Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:22:49 (1451)

1995-11-29 15:22:49# 120. lþ. 43.9 fundur 175. mál: #A vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Við endurskoðun vegáætlunar á sl. vetri var þessi vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur allmikið til umræðu, bæði hjá þingmönnum Reykn. og Suðurl. Tveir hv. þm. hreyfðu raunar málinu hér á Alþingi á sl. vetri, ef ég man rétt. Niðurstöður þessara umræðna koma fram með tvennum hætti í vegáætlun fyrir árið 1995--1998 sem afgreidd var á Alþingi í febrúar. Í fyrsta lagi var þessi leið tekin í tölu stofnvega, þ.e. Ísólfsskálavegur allur frá Grindavík að Krýsuvíkurvegi og Krýsuvíkurvegur áfram að Þorlákshafnarvegi. Í öðru lagi koma fjárveitingar af vegafé Reykjaneskjördæmis til frumhönnunar leiðarinnar, 3 millj. kr. 1995 og 7 millj. kr. 1996.

Leiðin frá Grindavík að Þorlákshafnarvegi er um 64 km að lengd. Að langmestu leyti er um malarveg að ræða í misjöfnu ástandi. Ísólfsskálavegurinn er að mestu ruddur malarvegur sem þolir illa mikla umferð. Aðrir hlutar vegarins hafa skárra yfirborð. Þess er að vænta að vegurinn styttist nokkuð frá því sem nú er þegar hann verður byggður upp. Líklegur kostnaður við vegagerðina er á bilinu 800--1000 millj. kr. Þegar fjárveitingar lágu fyrir var tekið til við kortagerð og liggja nú fyrir kort af vegstæðinu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Haldið verður áfram með kortagerð og hafist handa um frumhönnun vegarins.

Frá upphafi hefur verið við það miðað að undirbúningur væri það langt kominn við næstu endurskoðun vegáætlunar, sem fram á að fara veturinn 1996--1997, að Vegagerðin væri undir það búin að geta boðið út einstaka verkhluta ef ákvarðanir verða teknar í þá átt. En það er auðvitað í höndum Alþingis.

Ég vil svo bæta við þetta svar Vegagerðarinnar að auðvitað hafa allir þingmenn mikinn áhuga á samgöngubótum á þeim stöðum sem þeim eru næstir. Ég hef orðið var við að þingmenn Reykjaneskjördæmis hafa mikinn áhuga á þessari vegagerð, tvöföldum Reykjanesbrautar, þeir hafa mikinn áhuga á því að lýsa upp Reykjanesbrautina. Þeir hafa mikinn áhuga á því að koma vegi yfir í Gunnunes, þeir hafa mikinn áhuga á göngum undir Hvalfjörð, margir hverjir, því það sparar þeim það ómak að þurfa að leggja peninga í veginn fyrir Hvalfjörð. Þeir geta þá notað þá annars staðar miðað við sömu skiptitölur og þar fram eftir götunum. En á hinn bóginn stöndum við frammi fyrir því, ég og hv. fyrirspyrjandi, að við erum sammála um það samkvæmt frv. til fjárlaga heldur að minnka það fjármagn sem fer til Vegagerðarinnar. Af þeim sökum er varla við því að búast að ég geti staðið við meira en það sem fyrirheit hafa þegar verið gefin um.