Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 22:07:12 (1500)

1995-11-29 22:07:12# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[22:07]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi útflutningsbann á kindakjöt í fyrrv. búvörusamningi er þess að geta að þar stendur skýrum orðum að óheimilt sé að flytja það kindakjöt sem er innan greiðslumarks á erlendan markað. Það var áreiðanlega kindakjöt en ekki svínakjöt þannig að það er óumdeilanlegt að svona bann var í samningnum.

Í öðru lagi er vert að minna á að sá búvörusamningur var ekki lögtekinn. Haustið 1991 var hann ekki lögtekinn á Alþingi. Það voru hins vegar gerðar breytingar á búvörulögunum til þess að hægt væri að framkvæma viss efni samningsins, en það var ekki sú samtenging á milli þess samnings og nú er við búvörulögin. Allt þetta byggist því á miklum misskilningi og sýnir reyndar að enn er hv. þm. utan við sig í þessum málum, eins og hann var þegar hann gerði þennan búvörusamning.