Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 22:43:41 (1506)

1995-11-29 22:43:41# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[22:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ekkert áhlaupaverk að nálgast þetta mál sem hér er til umræðu. Það er bæði flókið og á sér langa sögu og snýst náttúrlega í grundvallaratriðum um líf þúsunda manna í landinu. Því er ekki að furða að þetta frv. og þær breytingar sem búið er að gera á því valdi mikilli umræðu enda kallar málið á ítarlega skoðun. Ég vil láta þá skoðun í ljós hér í upphafi umræðunnar að það kerfi, sem við búum við í landbúnaði, það frv. sem hér er til umræðu og þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir eru allar lýsandi dæmi um miðstýringu, ofstjórn og minna mig mest á konunglegar tilskipanir frá 17. öld. Ég gæti reyndar farið lengra aftur í tímann því að það sem hér er á ferð tengist því ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um atvinnufrelsi manna en það ákvæði á rætur að rekja til andúðar og andstöðu gegn iðngildunum sem voru uppi á miðöldum og reyndar fram á 18. öld en mér finnst að með þessu frv. og þessu kerfi sem við búum við sé verið að halda enn eitt skrefið inn í eitthvert miðaldakerfi sem við ættum auðvitað að vera á leið út úr. (MÁ: Með þrælahaldi.) Hv. þm. Mörður Árnason minnir hér á þrælahald. Ég vil ekki ganga svo langt en það er verið að reyra landbúnaðinn enn einu sinni og aftur og enn meir í viðjar laga og reglna og það þarf ekki annað en að skoða lagabálkinn sem gildir um hann til að sjá að hér er um kerfi að ræða sem ekki nokkur önnur atvinnugrein á við að stríða.

[22:45]

Ég spyr hvar íslenskur sjávarútvegur eða íslenskur iðnaður væri staddur ef hann byggi við kerfi af þessu tagi ef hann væri jafnbundinn í viðjar laga og reglna. Hvernig á að vera hægt að reka atvinnugrein með þessum hætti? Hvaða er orðið um stefnu Sjálfstfl. í þessu ríkisstjórnarsamstarfi? Hvað er orðið um hugmyndir Sjálfstfl. um frjáls viðskipti? --- Og horfi ég nú á hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hvar er Sjálfstfl. í þessu máli? Er furða að maður spyrji. Hvernig stendur á því að flokkur sem hefur frjáls viðskipti á stefnuskrá sinni sættir sig við þetta kerfi? Ég vona að ég fái svar við því í kvöld. Það er sjálfstæðismenn í hv. landbn. sem eiga eftir að taka til máls og ég vildi gjarnan fá skýringu á því hvernig þetta samræmist. Hvernig samræmist þessi miðstýring og þessi ofstjórnun stefnu Sjálfstfl., hv. þm. Árni M. Mathiesen? Ég vil gjarnan fá svar við þessu.

Því er auðvitað ekki að leyna og það vitum við öll sem hér erum að íslenskur landbúnaður og þá sérstaklega sauðfjárframleiðslan á við mikinn vanda að stríða. Þann vanda er ekki hægt að skrifa á reikning þessarar ríkisstjórnar, hann á sér langa sögu eins og hér hefur komið fram. Ekki veit ég hvort upphafsins er að leita í stefnu og aðgerðum Ingólfs frá Hellu, sem eitt sinn var landbrh., eða hvort við þurfum að fara enn þá lengra aftur í tímann. Vandinn er til staðar og hann lýsir sér í því að of margir bændur framleiða fyrir of lítinn markað og það kerfi sem hér hefur verið við lýði hefur leitt til þess að kjör þessa hóps bænda hafa versnað verulega. Vandinn á rætur í því að það hafa orðið miklar tæknibreytingar í landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum sem kalla á mun minna vinnuafl en bændum hefur ekki fækkað að sama skapi og vinnan hefur dregist saman. Það er ríkir offramleiðslukreppa í íslenskum landbúnaði og jafnframt því hafa orðið miklar neyslubreytingar í samfélagi okkar sem ég vil meina að sauðfjárbændur hafi alls ekki brugðist rétt við. Ár eftir ár hefur neysla kindakjöts dregist saman og það kemur fram í plöggum okkar að neyslan hefur dregist saman um u.þ.b. 200 tonn á ári á undanförnum árum sem er ekkert smáræði. Því er ekki að undra þó þessi hluti landbúnaðarins eigi við gífurlegan vanda að stríða. Ráðin sem hafa verið notuð eru þessi gríðarlega vinsæli flati niðurskurður sem íslensk stjórnvöld hafa beitt ótæpilega jafnt á fjárlögin sem á landbúnaðinn og það hefur auðvitað leitt til þess að allir hafa verið skornir niður og fjöldi bænda niður fyrir hungurmörk.

