Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:16:42 (1507)

1995-11-29 23:16:42# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:16]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég get ekki leynt því að þegar sá búvörusamningur, sem nú hefur orðið tilefni þess að við gerum tilraun til að breyta búvörulögunum var samþykktur, olli hann mér miklum vonbrigðum. Það var vegna þess að ég tel samninginn gallaðan. Fyrst og fremst vegna þess að hann tekur ekki mið af þeirri þróun sem verið hefur í neyslu á lambakjöti innan lands og þeirri þróun sem verið hefur á verði á lambakjöti erlendis. Þetta þýðir að miðað við svipaða framleiðslu og að teknu tilliti til fyrirhugaðra uppkaupa og svipaðrar þróunar á innanlandsneyslu verða þeir að flytja út 2.000--3.000 tonn á ári. Útflutningur á síðasta ári var hins vegar einungis um 1.000 tonn jafnvel þótt við höfum unnið ágætt markaðsstarf að undanförnu. Jafnvel þótt það markaðsstarf, sem við erum nú að vinna, skili okkur áfram árangri getum við samt ekki gert ráð fyrir að við náum að flytja út 2.000--3.000 tonn af kindakjöti á ári. Ef okkur tækist það væri engin sérstök þörf fyrir búvörusamninginn.

Neysla á lambakjöti hefur minnkað ár frá ári og ég er sannfærður um að hún mun halda áfram að minnka. Þetta er vegna breyttra lífshátta og eins vegna þess að verðlagskerfi sauðfjárræktarinnar hefur verið afar ósveigjanlegt og þar af leiðandi hefur það ekki getað brugðist við samkeppni frá öðrum matvörum á innanlandsmarkaði. Þegar við horfum fram á veginn hvernig þróunin muni verða á fyrstu þremur árum þessa búvörusamnings stöndum við frammi fyrir þremur möguleikum.

Í fyrsta lagi að það verði nokkurn veginn óbreytt ástand. Það er þá vegna þess að ákvæði í samningnum og búvörulögunum sem eru hamlandi ákvæði hvað varðar búfjáreign frekar en framleiðsluna hafa svipuð áhrif og kvótakerfið hefur í dag og hefur haft að undanförnu. Ef það verður niðurstaðan þá spyr ég: Til hvers var barist? Þá mun afkoma og aðstæður bænda ekki batna svo nokkru nemi.

Annar möguleikinn er sá að það verði framleiðslusprenging eins og spáð hefur verið og að okkur takist að flytja út það kjöt sem er umfram innanlandsframleiðsluna. Ef okkur tekst það þá hefði ekki verið nein nauðsyn á því að breyta búvörusamningnum. Ef framleiðslusprenging verður en okkur tekst ekki að flytja út það kjöt sem er umfram innanlandsneysluna mun það hins vegar setja óbærilegan þrýsting á innanlandsmarkaðinn og verðlagskerfið til bænda, hið fastákveðna verð til bóndans, mun bresta. Það mun bresta á þann hátt að minnstu sláturleyfishafarnir í afskekktustu og minnstu byggðunum sem veikast standa munu fyrstir neyðast til að fara í undirboðin. Stóru sláturleyfishafarnir á Suður- og Vesturlandi og á Eyjafjarðarsvæðinu munu alltaf geta afsett allt sitt kjöt.

Önnur ástæða fyrir því að ég varð fyrir vonbrigðum með samninginn er sú að í honum er allt of flókin miðstýring. Það venst auðvitað en það stakk verulega í augu að sjá 0,6 kind eða 0,6 kindur og 0,7 kind eða 0,7 kindur. Ég ætla ekki að fara nánar út í það í hvaða tilgangi þessi hugtök eru notuð, það þekkja allir sem hlusta á mig.

Jafnframt eru í búvörusamningnum jöfnunarákvæði varðandi verð á útfluttu lambakjöti. Það er alkunna að slík jöfnunarákvæði draga úr frumkvæði þeirra aðila sem út eiga að flytja.

