Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:41:11 (1486)

1995-11-29 18:41:11# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:41]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti landbn. en meiri hlutann skipa auk frsm. hv. þm. Egill Jónsson, Guðjón Guðmundsson, Hjálmar Jónsson, Magnús Stefánsson og Árni M. Mathiesen.

Hér liggur enn fremur fyrir nefndarálit sem sömu þingmenn undirrita varðandi þessar breytingartillögur. Ég vil í upphafi máls míns þakka samstarfið í landbn. sérstaklega. Það hefur vissulega verið mikil vinna og ströng en hún hefur verið málefnaleg og fullur vilji allra nefndarmanna að koma að málinu með málefnalegum hætti og þeir hafa auðvitað viljað sjá þar ýmsar breytingar. Stjórnarandstaðan vildi sjá nýjan búvörusamning. Menn vildu sjá betri ákvæði til að framkvæma þennan samning o.s.frv. En ég þakka þá málefnalegu umræðu sem þar fór fram og skoðanaskipti.

Ég vil í upphafi lýsa því yfir að ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu sem meiri hluti landbn. komst að og þær brtt. sem hún leggur til við frv. Ég vil þó kannski fyrst minna á að margar þeirra breytinga sem hér eru lagðar til við þetta frv. eru tæknilegs eðlis og snúa að orðinni stjórnarskrárbreytingu. Enn fremur komst meiri hlutinn að samkomulagi um breytingar sem að vísu brjóta í bága við samninginn, samning ríkisstjórnar og Bændasamtaka, eins og hér hefur komið fram.

Annað atriðið er að risið hefur upp tilfinningamál út af 70 ára reglu sem hefur verið svo umdeild, bæði meðal bænda og þingmanna, að menn treysta sér ekki að ganga þá leið að skerða sérstaklega eða hætta að greiða beingreiðslur sérstaklega til örlítils hóps manna sem engar leiðir eiga aðrar. Komið hefur fram að þarna er ekki um mjög stóran hóp að ræða sem yrði að láta beingreiðslur sínar af hendi ef þetta ákvæði næði fram að ganga. Margir aðrir eiga þar aðra leið en þar á ég við yngri maka, börn o.s.frv. Þetta er annað atriðið sem snýr að samningnum. Hitt atriðið snýr að viðbótarskerðingu þar sem heimilað er að innheimta 3% verðskerðingargjald af framleiðslu 1996 og 1997 og 2% gjald af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Verja skal þessum peningum til markaðsaðgerða til að tryggja jafnvægi á birgðum þegar verðlagning verður frjáls. Í sama tilgangi skal verja fé sem veitt er til uppkaupa greiðslumarks skv. 5. gr. samningsins, þ.e. ef það nýtist ekki í þeim tilgangi. Það eru verulegir fjármunir sem á að verja til uppkaupa á beingreiðslumarki en ef þeir nýtast ekki í það má nýta þá til markaðs- og birgðaafsetningar. Á fundum nefndarinnar og í nefndinni sjálfri kom fram að menn óttuðust mjög birgðastöðuna, ekki síst þegar frelsið kemur til.

[18:45]

Síðan er ákvæði um verðtryggingu. Lagt er til að það verði fellt út úr frv. enda standi samningurinn. Það er skýrt kveðið á um að allar upphæðir í samningnum séu miðaðar við verðlag 1. okt. sl. og taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og segir í lið 6.3 í samningi um greiðslutilhögun.

Því má bæta við að það er stefnan að nema úr lögum allar slíkar bindingar hvað þessi tvö fyrrgreindu atriði varðar sem brjóta í bága við búvörusamninginn og menn hafa þegar rætt þetta. Samningsaðilar gerðu fyrirvara um samþykki Alþingis og búnaðarþings sem segir að það gat gerst að annar hvor aðili vildi breytingu á einhverju tilteknu atriði. Ég vil geta þess að á fund nefndarinnar í hádeginu í dag kom Eiríkur Tómasson lögmaður og hann sagði á þá leið að Alþingi gæti sett ákvæði inn sem stönguðust á við samninginn. Hins vegar geti bændasamtökin sagst óbundin af samningnum ef þau meta svo en ég hef enga trú á því og mun greina frekar frá því áliti sem formaður bændasamtakanna hefur sagt.

Enn fremur sagði Eiríkur Tómasson: ,,Ríkisstjórnin er auðvitað bundin af samningnum en Alþingi er óbundið og getur auðvitað gert sínar breytingar enda með fyrirvara.``