Mér er afar minnisstæð heimsókn sem landbn. fór um sauðfjárræktarhéruðin á Vesturlandi og Norðvesturlandi. Við heimsóttum nokkrar sýslur landsins í byrjun sumars 1994. Þar gerðu bændur okkur úr einum fjórum sýslum okkur grein fyrir stöðu sinni. Þar er þess ekki síst að minnast hversu margir bændur sögðu: ,,Ég verð sá síðasti á þessari jörð, hér er enginn til að taka við.`` Það er einfaldlega vegna þess að lífsskilyrðin sem boðið er upp á eru þannig að það vill enginn taka við, það er ekki lífvænlegt að vera sauðfjárbóndi. Þessu þarf auðvitað að breyta.

Í grein sem birtist í Vísbendingu 9. nóv. sl. eftir Sigurgeir Þorgeirsson, sem var aðstoðarmaður fyrrv. landbrh., Halldórs Blöndals, fellir hann þungan dóm yfir núverandi búvörusamningi. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Kerfið sem komið var á með búvörusamningi 1991 var strandað. Þá var afnumin greiðsluábyrgð ríkisins fyrir umsamið magn kindakjöts sem gilt hafði um nokkur ár en eftir sem áður voru sláturhús skylduð til að greiða allt kjöt innan kvóta fullu verði fyrir tiltekinn dag. Þetta gat auðvitað aldrei gengið upp. Kvóti var ákveðinn árlega ár fram í tímann með söluviðmiðun aftur í tímann. Og með minnkandi neyslu hlóðust upp byrðir sem búið var að borga bændum fyrir. Þær mátti hins vegar ekki flytja úr landi og það var reyndar ekki mögulegt fyrir það verð sem dugði fyrir kostnaði. Framleiðslukvóti, greiðslumark hvers bónda, markaði hve mikið hann gat lagt inn og fengið fullt verð fyrir. Þessi stífu mörk hvöttu til heimaslátrunar og sölu á svörtum markaði sem hefur grafið undan hinum löglega markaði og á sinn þátt í því að kvótinn hefur minnkað ár frá ári. Mönnum ber saman um að aldrei hafi þessi starfsemi blómstrað eins og í haust. Með kvótastýringu hefur ekki tekist að aðlaga framleiðsluna markaðsþröfum á sama tíma og heildarkvótinn hefur minnkað úr 8.150 tonnum árið 1992 í 7.200 tonn í haust hefur fjöldi sauðfjár í landinu staðið í stað eða heldur aukist. Þótt mótsagnakennt megi virðast þá má færa að því rök að í kvótakerfinu hafi falist viss framleiðsluhvati með því að bændur freistuðust oft til að setja á fleira fé en skyldi fremur en að lóga því fyrir lítið verð.``

Þetta er mjög dapurleg lýsing á búvörusamningi sem enn er í gildi en eins og við vitum þá fólst í honum eins konar skrúfa niður á við sem þrengdi sífellt meir að bændum og hefur með þeim breytingum sem orðið hafa á neyslu leitt til þess að þeir hafa sífellt orðið að skera niður þá framleiðslu sem þeir hafa fengið greitt fyrir en hafa jafnframt leiðst til þess að selja á svörtum markaði. Eins og hér kemur fram þá telja menn að síst hafi dregið úr slíkri sölu.

