Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 17:56:57 (1468)

1995-11-29 17:56:57# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[17:56]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt að hv. form. heilbr.- og trn. skuli nota sér vettvang hér utan dagskrár í Alþingi til að ræða ákvarðanir sem tengjast fjárlagagerð næsta árs og heilbrigðismálum almennt. Það væri svo sannarlega ástæða til þess að ræða þennan flókna málaflokk öðruvísi en í símskeytastíl og hvernig á að halda utan um hann. Eru menn tilbúnir til þess að mæta kostnaðarauka í heilbrigðismálum með skattlagningu? Það væri gott að fá meiri umræðu um það mál en þessar tvær mínútur. Það er svo sannarlega stórkostlegt að sjá hv. form. heilbr.- og trn. standa hér í pontu og fara mikinn utan dagskrár til þess að mæla gegn gjaldtökum ýmis konar. Við munum eftir því að þessi hv. þm. hélt jómfrúarræðu sína uppi á áheyrendapöllum og er áreiðanlega eini þingmaðurinn sem hefur gert það. Þar var hann að mæla gegn ákvörðunum ... (Gripið fram í: Þú varst ekki hér.) Ég man eftir því þótt ég hafi ekki verið hér. Orð hans ná út fyrir þingsal. Það er satt að segja alveg stórkostlegt að horfa upp á þá hræsni hv. form. heilbr.- og trn. að taka þessi mál hér til umræðu með þessum hætti. Ég lýsi algjörri vanþóknun á þessum vinnubrögðum og er maður þó ýmsu vanur í þessum efnum.