Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:40:27 (1458)

1995-11-29 15:40:27# 120. lþ. 43.11 fundur 176. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Að ósk fjmrh. var nefnd með fulltrúa hans, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, falið sl. haust að vinna tillögur um skipan lífeyrismála þegar verkefni flytjast milli ríkis og sveitarfélaga. Verkefni nefndarinnar var annars vegar að ræða og fjalla um stöðu og réttindi opinberra starfsmanna í þessum tilvikum og að hinu leytinu að taka á fjárhagslegum atriðum sem snerta yfirfærsluna. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í október sl. Þar er að finna fjölmargar tillögur sem snerta bæði réttindi starfsmanna og fjárhagsleg samskipti vinnuveitenda við tilflutning á verkefnum á milli ríkis og sveitarfélaga.

Helstu tillögur nefndarinnar sem snerta breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins með tilliti til flutnings grunnskóla til sveitarfélaga eru þessar:

1. Lögfest verði samræmi á lífeyrisréttindum í opinberum lífeyrissjóðum. Eins og allir vita eru reglur ekki samræmdar t.d. á milli sveitarfélaganna annars vegar og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hins vegar en í honum eru nokkur sveitarfélög eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

2. Réttindaávinnsla þeirra sem eru í opinberum lífeyrissjóðum verði samfelld og breytist ekki þó að þeir skipti um vinnuveitanda.

3. Sveitarfélögum, sem tryggja starfsmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, verði gert að inna af hendi viðbótariðgjöld til sjóðsins til fullnustu áunnum réttindum eða að gefa út skuldaviðurkenningu.

4. Kveðið verði á um rétt grunnskólakennara til að vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

5. Settar verði í lög reglur um skiptingu ábyrgðar og eftirlaunagreiðslna þegar þær skiptast á milli fleiri vinnuveitenda.

Ég get því miður ekki hér og nú, en skal athuga það og svara því síðar, sagt hvort nýjar lífeyrissjóðsskuldbindingar séu inni í þessum 6,4 milljörðum sem ég nefndi á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég þori ekki að svara því en get auðvitað fengið upplýsingar um það og komið því til hv. fyrirspyrjanda.

Annars vegar er gert ráð fyrir því Jöfnunarsjóður sveitarfélaga komi til sögunnar til þess að hjálpa smærri sveitarfélögum og aðstoða þau. Auðvitað er ekki búið að ganga nákvæmlega frá því hvað félli á jöfnunarsjóðinn og hvort að þar sé um að ræða t.d. greiðslur vegna lífeyrisréttinda. Vegna þess sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um það hvað það þýði að lífeyrisrétturinn eigi að vera óbreyttur nema öðruvísi sé um það samið þá þýðir það væntanlega að tryggt verði að kennarar, samtök þeirra eftir atvikum --- ég á nú von á því að þau sameinist í einum samtökum --- líti á samning sem jafngildan eftir sem áður þótt kannski verði um að ræða flutning frá lífeyrisréttindum yfir í laun eða lífeyrisréttindi séu ekki nákvæmlega eins. Þá eru þau sambærileg. Öðruvísi get ég ekki túlkað þessi orð en ég býst ekki við að endanleg lausn sé komin í þessum málum frekar en í öðrum.

Í fjmrn. er hafinn undirbúningur að samningu lagafrv. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þar sem tekið verður á framangreindum atriðum. Enn fremur er í því sambandi til athugunar aðrar breytingar á þeim lögum sem snerta mál þetta óbeint eða beint. Meðal þeirra atriða sem í athugun eru má nefna eftirfarandi:

1. Breytingu á heimild til að hefja töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur samkvæmt svokallaðri 95 ára reglu.

2. Að iðgjöld verði greidd allan starfstímann en nú er hámarksgreiðslutími 32 ár.

3. Breyting á viðmiðun fyrir hækkun eftirlauna þannig í stað svokallaðra eftirmannsreglu komi tenging við launa- eða verðvísitölu.

4. Örorkulífeyrir en réttur til hans er nú verulega þrengri hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en hjá öðrum lífeyrissjóðum.

5. Heimild til veru í sjóðnum eftir að starf er lagt niður verði þrengd.

6. Skiptingu lífeyrisgreiðslna milli sjóðsins og launagreiðanda verði breytt.

7. Heimildir til að taka aðra í sjóðinn en lögskylt er verði þrengdar.

[15:45]

8. Settar verði reglur um iðgjalda- og lífeyrisstofn þeirra sem eru í sjóðnum en taka ekki laun samkvæmt kjarasamningum sem fjmrh. hefur gert, úrskurði kjaradóms eða kjaranefndar. Gert er ráð fyrir að það sem unnið er að verði lagt fram á yfirstandandi þingi þannig að unnt verði að fá það afgreitt fyrir lok þess.

Ég tel því, virðulegi forseti, að ekki sé ástæða til þess að fresta yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna af þeim ástæðum sem snúa að lífeyrisréttindum þótt auðvitað eigi eftir að vinna heilmikið starf í þeim efnum.