Áður en ég kem að sjálfu frv. og breytingartillögunum vil ég gera að umtalsefni stefnu minna ágætu samtaka í landbúnaðarmálum og tengja hana aðeins við búvörusamninginn sem liggur að baki frv. sem hér er til umræðu.

Í stefnuskrá Kvennalistans, sem samin var fyrir síðustu kosningar segir, með leyfi forseta: ,,Gera þarf nýjan búvörusamning við bændur sem nær til allra greina og þátta landbúnaðarins. Taka þarf á verðmyndunarkerfinu, vinnslu og dreifingu landbúnaðarvara líkt og tekið var á framleiðslunni sjálfri á sínum tíma. Það verður að skipuleggja búvöruframleiðslu og landnýtingu með langtímasjónarmið í huga og taka tillit til náttúru landsins, gæða þess og gagna. Nauðsynlegt er að koma til aðstoðar þeim bændum sem verst standa, láta landkosti ráða því hvar stutt er við búskap og leita leiða til atvinnusköpunar. Vel skipulagður og hagkvæmur landbúnaður er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, bænda jafnt sem neytenda. Stefna ber að því að landbúnaðurinn verði rekinn eins og hver önnur atvinnugrein. Hann þarf að aðlagast þörfum markaðarins og óskum neytenda. Bændur þurfa sjálfir að hafa forustu um nauðsynlegar breytingar og vinna að því að draga úr miðstýringu og ríkisafskiptum af landbúnaði.``

Því miður er sú stefna sem kemur fram í þessu lagafrv. og búvörusamningnum ekki í neinu samræmi við þetta og þar er ekki síst að nefna að búvörusamningurinn tekur ekkert tillit til þess hvar hagkvæmast er að framleiða lambakjöt eða hvernig þetta kerfi kemur heim og saman við æskilega landnýtingu. Eins og hefur margkomið fram í umræðunni er ekki að finna neina framtíðarsýn í þessum samningi. Það er bara hjakkað í sama farinu og miðstýring og ofstýring framlengd til næstu fimm ára.

Við samningu búvörusamningsins var ekkert samráð haft, hvorki við stjórnarandstöðu né aðila vinnumarkaðarins sem komu þó mjög að undirbúningi búvörusamningsins frá 1991. M.a. er bent á það í plaggi frá Vinnumálasambandinu sem við í landbn. höfum undir höndum að við gerð samningsins frá 1991 hafi verið slakað mjög á markmiðum og það hafi verið gerðar ýmsar málamiðlanir sem drógu mjög úr möguleikum til að ná fullum árangri.

Auðvitað má spyrja hvort það sé einhver ástæða til að kalla aðila vinnumarkaðarins til við samningu búvörusamnings af þessu tagi. Svar mitt við því er já. Ég held að stjórnarandstaðan hefði átt að koma þar að líka. Hér er á ferð mál af því tagi sem breiða samstöðu þarf um. Við erum að tala um mikinn vanda ákveðins hóps fólks í landinu. Við erum að tala um atvinnugrein sem á í miklum vanda og það hefði verið affarasælast, hæstv. landbrh., að reyna að ná breiðri samstöðu um málið. En því miður var það ekki gert og sú mikla þekking og vinna sem Alþýðusambandið, Vinnuveitendasambandið, BSRB og fleiri aðilar lögðu í búvörusamninginn frá árinu 1991 var ekki nýtt nú og þeim ekki gert kleift að koma með sjónarmið sín inn í þessa vinnu sem ég held að hefði að mörgu leyti verið mjög til bóta enda verður ekki sagt að þessi vinna sem hér liggur fyrir beinist að neytendum eða fólkinu almennt í landinu. Þó vil ég nefna það sem mér finnst heldur skárra en áður við gerð búvörusamninga að árið 1987, þegar fyrsti búvörusamningurinn var gerður, og árið 1991 var gengið frá þessum stóru samningum nokkru áður en ríkisstjórn fór frá völdum. Mér hefur alltaf þótt mjög gagnrýnivert að menn skyldu ganga frá svo viðamiklum samningum í stað þess að gefa nýrri ríkisstjórn færi á að koma að málinu. Það gerðist þó í þetta sinn að ný ríkisstjórn kom að nýjum búvörusamningi á því stigi að hún gat haft áhrif á hann. Hún hafði tækifæri til að gera verulegar breytingar en því miður var það tækifæri ekki nýtt.

