Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:27:01 (1480)

1995-11-29 18:27:01# 120. lþ. 45.92 fundur 106#B greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi# (aths. um störf þingsins), SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:27]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hvað kom þessi umræða því máli við sem er til umfjöllunar? Byrjað var að framkvæma umræddan búvörusamning m.a. með greiðslum úr ríkissjóði áður en fjárveitingavaldið og Alþingi hefur fjallað um hann og staðfest þau atriði sem fjárveitingarvaldið og Alþingi töldu sig þurfa að staðfesta til að hægt sé að taka umræddan samning til framkvæmda.

Hæstv. landbrh. hefur viðurkennt að nú þegar sé búið að greiða úr ríkissjóði án heimilda að því er mér er sagt 30 millj. kr. vegna markaðssóknar og hann hefur líka viðurkennt að Framleiðsluráð landbúnaðarins sé væntanlega þegar búið að semja við bændur um slátrun 30.000 fjár með þeim fyrirvara að Alþingi samþykki þær greiðslur sem Alþingi hefur ekki enn fjallað um. Ég held að menn hljóti að sjá hvað slíkur samningur hefur í för með sér því ef Alþingi ekki samþykkir þær greiðslur er búið að binda ríkissjóð engu að síður til að greiða skaðabætur vegna þeirra samninga. Ég er að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að áður en löggjafarsamkundunni og fjárveitingavaldinu gefst tækifæri til að fjalla um þá þætti þessa samkomulags sem verða ekki framkvæmdir nema með samþykkt Alþingis er byrjað að greiða úr sameiginlegum sjóði landsmanna og veita ábyrgðir sem sameiginlegur sjóður landsmanna stendur undir sem þessi stofnun hefur aldrei samþykkt. Með því hefur framkvæmdarvaldið bakað íslenskum skattborgurum skaðabótaskyldu, t.d. ef svo færi að þær breytingar sem á að gera á upphaflegu frv. við 2. umr. verða til þess að gagnaðilinn telur sig ekki lengur vera bundinn af samningnum. Engu að síður er búið að binda ríkissjóði skaðabótabagga vegna lógunar 30.000 sauðfjár sem hefur farið fram samkvæmt samningi við opinbert stjórnvald með fyrirvara um samþykki þessarar stofnunar.