Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 20:49:13 (1490)

1995-11-29 20:49:13# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. 1. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[20:49]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þm. um hversu mikið viðbótarfé þarf vitna ég í nefndarálit: ,,Fyrsti minni hluti hefði verið reiðubúinn fyrir sitt leyti að standa að kerfi sem hefði í för með sér umtalsverð útgjöld á næstu fimm árum eins og samningurinn gerir ráð fyrir. 1. minni hluti telur nauðsynlegt að verja verulegum opinberum fjármunum til þessa málaflokks ...`` Hér er ekki kveðið neitt á um að það eigi að leggja meira en 12 milljarða og hér er ekki heldur kveðið á um að leggja minna en 12 milljarða. Þær hugmyndir sem ég gerði grein fyrir eru taldar upp aftast í nefndarálitinu. Sumt felur í sér aukin fjárútlát í upphafi tímabils en einnig er gert ráð fyrir samdrætti í útgjöldum á seinni hluta tímabilsins þannig að þær tillögur þurfa ekki að kalla á viðbótarútgjöld.

Varðandi reglugerðina um útflutning sem vitnað er til fagna ég því ef form. landbn. segir að hann muni fara að lögum þegar hann setur reglugerðina. Ég gerði satt best að segja ráð fyrir að hann mundi gera það og vera í samræmi við bæði GATT-samning og annað. Í ræðu minni dró ég fram þá hugsun sem liggur að baki ákvæðinu. Ég var ekki að gefa í skyn að landbrh. mundi brjóta lög, hv. þm. Guðni Ágústsson.