Ég ætla þá að víkja að lagafrv. sjálfu og þeim brtt. sem hafa verið lagðar fram við það. Það vakti athygli okkar í landbn. hvað frv. reyndist gallað. Reyndar vakti það upp spurningar hjá mér varðandi það hvernig við stöndum að vinnu við lagafrv. á hinu háa Alþingi. Þau koma iðulega úr ráðuneytunum og fá ekki nauðsynlega lögfræðilega skoðun hér innan dyra fyrr en á síðari stigum. Ég held að við gætum oft sparað okkur heilmikla vinnu með því að byrja á því að setja þessi frv. í lögfræðilega skoðun hér innan dyra til þess einfaldlega að ná fyrir ýmsa galla eins og það að frv. eins og þetta standist ekki stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Eins og einhver orðaði það í nefndinni er eins og þeir hafi ekki frétt af því upp í landbrn. að stjórnarskránni hefði verið breytt. (Gripið fram í.) Prófessor Sigurður Líndal hefur leitt rök að því að öll búvörulögin séu brot á stjórnarskránni og er auðvitað ekki gott ef satt er. Hér átti reyndar að ganga enn þá lengra í því en þeir lögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar bentu á þessi atriði. Það má segja að það hafi ekki staðið steinn yfir steini í lagafrv. eftir það þeir fóru yfir það og það er nú ein meginorsökin fyrir þeim mörgu breytingartillögum sem hér liggja fyrir auk annarra breytinga. Samt sem áður er að finna í frv. og breytingartillögunum atriði sem ég tel orka vægast sagt tvímælis. Ég efast um að þau standist stjórnarskrána. Ég kem að því eftir örskamma stund.

[23:00]

Ef við lítum aðeins á það sem felst í þessu frv. og búvörusamningnum þá spyr ég mig fyrst að því hvaða hugmyndafræði liggi þar að baki. Og ég spyr aftur þeirrar spurningar: Hvernig væri komið fyrir öðrum atvinnugreinum í landinu ef þær byggju við kerfi á við þetta? Hvaða hugmyndafræði er þetta og hvaðan er hún eiginlega ættuð? Þetta minnir helst á miðaldirnar eins, og ég nefndi hér áðan, og ýmis stjórnkerfi austur í Evrópu og austur í Kína sem menn hafa verið að hamast við að losa sig við. Og fyrst hæstv. forsrh. hefur heiðrað okkur hér með nærveru sinni vil ég beina þeirri spurningu til hans: Hvernig samrýmist sú hugmyndafræði sem búvörulögin byggja á og sá gjörningur sem hér er til umræðu stefnu Sjálfstfl. um frjálsa viðskiptahætti? Hvernig samrýmist þetta frelsi atvinnugreina til að stjórna sér sjálfum? (Forsrh.: Það er gott skref í þá áttina í samningnum.) Nei, hann er ekki gott skref í þá átt, hæstv. forsrh. Því miður. Hér er ekki verið að veita frelsi af einu eða öðru tagi. Hér er einfaldlega um miðstýrðan ríkisrekstur að ræða. Það sem í þessum samningi felst er að það er verið að ákveða magn kjöts til útflutnings og þar með líka á innanlandsmarkað og hvort tveggja hefur þetta áhrif á verðlagið á vörunni.