Út af þessari umræðu og þeim breytingum sem hér eru lagðar til vil ég fara yfir álit sem gert var í maímánuði 1991. Þá fór landbrn. þess á leit við embætti ríkislögmanns, en því gegndi þá Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari, að embættið gæfi álitsgerð um lagalegan grundvöll nýgerðs búvörusamnings þá eða eldri búvörusamnings. Af því tilefni tók ríkislögmaður saman minnispunkta og þar kom m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Samningurinn var gerður samkvæmt heimild í lögum nr. 46/1985, þá eldri búvörulögum, og af réttu og bæru stjórnvaldi. Í samningnum er m.a. kveðið á um útgjöld og aðgerðir sem ekki rúmast innan heimilda sem kveðið á um í þeim lögum. Hann er reistur á þeirri forsendu að Alþingi samþykki þau útgjöld og veiti þeim þáttum samningsins sem svo stendur á um lagastoð. Af hálfu ríkisins var samningurinn því gerður með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar. Landbrh. tókst ekki á herðar ábyrgð á og getur ekki ábyrgst samkvæmt stjórnskipunarlögum að Alþingi samþykkti þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framkvæma samninginn samkvæmt efni sínu. Að því leyti til er skuldbindandi gildi þeirra efnisatriða samningsins sem svo stendur á um háð því að forsendur um lagabreytingar gangi eftir.``

Þetta vil ég ekki síst segja vegna ræðu hv. 8. þm. Reykn. áðan. Enn fremur þetta: ,,Með gerð og undirritun samningsins hefur landbrh. hins vegar tekist á herðar þær skyldur að bera upp á Alþingi frv. um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að efna hann og beita sér fyrir að nauðsynlegar fjárveitingar fáist. Á landbrh. hvílir því sú embættisskylda að gera það sem í hans valdi stendur til að taka málið upp á Alþingi með þeim hætti sem að framan greinir. Ríkisstjórnarskipti breyta þar engu um.`` Í mínum huga er þetta ljóst.

Áður en ég hleyp aðeins yfir breytingartillögur og nefndarálit vil ég segja að í búvörusamningnum er fólgin ákveðin framtíðarsýn en það veltur mest á hvernig tekst til með framkvæmd samningsins. Það er ljóst að meginmarkmiðin eru að auka hagkvæmni og samkeppnisstöðu sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur. Ég er í engum vafa að þessum samningi mun fylgja heilmikil hagræðing, ekki síst í millistigi sem mun gera það að verkum að neytendur munu hagnast á samningnum. Hann mun enn fremur verða til þess að treysta sauðfjárræktina í sessi og vonandi tekjugrundvöll sauðfjárbænda. Í honum er fólgin frjáls verðlagning í áföngum. Framleiðslustýring er aflögð. Stuðningur er ekki eins háður framleiðslu og áður var. Lögð er áhersla á umhverfismál og atvinnuþróun, önnur verkefni sem bændur geta tekist á hendur þannig að ég tel að hér sé um tiltölulega góðan samning að ræða sem veltur auðvitað á hvernig framkvæmdin tekst til.

Ef litið er á nefndarálitið geta hv. þm. séð að æðimargir hafa komið á fund nefndarinnar, sagt álit sitt á samningnum eða sent inn skrifleg erindi.

Margar breytingartillögurnar eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og þess vegna er ástæðulaust að fara ofan í þær sérstaklega. Í nefndarálitinu er í fyrsta lagi lögð til breyting á 4. gr. frv. Þar er lagt til að felld verði brott tilvísun með bókun í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði á um að innheimt skuli verðskerðingargjald af kindakjöti í 5. gr. frv. en það ákvæði breytir 21. gr. laganna og að gjaldið skuli nema 3% af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts. Þetta snýr að 3. lið brtt. og er í rauninni lagaskýringarákvæði. (ÓRG: Hvaða breytingatillögur eru lagatæknilegar? Getur þingmaðurinn farið yfir það?) Eins og ég hef sagt fyrr út frá stjórnarskrárbreytingu sem við gerðum í þinginu í vor urðum við að taka inn í lögin ýmsa gjaldaliði, framsalsatriði af skattlagningu eru ekki heimil þannig að víða kemur: ,,Skal ráðherra ákveða`` o.s.frv.

Í 3. lið stendur: ,,Af öllu kindakjöti, sem fer til útflutnings, skal innheimta af verði til framleiðenda sérstakt gjald, 30 kr. á kg, vegna útflutningsuppgjörs. Gjaldi þessu skal varið til að jafna eftir föngum skilaverð fyrir kindakjöt sem flutt er úr landi, lítið unnið eða óunnið, þó þannig að tekið sé mið af gæða- og vöruflokkum, svo og árstíma.`` Þarna er um nýtt atriði að ræða.

Brtt. við 6. gr. frv. er um að 3.--5. efnismálsgrein orðist svo:

,,Við kaup á kindakjöti frá framleiðendum eða samkomulag um að annast sölu þess skal tilgreina hvort kjötið er til sölu innan lands eða til útflutnings, en greiðslur fyrir kindakjöt skulu vera óháðar greiðslumarki lögbýlis. Skilaverð til framleiðenda fyrir það kjöt sem þeir selja til útflutnings er umsamið söluverð kjötsins milli framleiðenda og afurðastöðvar (kaupanda) að frádregnu sérstöku gjaldi að teknu tilliti til verðjöfnunar skv. 2. mgr. 21. gr. laganna.`` Hér er um nýtt atriði að ræða.

