Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:34:08 (1483)

1995-11-29 18:34:08# 120. lþ. 45.92 fundur 106#B greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi# (aths. um störf þingsins), GÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:34]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég heyrði ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, 8. þm. Reykn., og hef heyrt óminn af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um væntanlega 2. umr. um búvörulög sem á að fara fram á eftir og menn hafa ekki þolinmæði til þess að bíða þeirrar umræðu. Ég á því að venjast að alþingismenn séu ekki góðir hlustendur, en að þeir séu ekki heldur lengur læsir kemur mér á óvart. Hér er verið að efast um að landbn. megi leggja það til sem hún gerir. Hún gerir breytingartillögur við búvörusamninginn sem ganga inn í hann. En ef við lítum á þetta, hefur nefndin farið vel yfir málið og kallað marga á fund. Síðast kallaði hún til hinn aðilann að samningnum, Bændasamtökin, sem áttu alla tíð von á hugsanlegum breytingum þar sem skrifað var undir með fyrirvara af hálfu Alþingis. Í nefndaráliti segir, með leyfi forseta, að Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, hafi lýst því yfir við landbn. að með hliðsjón af framangreindum breytingartillögum muni hann leggja til að stjórn Bændasamtakanna og búnaðarþing samþykki þær breytingar sem gera þarf á samningi um framleiðslu sauðfjárafurða vegna þeirra tillagna um breytingar á búvörulögum sem meiri hlutinn kynnti á fundi nefndarinnar 29. nóvember eða í dag.

Öllum var ljóst að Alþingi er ekki bundið af þeim samningi sem búið er að gera. Ríkisstjórnin er bundin af honum og ég held að hér sé um breytingartillögur að ræða sem gerir samninginn betri og framkvæmanlegri og í meiri sátt við alla aðila um málið. Best væri, hæstv. forseti, að ræða málið sem fyrst.