Ég spyr líka: Hvaða hagfræði er þetta sem hér er á ferð og hvaðan er hún eiginlega ættuð? Á hvaða hagfræðikenningum byggir þessi stefna? Eins og þetta blasir allt við mér er hér um alveg ótrúlegt kerfi að ræða sem tekur til sín gríðarlegt fjármagn. En því miður bendir allt til þess að við séum ekki á leið út úr þessari miðstýringu. Þeir aðilar sem komið hafa að vinnunni við þetta frv. og hafa látið álit sitt í ljós benda flestir á að eftir tvö ár, þegar að því kemur að stíga þessi litlu skref í átt til frelsisins, munum við standa í sama vanda og nú. Og þegar samningstíma lýkur þremur árum síðar verðum við einfaldlega hjakkandi í sama farinu. Ég vona svo sannarlega að það felist í þessu frv. meiri breytingar en séð verður. Allir þeir aðilar sem að málinu komu, Vinnuveitendasambandið, Alþýðusambandið, Hagþjónusta landbúnaðarins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gagnrýna þetta frv. harðlega og benda fyrst og fremst á að þau markmið sem menn setja sér með samningnum og með lagafrv. muni einfaldlega ekki nást.

Hver eru þau markmið, hæstv. forseti? Þau eru í fyrsta lagi að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur. Í öðru lagi að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda. Í þriðja lagi að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og í fjórða lagi að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd. Það sem fyrst og fremst skiptir máli hér er að jafnvægi náist milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða. Það er meginmarkmiðið og það mikilvægasta í þessum samningi. En það á að gera með því að stefna að útflutningi og sjálfur framkvæmdastjóri Bændasamtakanna hefur bent á að það sé mjög mikið vafamál að það markmið náist. Það er mikið vafamál að það takist að auka útflutning og þarf engan að undra. Skortur á kjöti er hvergi í heiminum og víða framboð af lambakjöti. Ef það gengur eftir að ekki takist að auka útflutning, er birgðavandinn áfram til staðar. Þá er hann ekki leystur en sá stóri vandi sem við er að glíma er einmitt offramleiðslukreppan. Aðalgagnrýnin, eins og ég nefndi hér áðan, gengur út á að þessi markmið muni ekki nást. Það felist framleiðsluhvati í þessum samningi og að áform um útflutning muni ekki ganga eftir. Ef þetta reynist rétt þá erum við áfram í sama vanda.

Ég ætla að víkja aðeins að einstökum atriðum þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir. Þar er auðvitað fyrst að nefna það að meiri hluti landbn. sá sig knúinn til að gera svo veigamiklar breytingar á frv. að þær breyta sjálfum samningnum. Þær ganga þvert á sjálfan samninginn. Og þar er fyrst að nefna að það er ekki lengur gengið út frá sama verði til allra framleiðenda, eins og gert var ráð fyrir í samningnum og í lagafrv. En veigamesta breytingin er kannski sú að 70 ára reglan er felld niður. Það er m.a. vegna þess að menn eru hreint ekki vissir um að sú lagagrein að takmarka atvinnufrelsi bænda sem orðnir eru 70 ára og eldri standist stjórnarskrána. Þótt bent hafi verið á í umræðunni að slíkar reglur séu til og hafi verið settar varðandi ýmsar stéttir var jafnframt rifjaður upp dómur sem féll hjá mannréttindadómstóli Evrópuráðsins og varðar leigubílstjóra. Það er því afar óvíst að það stæðist fyrir dómi að hægt sé að svifta bændur, 70 ára og eldri, réttindum með þessum hætti. En þessi breyting þýðir að fleiri bændur fá beingreiðslur. Það þýðir að upphæðin til bænda lækkar nema peningar verði teknir annars staðar frá, m.a. vegna minni uppkaupa, og þeim deilt út til bænda. Það er einmitt þriðja breytingin sem gengur þvert á samninginn. Það er gert ráð fyrir því að það megi verja þeim peningum sem áttu að fara til uppkaupa á greiðslumarki til annarra hluta. Loks er að nefna það að verðtryggingin sem gert er ráð fyrir í lögunum fer út, en er áfram í samningnum.