Í 3. mgr. segir: ,,Sláturleyfishafa og öðrum sem annast sölu og dreifingu á kindakjöti frá sláturhúsi er skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun landbrh. eða semja við annan sláturleyfishafa um verkun og útflutning á sama magni. Sé þess ekki kostur er viðkomandi aðila skylt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem landbrh. auglýsir fyrir 1. sept. ár hvert og skal svara til mismunar á heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð við útflutning á undangengnum 12 mánuðum. Landbrh. skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssambands sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.``

Í b-lið 5. brtt. segir: ,,Í stað 1. og 2. málsl. 6. efnismálsgreinar komi þrír nýir málsliðir er orðist svo: Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandinn tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru þó þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks, enda liggi fyrir fullnægjandi vottorð um ásetning þeirra. Þá getur ráðherra ákveðið, að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands, að kjöt af dilkum sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði undanþegið útflutningsuppgjöri.``

Síðasta málsgreinin sem ég las er nýtt ákvæði og merkir að fleiri en þeir sem setja sig undir 0,7 regluna og vilja slátra fé sínu eða lömbum sínum, kannski í sumarslátrun um jól eða páska, eiga þess kost að segja sig frá útflutningsuppgjöri.

6. brtt. er við 9. gr. og hljóðar svo:

,,a. Í stað orðsins ,,ári`` í 1. málsl. efnismálsgreinar komi: almanaksári.

b. 2 og 3. málsl. efnismálsgreinar falli brott.``

Þarna er um að ræða verðtryggingu sem ég hef þegar farið yfir að meiri hlutinn leggur til að fari út úr frv. og verði ekki lögtekin en skýrt frá því að samningurinn er auðvitað bundinn við vísitölu neysluverðs og ber að uppfylla hann.

Síðan er ég minnist á fleiri atriði. Ég fer í 10. lið, hleyp yfir hina því að það er í rauninni verið að skýra ákveðin atriði og gera þau ákveðnari en þau voru í frv.

10. brtt. er um að á eftir 15. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

,,67. gr. laganna orðist svo:

[19:00]

Landbúnaðarráðherra skal setja reglugerð um gæðastjórn í landbúnaðarframleiðslu. Í reglugerðinni skal lýst kröfum um gæðastjórn, vinnslu geymslu og dreifingu íslenskra landbúnaðarafurða.``

Yfirdýralæknir kom á fund nefndarinnar og rakti að vegna þróunar hér, bæði vegna áhuga manna að rækta lífrænt og líka vegna alþjóðlegra samninga, væri nauðsynlegt að fá þarna inn lagastoð fyrir reglugerð um gæðastjórn framleiðslunnar.

Ég kem þá að síðasta liðnum í nefndarálitinu um breytingartillögurnar, en þar segir: ,,Til viðbótar verðskerðingargjöldum skv. 20. og 21. gr. laganna skal innheimta 3% verðskerðingargjald árin 1996 og 1997 af framleiðendaverði og 2% gjald af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts sem ætlað er til sölu á innlendum markaði. Gjaldi þessu skal verja til markaðsaðgerða til að tryggja jafnvægi í birgðum kindakjöts áður en verðlagning sauðfjárafurða skv. 8. gr. laganna er aflögð. Í sama tilgangi skal verja fé sem veitt er til uppkaupa greiðslumarks skv. 5. gr. samningsins um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. október 1995 milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtaka Íslands, ef það nýtist ekki í þeim tilgangi.``

Ég hef farið yfir þetta atriði og þarf ekki að endurtaka að þarna er heimild um það að ef uppkaup á greiðslumarki verður ekki eins og að er stefnt þá er heimilt samkvæmt þessu ákvæði um viðbótarskerðingargjald á framleiðsluna að nýta þá peninga til markaðsaðgerða og birgðaráðstöfunar.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi hér farið yfir helstu atriði sem snúa að breytingum á frv. og vil að lokum ítreka að Eiríkur Tómasson lagaprófessor kom á hádegisfund í landbn. í dag ásamt fulltrúum Bændasamtakanna. Við fórum yfir þau atriði sem ég hef áður minnst á að brjóti í bága við samninginn og hvað þau þýddu fyrir þá. Þeir gátu auðvitað ekkert fullyrt um það á þeirri stundu en hér er greint frá viðbrögðum Ara Teitssonar og þar segir: ,,Með hliðsjón af framangreindum breytingartillögum, lýsti Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands, því yfir við landbn. að hann muni leggja til að stjórn Bændasamtakanna og búnaðarþing samþykki þær breytingar sem gera þarf á samningi um framleiðslu sauðfjárafurða vegna þeirra tillagna um breytingar á búvörulögum sem meiri hlutinn kynnti á fundi nefndarinnar 29. nóvember 1995.``

Málið snýst fyrst og fremst um 70 ára regluna þannig að mér heyrðist að þar yrði ekki um mikil viðbrögð að ræða. En það er auðvitað mál Bændasamtakanna og ríkisstjórnarinnar að fjalla um það í framhaldi umræðunnar og afgreiðslunnar hér á Alþingi.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.