Framleiðsla og sala á búvörum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 23:46:36 (1511)

1995-11-29 23:46:36# 120. lþ. 45.1 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[23:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég veit ekki heldur hvað almennur fyrirvari er. Í mínum huga getur almennur fyrirvari ekki verið annað en það að menn segi: Ef sú lagabreyting sem ég ætla að greiða atkvæði gefur góða raun þá er ég stuðningsmaður hennar. En ef hún gefur ekki góða raun er ég andstæðingur hennar. Það er auðvitað atkvæðið sem ræður úrslitum. Breytingarnar verða samþykktar annaðhvort með atkvæði hv. þm. eða með atkvæði annarra en hv. þm. Það er ekki hægt að greiða lagabreytingu atkvæði og segja: Ég set almennan fyrirvara. Almennan hvað? Hins vegar heyrðist mér af lokaorðum hv. þm. að hann ætti við að yrði frjáls verðmyndun ekki komin á í kjölfar þeirrar breytingar, sem á að gera eftir tvö ár þegar frjáls verðmyndun á að hefjast, þá væri fyrirvari hans fallinn og hann mundi snúast gegn þeim breytingum sem hér er verið að gera. Hv. þm. sagði að á kjörtímabilinu, þ.e. eftir fyrstu tvö árin af gildistíma samningsins, ætti að vera komin á frjáls verðmyndun. Ég gat ekki skilið orð hans um almennan fyrirvara því að hann er ekki til. En ég skildi síðustu orð hans þannig að yrði ekki komin á frjáls verðmyndun eftir tveggja ára reynslutíma þá mundi hv. þm. snúast gegn sjálfum sér, þ.e. greiða atkvæði og taka afstöðu gegn þeirri lagabreytingu sem hann ætlar að samþykkja núna.