Ég hafði tækifæri til að fylgjast nokkuð með samningagerðinni og hafði tækifæri til að reyna að koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Það var reyndar stefna sem unnin var í landbn. Sjálfstfl. og sú stefna var nokkurn veginn samhljóða þeirri stefnu sem kennd var við sunnlenska bændur í þeirri umræðu sem fram fór í haust. Helstu talsmenn þeirrar stefnu í fjölmiðlum voru Kjartan Ólafsson, bóndi og búnaðarþingsfulltrúi, og á reyndar sæti í landbn. Sjálfstfl., og Bergur Pálsson, formaður Búnaðarsambands Suðurlands, en hann á hins vegar ekki sæti í landbn. Sjálfstfl. eins og hv. þm. Suðurl. vita væntanlega.

Ef þessi stefna hefði verið farin hefði hún falið í sér betri búvörusamning en raun varð á. Tillögurnar fólust í stuttu máli helst í því að færa sem mest af þeim fjármunum, sem fara í búvörusamninginn, í beinar greiðslur til bænda algjörlega ótengdar framleiðslu en nota allt að einum milljarði af þessum fjármunum dreift á fimm ára tímabil samningsins til að leysa birgðavandann eins og hann verður eftir sláturtíðina nú í haust. Þá er ég að tala um að u.þ.b. um miðjan ágúst á næsta ári væri svo að segja kjötlaust í landinu þannig að þá væri hægt að hefja sláturtíð og koma fersku kjöti á markaðinn til að svara þörfum og vonum markaðarins. Samfara þessu væri framleiðslan gefin frjáls og verðlagning væri gefin frjáls bæði á heildsölustigi og eins til bænda frá og með haustinu 1996. Útflutningurinn yrði hins vegar alfarið á ábyrgð útflytjenda sjálfra en þeim bændum, sem vildu hætta búskap, væri gefið tækifæri til þess með eingreiðslu sem næmi ávöxtuðum beingreiðslum tiltekins árafjölda. Þeir gætu þá leitað fyrir sér á nýjum starfsvettvangi. Ég er sannfærður um ef farið hefði verið að þessum tillögum hefði verið hægt að útfæra bæði árangursríkari og ódýrari samning en við stöndum nú uppi með.

Ég vísa í þessu sambandi til greinar sem Markús K. Möller hagfræðingur skrifaði í Morgunblaðið 8. okt. sl. þar sem hann sýndi fram á að hefði þessi leið verið farin með sömu upphæð væru uppkaupatilboð til bænda þriðjungi hærri.

Enda þótt ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með samninginn þá er hann ekki algjörlega ómögulegur. Hann hefur sem betur fer einhverja kosti. (Gripið fram í: Hverjir eru þeir eftir þessa lesningu?) Já, hv. þm., samningurinn gefur framleiðsluna frjálsa en bindur hana þó við þá sem eiga 0,6 kindur fyrir hvert ærgildi úr hinum gamla samningi. Þar kem ég einmitt að því að það eru plúsar og mínusar í þessu. Þetta er flókið kerfi en samt sem áður er meira frjálsræði í þessu kerfi en í hinum eldri búvörusamningi sem samþykktur var og gerður af þeirri ríkisstjórn er sat fyrir kosningarnar vorið 1991.

Annar mikilvægur áfangi samningnum er að ráðstöfun vaxta og geymslugjalds og ullarniðurgreiðslnanna er ekki lengur til afurðastöðvanna sjálfra. Bændur hafa ráðstöfunarrétt á vaxta- og geymslugjaldinu. Eins og ég sagði áðan hefði að mínu mati verið mun betra að vaxta- og geymslugjaldið hefði verið tekið inn í beingreiðsluhlutann og farið beint til bænda og hver og einn bóndi síðan gert upp við afurðastöð sína um sláturkostnaðinn. Jafnframt þessu felur samningurinn í sér að frá og með næsta hausti verði heildsölukostnaður og sláturkostnaður gefinn frjáls. Það mun væntanlega skapa einhverja samkeppni á þeim markaði þó ég sjái ekki fram á að hún muni skila sér að fullu það haustið. Þessu til viðbótar, og það er hið mikilvægasta að mínu mati í samningnum, að frá og með haustinu 1998 verður frjáls verðmyndun til bænda að veruleika. Þá fyrst get ég séð fram á það að samningurinn fari að skila einhverjum árangri þegar verðmyndun til bænda og verðmyndun á heildsölustigi hefur verið gefin frjáls. Ég tel hins vegar að innanlandsmarkaðurinn muni um ókomna framtíð verða íslenskum bændum það mikilvægur að þeir muni ekki misnota sér þetta atriði eða landbrh. tryggja það þeirra vegna ekki síst að svo verði ekki. Þess vegna held ég að eftir árið 1998 verði frjáls verðmyndun á sauðfjárafurðum.