Þá vil ég nefna hér sérstaklega tvö atriði í breytingartillögum meiri hlutans sem stinga mjög í augu. Þau snerta það líka hvort þessi lög standist stjórnarskrána, þ.e. hvort skylda megi aðila til þátttöku. Það er þá fyrst og fremst það atriði sem snýr að bændum sjálfum en í b-lið 5. liðs brtt. við 6. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð.``

Allir bændur eru skyldaðir til þess að taka þátt í útflutningi. Þeir einir sem fara niður fyrir markið, 0,7 vetrarfóðraðar kindur, geta sagt sig frá þessum útflutningi. Mér finnst þetta vægast sagt afar harkaleg lagagrein. Mér finnst þetta afar umhugsunarvert, hv. form. landbn., að takmarka rétt manna með þessum hætti. Formaðurinn brosir blítt og hefur ekki áhyggjur af þessu en ég hef miklar áhyggjur af þessu og fróðlegt væri að sjá hvort þetta stæðist fyrir dómstólum. Fyrir utan hugmyndafræðina í þessu, séra minn, hvaða tilgangi þjónar það og hvernig samrýmis það eðlilegum viðskiptaháttum að skylda alla bændur með lögum til að taka þátt í þessu kerfi? Fyrir mér er þetta enn ein sönnun þess hvers konar kerfi er hér á ferð.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara hér ítarlega út í alla þá gagnrýni sem komið hefur fram á þetta frv. og ég hef nefnt hér dæmi um. Það væri vert að gera þeirri gagnrýni góð skil en það hefur komið fram í umræðunni í kvöld hver þau meginatriði eru. En við hljótum að velta því fyrir okkur hvað muni gerast ef lögin verða að veruleika, ef þau verða samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Ég sé það fyrir mér að það verða gerðar frekari tilraunir til útflutnings og það er auðvitað ekki hægt að segja um það á þessari stundu hvernig þær muni takast. En eins og ég hef áður nefnt eru menn efins. Þeir óttast að þau áform muni ekki ná fram að ganga. Það er verulegt magn sem þarf að flytja út til þess að ná jafnvægi í framleiðslunni. Takist það ekki, er þarna orðin til framleiðslugildra. Ég sé líka fyrir mér að einhver hópur bænda muni nýta þetta tækifæri til þess að hætta búskap og ég fékk upplýsingar um það hér áðan að 111 bændur eru þegar búnir að selja allan sinn rétt, sem nemur um það bil 8.500 ærgildum og boðinn er ráðuneytinu til kaups. En spurningin er hvað þetta segir fyrir bændastéttina í heild og þann árangur sem þarf að nást varðandi fækkun bænda. Þessi lög þýða að ríkið heldur áfram að verja stórfé til landbúnaðarins og ég spyr: Er þetta rétt forgangsröð? Er þetta það sem er brýnast í samfélagi okkar? Eru það réttar áherslur að auka fjárframlög til landbúnaðar meðan við erum að skera niður í velferðarþjónustunni? Ég get ekki skrifað undir það. Ég get ekki sætt mig við að það sé verið að auka fjárframlög til landbúnaðarins. Ég gæti sætt mig við núverandi búvörusamning, þ.e. það fjármagn sem fer til hans, ef ég hefði trú á því að þar væri um raunverulegar umbætur að ræða. En ég hef því miður miklar efasemdir um það.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég draga það saman sem ég hef sagt hér og ég verð að segja að öll sú hugmyndafræði sem býr að baki þeim mikla lagabálki sem heitir ,,Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum``, er mér hreint ekki að skapi. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að þróa landbúnaðinn í þá átt að hann verði rekinn eins og hver önnur atvinnugrein og bændur eigi sjálfir að stjórna þar för en ekki ríkisvaldið eins og hér er gert. Ég hef miklar efasemdir um að þau markmið sem menn hafa sett sér í lagafrv. og búvörusamningnum muni nást þó ég voni vissulega að svo verði. Ég get ekki sætt mig við að auknu fjármagni sé varið til landbúnaðarins, síst af öllu þegar ekki er tryggt að það skili viðunandi árangri. Því tek ég undir þá tillögu sem við úr stjórnarandstöðunni stöndum öll að að frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar, að menn hefjist handa að nýju og semji nýjan og betri samning sem tryggi raunverulega þau markmið sem menn vilja ná fram.