Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:43:03 (1509)

1995-11-29 23:43:03# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:43]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að víkja að sambærilegu efni og ágætur flokksbróðir minn talaði um hér áðan. Ég get ekkert nema gott sagt um þá ræðu sem hv. þm. Árni M. Mathiesen flutti. Hún var vönduð og hógvær, stillileg og sönn. En það var þetta með fyrirvarann. Þegar menn gera fyrirvara við stuðning sinn lýtur það oftast að því að t.d. einhver framkvæmd sem er í höndum ráðherra verði með tilteknum hætti eða að einhver aðili í þjóðfélaginu þurfi einnig að koma að málinu. Hann samþykki málsmeðferð eða eitthvað slíkt. En ég hef aldrei heyrt svona fyrirvara eins og hv. þm. hafði. Fyrirvarinn fyrir hans samþykki er sem sé sá að hans eigin sögn, að ríkisstjórnin flytji málið og standi að því. Með öðrum orðum, ef ríkisstjórnarskipti verða á kjörtímabilinu þá er hv. þm. ekki lengur stuðningsmaður málsins. Þá er fyrirvarinn fallinn. Ríkisstjórnin getur ekki vænst lengra lífs en fram að kosningum. Þá þurfa menn að fara til kjósenda sinna til að leita eftir stuðningi. Þá er fyrirvarinn fallinn, þá styður hv. þm. Árni M. Mathiesen ekki lengur búvörusamninginn. Ég get ekki lesið annað út úr því en að hann sé að segja okkur: Ég ætla mér að styðja búvörusamninginn svo lengi sem þessi hæstv. ríkisstjórn situr. En um leið og ég sný mér til kjósenda minna til að fá endurnýjað umboð, þá er stuðningur minn fallinn og ég er á móti honum.

Ég hef, virðulegi forseti, aldrei heyrt settan svona fyrirvara fyrr. Þetta er alveg nýtt í þingsögunni og ég spyr hv. þm.: Ber ekki að túlka fyrirvara hans samkvæmt hans eigin orðum nákvæmlega svona? Eða er fyrirvarinn einhvern veginn öðruvísi og hvernig er hann þá? Mér sýnist að svona fyrirvari, herra forseti, væri réttnefndari eldingavari en fyrirvari.