Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 21:32:17 (1496)

1995-11-29 21:32:17# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[21:32]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýt hér í upphafi máls míns að færa samnefndarmönnum mínum í landbn. þakkir fyrir samstarfið við afgreiðslu þessa máls. Formanninum fyrir lipra leiðsögn og sérstaklega þykir mér ástæða til þess að minnast hér á þátt stjórnarandstöðunnar sem setti sig vel inn í þetta flókna mál og hafði á vissan hátt góð áhrif á störf nefndarinnar þótt leiðir skildu að lokum.

Hér hefur verið talað um að tillögur meiri hluta landbn. feli í sér breytingar á búvörusamningnum. Það er hárrétt. Þær fela í sér breytingar á búvörusamningnum og ég held að það sýni styrk en ekki veikleika að slíkar tillögur skuli koma fram þegar á annað borð svo reynist, eins og ég átti frekar von á, að þingið er ekki sammála þeim gjörningi sem fyrir liggur um þessi efni.

Það hefur reyndar legið fyrir að ég væri ósáttur við búvörusamninginn og m.a. skýrði ég þau sjónarmið hér við 1. umr. þessa máls. En með þeim breytingum sem nú liggja fyrir og þeim áherslum sem koma fram í breytingartillögum landbn. hefur þessi samningur á sér aðrar ásetningar en áður var eins og frv. leit út varðandi breytingar á búvörulögunum. Fyrir mér er það að sjálfsögðu algert aukaatriði hvort menn telja þessar breytingar miklar eða litlar. Ég met það svo að hér sé um stefnubreytingu að ræða frá því sem var í frv. og frá því sem er í samningnum. Og mitt aðalerindi er að rökstyðja þessa niðurstöðu mína.

Það er auðvitað líka grundvallaratriði að þeir sem nú taka við tileinki sér það sem Alþingi kann að hafa að segja um þau efni svo framkvæmdin verði í samræmi við vilja Alþingis, væntanlega á grundvelli þeirra breytingatillagna sem hér liggja fyrir. Ég ætla ekki að leyna því að það urðu mér nokkur vonbrigði að heyra til formanns Bændasamtaka Íslands varðandi breytingarnar, eins og hann túlkaði þær að vísu í stuttu sjónvarpsviðtali í fréttum í kvöld. En ég hlýt að setja traust mitt á hæstv. landbrh., við höfum lengi starfað hér saman og engum treysti ég betur til að taka til hendi á grundvelli þeirra áréttinga sem ég vænti að Alþingi muni staðfesta með samþykkt tillagna meiri hluta landbn.

En því get ég nú þess sérstaklega að ég hef farið yfir ræðu hæstv. ráðherra þegar hann mælti hér fyrir frv. til búvörulaganna og samkvæmt eðli málsins eru þær áréttingar sem þar koma fram í takt við frv. og í takt við samninginn og hafa þess vegna á sér það yfirbragð að byggja á þeim úreldingarviðhorfum sem bæði felast í búvörusamningnum og búvörulögunum gagnvart íslenskum landbúnaði. Og þá sérstaklega sauðfjárræktinni. Ég árétta það sem ég sagði áðan að ég treysti því og er þess reyndar fullviss að hæstv. landbrh. mun starfa á grundvelli þess sem hér verður ákveðið á Alþingi.

Nú ætla ég, virðulegi forseti, að fara yfir breytingarnar og leitast við að sýna fram á í hverju þær eru fólgnar og hverjar hinar nýju áherslur eru.

Þar legg ég áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi að tekin eru upp ný ákvæði og skilvirkari afstaða gagnvart útflutningi á sauðfjárafurðum en var í samningnum og frv. sem hér er til afgreiðslu. Í 2. mgr. 5. gr. frv. segir frá því hverjar heimildir landbrh. eru fengnar til þess að takast á við útflutningsmálin. Og þær eru, með leyfi forseta, þannig:

,,Til að jafna skilaverð til framleiðenda fyrir kindakjöt sem selt er á erlendum mörkuðum samkvæmt samkomulagi sem kveðið er á í 62. gr. laganna getur landbúnaðarráðherra heimilað innheimtu á verðjöfnunargjaldi sem má nema mismun á auglýstu viðmiðunarverði Framleiðsluráðs landbúnaðarins og skilaverði við útflutning (fob). Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ákvæði um útreikning verðjöfnunargjaldsins eftir gæða- og vöruflokkum, svo og ákvæði um innheimtu og ráðstöfun gjaldsins.``

Heimildir ráðherrans voru þær að setja samkvæmt frv. reglugerð um verðjöfnun. Þetta ákvæði er fellt í burtu og í stað þess, eins og hv. framsögumaður skýrði hér áðan, segir nú:

,,Landbrh. skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssambands sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.``