Þrátt fyrir þau vonbrigði sem ég hef lýst hef ég komist að þeirri niðurstöðu annars vegar með tilliti til þeirra jákvæðu þátta sem ég hef nefnt og hins vegar með tilliti til þess að ríkisstjórn, sem gerir samning sem þennan og leggur fram lagabreytingar í samræmi við hann á Alþingi og fær honum ekki framgengt í öllum meginatriðum, verði ekki langlíf ríkisstjórn. Ég hef ákveðið að styðja ríkisstjórnina og tel þar af leiðandi að ég verði að styðja ríkisstjórnina hvað þennan samning varðar.

Í þeirri vinnu sem fram hefur farið í landbn. hafa verið gerðar nokkrar breytingar á samningnum. Að mínu mati er þar hvergi um neinar grundvallarbreytingar að ræða. Þær eru þó langflestar ef ekki allar til bóta.

[23:30]

Í fyrsta lagi er um lagatæknilegar breytingar að ræða. Það er verið að færa frv. til betri vegar, til betri lagasetningar. Því miður var upphaflega frv. áfátt þar um.

Í öðru lagi eru tvær breytingar sem að mínu mati eru breytingar á búvörusamningnum við bændur. Þar er annars vegar um að ræða hina svokölluðu 70 ára reglu og hins vegar að það sem hugsanlega yrði eftir af uppkaupafjármunum mætti nota í þeim tilgangi að laga birgðastöðuna á þeirri forsendu að ef eitthvað verður eftir af birgðapeningunum þá hafa uppkaupin verið þeim mun minni og þar af leiðandi gæti birgðavandinn verið þeim mun meiri. Því tel ég rétt að við nýtum peningana til þessa þáttar, svo markaðurinn verði eins vel undirbúinn og hægt er fyrir þá frjálsu verðmyndun sem ég lýsti áðan. Heildarupphæðin sem um er getið í frv. mun ekki breytast við þetta.

Í þriðja lagi eru efnisbreytingar á frv. sem að mínu mati eru ekki breytingar á búvörusamningnum sjálfum. Þá vil ég fyrst nefna að verðjöfnun vegna útflutnings verður, ef breytingartillögurnar verða samþykktar, mun minni en í hinu upprunalega frv. og hægt væri að setja fram ef búvörusamningurinn væri túlkaður til hins ýtrasta.

Þetta tel ég jákvætt sérstaklega með tilliti til þess að ef þetta á eitthvað að ganga hjá okkur, verðum við að umbuna þeim á einhvern hátt eða alla vega reyna að draga sem minnst niður þá aðila sem vilja standa í útflutningi.

Í öðru lagi hafa verðtryggingarákvæði varðandi upphæðir samningsins, heildarbeingreiðslumarkið og beingreiðslumark til bænda, verið tekin út úr lögunum. Eftir sem áður verður ríkisvaldið að standa við skuldbindingar sínar varðandi samninginn. Það verður þó að leita til Alþingis með þær breytingar og hafa þá væntanlega fylgi fyrir því hjá sínum stuðningsmönnum. Ég tel að með því að hafa þetta ákvæði ekki inni í lögunum séum við að gæta samræmis við aðra þá hluti sem við erum að gera hvað verðtryggingu varðar í fjárlögum okkar og tel því óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu.

