glasafrjóvgunardeildina. Þá var gert ráð fyrir að hún opnaði í maí. Enn gerum við ráð fyrir að hún opni í maí. Það er aðalatriðið, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Við það verður staðið. Menn geta ekki talað um það hér að verið sé að minnka fjármagn til deilda sem verið er að leggja 46,2 millj. kr. til. Það er mjög ósanngjarnt. Þótt tillögur séu uppi um að hækka gjaldið um 5--10% þá er þar ekki um nýjar álögur að ræða. Þær eru fyrir og ég veit ekki betur en að Alþfl. hafi staðið að þeim á sínum tíma. Ég skil því ekki alveg þessa umræðu. Ég hélt að við værum sammála um það að efla þessa deild.

Varðandi fósturvísafrystinn, sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom hér inn á áðan, þá verður hann keyptur. Það sem stendur á er reglugerð umfrystingu fósturvísa. Og einmitt núna á þessum dögum er verið að samþykkja nýja reglugerð varðandi þetta mál. Þetta er mjög viðkvæmt mál. Það hefur þurft að fara í gegnum m.a. siðanefnd lækna. Og þá getum við keypt fósturvísafrysti og farið að frysta fósturvísa.

Spurt var að því hvernig við ætlum að ná upp þeim tekjum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Við gerum ráð fyrir því að aðgerðum fjölgi mjög eftir stækkun deildarinnar frá 1. maí og þannig náum við inn þessum tekjum.