Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:41:06 (1508)

1995-11-29 23:41:06# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér kom í hug undir ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesen: Sælir eru hjartahreinir því þeir munu ríkið erfa. Það verður ekki af hv. þm. skafið að hann er hjartahreinn og segir hlutina eins og honum þykja þeir vera. Ég er í öllum aðalatriðum andstæðingur þessara laga og búvörusamningsins. Samt er það svo að ég gat af einlægu hjarta tekið undir nánast hvert einasta efnisatriði í máli hv. þm. Árna M. Mathiesen. Ég hygg að ræða hans hafi skorið sig frá öðrum ræðum sem hér hafa verið fluttar í kvöld, ekki aðeins vegna þess að hún var flutt af stjórnarsinna, heldur vegna þess að með mjög einföldum og skýrum hætti tætti hann í sundur í fyrri hluta ræðu sinnar öll helstu efnisatriði þeirra búvörulaga sem við erum að fjalla um hér í kvöld. Hann leiddi meira að segja rök að því að niðurstöður samningsins gætu mögulega leitt okkur á þrjá mismunandi staði og besti staðurinn að hans mati var status quo. Samt lýsir hann því yfir að hann muni styðja þennan samning sem hann er þó búinn að sýna fram á með elegant hætti að er mesta bull og vitleysa. Hvers vegna? Vegna þess að hann styður ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin færir fram þetta mál og þess vegna ætlar hann að styðja það, þótt hann sé búinn að færa rök fyrir því að málið sé vont.

Herra forseti. Sælir eru hjartahreinir því þeir munu ríkið erfa. Með svona framhaldi mun hv. þm. örugglega innan skamms erfa það ríki sem hæstv. landbrh. ræður fyrir núna.