Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 15:45:56 (1459)

1995-11-29 15:45:56# 120. lþ. 43.11 fundur 176. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[15:45]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst athyglisvert að hann skuli ekki hafa það á takteinum hvort þessar 300--400 millj. kr. sem talað er um að lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna verði á einu ári eru inni í tölunni. Ég óttast satt að segja að svo sé ekki og tel því tímabært að farið sé nákvæmlega yfir það hvernig þessi mál varðandi lífeyrisskuldbindingar snúa að sveitarfélögunum. Annað sem kom fram í hans máli og mér fannst athyglisvert er að á þessu þingi verður lagt fram frv. að nýjum lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þau taka þá væntanlega til allra opinberra starfsmanna. Miðað þau efnisatriði sem hann taldi upp er augljóst að um veigamiklar grundvallarbreytingar á sjóðnum er að ræða í ýmsum atriðum. Það væri fróðlegt að vita hvort þau atriði sem hann nefndi og hafa mörg hver verið deilumál opinberra starfsmanna og fulltrúa ríkisins, hafi verið rædd í nefndinni sem hann vísaði til þar sem fjmrn. starfar með sveitarfélögunum og samtökum kennara. Eða hvort verið er að vinna þessar hugmyndir til hliðar við annað sem er að gerast í lífeyrismálum.