Á Alþingi í maí, þegar lögin voru gefin út, voru gerðar breytingar á búvörulögunum þannig að kveðið var á um að útflutningur á landbúnaðarvörum heyrði til verkefnis landbrh. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, þar sem sagt er frá forræðismálum landbrh. þar með talinn útflutningur landbúnaðarafurða:

,,Á grundvelli þessa ákvæðis hefur hins vegar landbrh. ekki treyst sér til að gefa út reglugerð um skipulag þessara mála. Nú er það hins vegar orðið ótvírætt, verði tillaga meiri hluta landbn. samþykkt, að honum ber að ganga frá slíkum reglum.``

Og þetta er afskaplega mikilvægt. Eins og menn vita er hér um ræða viðkvæman markað og ég minni m.a. á það sem kemur fram í grein eða viðtali við Baldvin Jónsson í Morgunblaðinu í dag þar sem skýrt er frá því að undirboð á erlendum mörkuðum hafi m.a. á þessu ári orðið til þess að verð hafi lækkað. Hér er því um afar mikilvæga áréttingu að ræða í þessum efnum. Ég þarf ekki að taka fram að auðvitað verða þessar reglur að rúmast innan þeirra skuldbindinga sem GATT-samkomulagið leggur okkur m.a. á herðar og var sérstaklega farið yfir þau mál í landbn. með sérfróðum mönnum um þau.

Önnur breyting og afar mikilvæg af þessu sama tilefni er í 3. mgr. 6. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fyrir kindakjöt, sem flytja þarf á erlendan markað, skal afurðastöðvum gert kleift með verðjöfnun að greiða framleiðendum sama verð. Skal uppgjörið miðað við að sama verð greiðist fyrir kjöt af sömu gæðum.``

Með öðrum orðum, allt kjöt sem á að fara til útflutnings, eins og ákvæði frv. segja fyrir um, á að verðjafna þannig að allir fái sama verð. Þetta ákvæði er fellt niður og þar með er fenginn hvati fyrir því að markaðssjónarmið fái að njóta sín þegar sala fer fram á erlendum mörkuðum eða þeirra er leitað af þeim sem með þessi málefni fara.

[21:45]

Nú er það raunar svo að þessir markaðir eru á vissan hátt nokkuð ólíkir og á sumum fæst gott verð. Sérstaklega liggur það fyrir um Færeyjamarkaðinn sem við höfum haft góð not af um margra ára skeið og sama má ætla að verði þegar útflutningur hefst á Noregsmarkað. Þeir markaðir eru fyrst og fremst hinir svokölluðu skrokkamarkaðir, þ.e. kindakjötið fer út óunnið. Þar sem þessir markaðir skila misháu verði verður ekki hjá því komist að einhver tilfærsla muni þar eiga sér stað og af þeirri ástæðu eru gerðar breytingartillögur um 30 kr. gjaldtöku á hvert útflutt kindakjötskíló. Hins vegar er skýrt nákvæmlega í áliti nefndarinnar, og ég vísa til þess til að tefja ekki umræðuna að óþörfu, virðulegi forseti, hvers vegna texti breytingartillagnanna er með þessum hætti og tekið skilmerkilega fram að hér er einungis um að ræða einmitt þessar aðstæður þegar skrokkaverð á erlendum mörkuðum er jafnmisjafnt og raun ber vitni.

Þessar tvær mikilvægu breytingar eru gerðar í sambandi við útflutningsmálin og fela að sjálfsögðu í sér allt önnur og skýrari markmið til sóknar inn á erlenda markaði heldur en bæði frv. og samningurinn gerir ráð fyrir. Hér er um að ræða kannski einhverja þýðingarmestu breytngu, vendingu frá því sem búvörusamningurinn gerir ráð fyrir, því að hann talar skýru máli um það að útflutning eigi að verðjafna að fullu.

Annað atriði, eins og ég sagði áðan, snertir birgðahaldið. Það er alveg ljóst að með því fjármagni og með hliðsjón af þeim birgðum af kindakjöti sem til eru í landinu eða falla til á næsta ári, er ekki séð fyrir því að þeim birgðum verði eytt. En það hygg ég að sé allra dómur að til þess að það nýja kerfi sem tekið verður upp í verðlagningu sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði innan tveggja ára geti virkað og notið sín má ekki vera óeðlilegt birgðahald í landinu. Af þessari ástæðu eru gerðar tillögur um bráðabirgðaákvæði til tveggja ára sem kveða á um að aukin verðskerðing verði tekin af útborgunarverði til sauðfjárbænda og má ætla að sú gjaldtaka muni nema 120--150 millj. kr. Það er auðvitað sár niðurstaða við þær aðstæður sem uppi eru í sauðfjárræktinni að þurfa að auka með þessum hætti gjaldtöku á sauðfjárbændur. En hér er hins vegar verið að fyrirbyggja mikið slys sem af því hlytist ef birgðir væru uppsafnaðar í landinu þegar hið breytta skipulag á sölumálum tekur við.

