Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:07:08 (1472)

1995-11-29 18:07:08# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[18:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. formanni fjárln. að það sé hræsni af formanni heilbrn. að taka þetta mál upp. Hitt er annað að þau eru nokkuð sérkennileg, þessi orðaskipti talsmanna Framsfl. annars vegar og Alþfl. hins vegar um muninn á innritunargjöldum eða einhverjum sjúkrahúsanefsköttum. Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir mér eru þetta hvort tveggja skítaskattar sem enginn ætti að mæla sérstaklega með.

Staðreyndin er í öðru lagi sú að friðurinn um þessi mál var í stórum dráttum sagður sundur á síðasta kjörtímabili. Alþfl. kastar hér steinum úr glerhúsi. Ég veit ekki betur en það hafi verið tekin upp innritunargjöld á heilbrigðisstofnunum í tíð Alþfl. í ráðuneytinu, svo sem innritunargjöld á heilsugæslustöðvar. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því eða einhverjum nefsköttum vegna sjúkrahúsvistar manna. Það er óskynsamlegt og ranglátt almennt talað að taka upp slík flöt gjöld án tillits til efnahags og aðstöðu manna. Það á að fjármagna undirstöðuþætti velferðarkerfisins með almennum skatttekjum og mönnum á að standa sú þjónusta til boða ókeypis. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Og það er staðreynd að þeir sem þurfa að fara inn á sjúkrastofnanir eru að breyttu breytanda sá þjóðfélagshópur sem einna síst er aflögufær um aukaskatta vegna útgjalda hins opinbera. Menn eiga að manna sig upp í það að taka pólitíska afstöðu með eða móti þessari aðferð. Það er hörmulegt að sjá hvernig Framsfl. sem stóð með okkur í því á síðasta kjörtímabili að gagnrýna þessa skítaskatta Alþfl., gengur nú í það að bæta nýjum við.

(Forseti (ÓE): Ég bið menn að gæta tungu sinnar.)