Í breytingartillögum við 6. gr. frv. eru breytingar er varða möguleika ráðherra til þess að hafa áhrif á skipulag útflutningsins. Þar er jafnframt gerð grein fyrir því hvernig sláturleyfishöfum ber að ráðstafa sláturafurðum annaðhvort með því að leggja til útflutnings eða semja við aðra sláturleyfishafa sem hafa útflutningsleyfi um vinnslu á afurðum. Sé þess ekki kostur, ber þeim að greiða gjald sem er mismunur á heildsöluverði og viðmiðunarverði vegna útflutnings. Ég tel þetta hvort tveggja orka nokkuð tvímælis. Ef heildsölukostnaður verður metinn á þann hátt sem við þekkjum í dag, miðað við það hvernig útflutningsverð er metið, er sláturkostnaður reiknaður mun hærri inn í heildsöluverði en hann hefur verið reiknaður inn í útflutningsverðið. Fyrir utan þennan mismun tel ég að til þess að hægt sé að nota þessar tölur til samanburðar eða til þess að draga frá, þ.e. þá síðari frá þeirri fyrri, verði að vera samræmi á milli sláturkostnaðar í báðum þessum tölum. Ég tel reyndar að þegar heildsöluverð verður gefið frjálst og samkeppnin fer að sanna sig muni svo verða, en í upphafi getur orðið einhver brestur á þessu. En þá vil ég vísa til 18. gr. laganna sem gerir það óheimilt að bæta upp erlendan markað með því að leggja álögur á innlenda markaðinn. Samkvæmt því er óheimilt að reikna hærri sláturkostnað á það sem fer á innanlandsmarkað en það sem fer á erlendan markað. Ég treysti því að það verði gætt réttlætis í því þegar þessar tölur verða ákvarðaðar og útreikningar fara fram.

Ég nefndi áðan þær heimildir sem ráðherra fær til þess að gefa út reglugerðir til að skipuleggja útflutninginn. Þetta hefur verið gagnrýnt hér í kvöld. Að vissu leyti er sú gagnrýni réttmæt. En þegar við skoðum þetta verðum við annars vegar að gera það í heild og út frá því kerfi sem samningurinn er að byggja upp fyrir okkur og hins vegar á þeim raunveruleika sem við búum við hvað varðar útflutningsmarkaðina. Það eru ekki nema fá sláturhús sem hafa heimild til að flytja á erlenda markaði. Það erum ekki við sem veitum þessar heimildir heldur hinir erlendu aðilar. Jafnframt er hinn erlendi markaður kvótaskiptur og það erum ekki við sem ákveðum hverjir kvótarnir eru, heldur erlendir aðilar. Við þurfum að tryggja samstarf á milli sláturleyfishafanna, bæði þeirra sem hafa útflutningsleyfi og hinna sem hafa það ekki, svo þessir markaðir nýtist okkur sem best. Ég tel að í þessari grein felist ekki heimild til ráðherra til að banna einum eða neinum útflutning eða koma hér á einhverju einokunarkerfi. Ef svo ætti að vera þyrfti mun sterkari lagaheimildir í þessari lagagrein en væntanlega verða þar, ef af samþykkt hennar verður hér á hinu háa Alþingi. Jafnframt setja viðskiptasamningar sem við höfum gert við alþjóðastofnanir og erlend ríki okkur takmörk í þessu efni.

Ég vil að lokum nefna tvö atriði sem ég vildi gjarnan að hæstv. landbrh. lýsti afstöðu sinni til. Það er annars vegar endurskoðunarákvæðið sem er í gr. 2.1 í samningnum varðandi það að aðilar samningsins geti óskað endurskoðunar á upphæðum beingreiðslumarksins á tveggja ára fresti ef breytingar verða á kindakjötsmörkuðum. Ég tel að það þurfi að vera skýrt að ríkisvaldið muni hafa þessa samningsgrein í huga og beita henni ef breytingar verða á markaðnum. Í öðru lagi hefur verið gagnrýnt hér að samningurinn veiti ekki neina framtíðarsýn. Að vissu leyti er hægt að taka undir það að samningurinn boðar ekki neinn endi á þeim styrkjum sem við þurfum að greiða til landbúnaðar eða sauðfjárræktar. Ég vildi því heyra álit landbrh. á því hvort ekki sé rétt að það verði tekið upp samstarf á breiðum grundvelli neytenda, aðila vinnumarkaðarins, bænda og ríkisvaldsins, um að leita leiða til að komast út úr landbúnaðarvandanum á einhverju tímabili eftir árið 2000, þannig að við sjáum fyrir endann á þessum stórkostlega vanda sem hefur verið að plaga okkur allt frá 1934, eins og hv. 6. þm. Suðurlands nefndi í ræðu sinni.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en óska eftir skýrum svörum frá hæstv. landbrh.