Jafnframt er gerð breyting á búvörusamningnum. Hún er að sjálfsögðu afar skýr því að í 5. gr. samningsins er kveðið á um að ráðstöfun uppkaupafjár verði breytt. Ég hef nú reyndar kallað það úreldingarfé og mér hefur ekki fundist því vera sérstaklega vel varið, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls. Í texta neðan við töfluna á bls. 16, sem sýnir framlög til hagræðingar og aðlögunar, er þess getið að ef þær 443 millj. sem ætlaðar eru til uppkaupa nýtast ekki til þeirrar ráðstöfunar, þá eiga þær ekki að greiðast til samningsins. Nú er þessu breytt þannig að ef afgangur verður af þessum 443 millj. kr., þá fer hann til markaðsaðgerða. Nú hefur verið gerð breyting á réttarstöðu þeirra bænda sem náð hafa 70 ára aldri þannig að þeir fá nú að búa og starfa áfram, svo er guði fyrir þakkandi. Því má ætla að sú ráðstöfun dragi úr uppkaupaþörfinni og þar af leiðandi verði þarna nokkurt fé til ráðstöfunar í markaðsaðgerðum. Ég tel að þetta sé afar þýðingarmikið og það verður ekki betur séð en að með þessu sé fyrir því séð að birgðir af kindakjöti verði ekki til trafala þegar breytt skipan þessara mála verður upp tekin. Þetta er afar þýðingarmikið ákvæði og mikil trygging fyrir því að þessi mál geti gengið fram með þeim hætti sem til hefur verið ætlast.

Ég hef reyndar minnst á það að í samningnum er kveðið á um að sjötugir bændur skuli ekki eiga lengur réttindi til beingreiðslna, en það ákvæði hefur verið fellt á brott og hafa þeir sama rétt og þeir áður höfðu, þegar frv. hefur náð fram að ganga. Þessar breytingar geta menn auðvitað, eins og ég hef reyndar tekið áður fram, metið með ýmsum hætti. En ég tel þær afar mikilvægar. Verði þær á annað borð gerðar virkar og eftir þeim unnið, þá skiptir minna máli með ýmsan þann ásetning sem í þessum samningi felst og er mér ekki neitt sérstaklega hugnanlegur.

Ég held að sauðfjárræktin eigi framtíð fyrir sér. Það var reyndar mikið um það talað af þeim sem kynntu búvörusamninginn að í honum fælust sóknarfæri. Ekki veit ég hvar þau eru. En aftur á móti sýnist mér að eftir breytingarnar geti falist í þessum samningi, eða réttara sagt í þessum breyttu lögum, viss og ákveðin sóknarfæri með tilliti til þess að þar verði leitað að erlendum mörkuðum, sem reyndar hefur nokkuð verið gert á allra síðustu árum og þá einkum í fyrra með árangri sem vissulega gefur nokkrar vonir.

Við verðum líka að treysta því að á þessum vettvangi eins og öðrum geti landbúnaðarframleiðslan notið þess umhverfis sem hún býr nú við að því er varðar góð rekstrarskilyrði, miklu betri rekstrarskilyrði heldur en áður hafa verið, eins og reyndar í öðrum atvinnugreinum. Með tilliti til þess hversu mikið er lagt upp úr hreinu umhverfi ætti að skapast nokkur sérstaða og nokkrir möguleikar sem við gætum þannig nýtt.

Þetta eru meginbreytingarnar, virðulegi forseti. Það væri auðvitað hægt að hafa hér miklu lengra mál. Þetta er hins vegar niðurstaðan af nefndarstarfinu. Þetta er árangurinn sem náðst hefur. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að það þarf að breyta búvörusamningnum og þess vegna þótti mér sérstök ástæða til þess að draga það fram í dagsljósið með sem allra skýrustum hætti, þótt hv. formaður landbn. hafi verið búinn að gera grein fyrir áliti nefndarinnar.

Ég endurtek svo þakklæti mitt til nefndarmanna, en vil að lokum geta þess sérstaklega að mér þykir mikilvægt að fram kom í máli hv. 5. þm. Suðurl., frsm. 2. minni hluta, stuðningur við þessar tillögur. Það tel ég að styrki málið í heild sinni og met mikils að þannig skuli hafa fengist góður stuðningur við þetta mál. Það styrkir þá niðurstöðu sem hér hefur fengist og ég vek sérstaka athygli á þeim orðum ræðumanns sem hún lét falla um þessa tillögugerð.

Ég vænti svo að hæstv. landbrh. fari vel yfir þessar breytingar og þann ásetning sem í þeim felst. Þá er ég sannfærður um að þær munu skila árangri fyrir sauðfjárbændur og ekki einungis fyrir þá, heldur fyrir bændur alla og búsetu í sveitum landsins.