Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 10:04:25 (1524)

1995-11-30 10:04:25# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[10:04]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég byrja á því að biðjast velvirðingar á að mér hefur ekki gefist nægjanlegur tími til undirbúnings eins og vera skyldi í svo mikilvægum málaflokki sem hér er til umfjöllunar. Ástæðan er miklar annir fjárln. þar sem ég sit. Þó mun ég reyna í nokkrum orðum að fara yfir málin eins og þau koma að mér. Ég byrja á því að biðja forseta fyrir skilaboð til hæstv. landbrh. sem hefur ekki séð sér fært að mæta enn þá. Athugasemdir mínar eru fyrst og fremst varðandi ræðu hæstv. landbrh. í gær þegar hann fór nokkrum orðum um nefndarstörf og fleira.

Hæstv. landbrh. taldi að e.t.v. væri ástæða langrar vinnu landbn. að menn hafi lagt sig þar sérstaklega fram í störfum. Það hvarflar að mér eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. ráðherra að einhverju hafi verið ábótavant í vinnubrögðum við framsetningu frv. af hálfu ráðuneytis og ríkisstjórnar. Ég er þess fullviss að hver einasta nefnd þingsins leggur sig fram við hvert það mál sem er til umfjöllunar og þingmönnum er mætavel orðin ljós sú staða sem nefndir eru í eftir að þingið sameinaðist í eina málstofu. Nefndir hafa nefnilega miklar skyldur og ábyrgð og það er þá helst að einhver mistök verða þegar ráðuneyti keyra mál af hörku og í krafti meiri hluta í gegnum þingið.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla mikið um ræðu hæstv. ráðherra. Ég tel sjálfur að ég viti nokkuð vel hver vandi landbúnaðar á Íslandi er þó ég ætli ekki að fara yfir allt málasviðið og þá kem ég að því, herra forseti, að mér gafst ekki nægur tími til að afla gagna um þann málaflokk allan eins og vera bæri. Hér er reyndar mest fjallað um sauðfjárframleiðsluna en í ræðu minni ætla ég að reyna að gera grein fyrir því sem ég þekki hvað best eftir þá vinnu mína sem fulltrúi umhvrn. við verkefnið Áform, sem hófst í maímánuði sl., í kjölfar lagasetningar sem við hv. núv. formaður landbn. stóðum að ásamt öllum þingmönnum í kjölfar samþykktar Alþingis á Þingvöllum á afmælishátíðinni.

Herra forseti. Ég sagði áðan að mig langaði til að leggja nokkur orð inn í þá umræðu sem hér fer fram um samning og lög um framleiðslu og sölu á búvörum. Hér hafa verið rakin í ræðum á undan nefndarálit meiri og minni hluta í þremur álitum með tillögum um breytingar á lögunum í að minnsta kosti --- og nú bið ég hv. formann landbn. að taka eftir því sem hann veit mætavel --- 25 liðum og a.m.k. 12 greinum þurfti að gera breytingar á því frv. sem hæstv. landbrh. og hans ráðuneyti lagði fram. Ég fagna komu hæstv. ráðherra í salinn. Ég fer þá yfir það sem ég byrjaði á úr því að ráðherra er kominn hér. Þau orð sem ég taldi mig þurfa að nefna við hæstv. landbrh. voru vegna ræðu hans um störf nefndanna. Ég hygg að hann sé mér sammála um það að nefndir leggja sig mjög fram um að vanda málatilbúnað allan og fara vel yfir þau gögn sem þeim eru færð. Þess vegna tek ég undir þau orð að það er eðlilegt þegar svona mikilsvert mál kemur til umfjöllunar nefndar að það taki nokkurn tíma og væri óskandi að ráðherrar almennt hefðu skilning á því að nefndir þurfa að nota tímann vel til að fara yfir þau mál sem lögð eru fyrir.

Það er a.m.k. í 25 liðum eða 12 greinum sem þurfti að gera breytingar á frv. því sem var til umfjöllunar á þskj. 254, 96. máli. Ég tel að nokkrar brtt. séu til bóta. Þó er ýmislegt sem þar er sem vekur spurningar. T.d. væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. landbrh. hversu mikil uppkaup hafa þegar farið fram. Hvað eru margir bændur sem hafa selt fullvirðisrétt sinn að fullu til sauðfjárframleiðslu? Hvað er það há upphæð sem þegar hefur verið notuð til uppkaupa? Hver er aldur þeirra bænda sem hafa hætt búskap að fullu nú í kjölfar þeirra uppkaupa sem ég veit að hafa átt sér stað? Í blaðafregnum nú fyrir skömmu kom fram að uppkaup væru meiri en menn hefðu gert ráð fyrir. Þess vegna finnst mér eðlilegt að spyrja þessara spurninga þannig að okkur á hv. Alþingi sé betur ljóst hvernig þessi mál standa. Einnig held ég að rétt sé að spyrja um hvort upplýsingar séu til um það hvað margir bændur sitja áfram jarðir sínar með annan starfsgrundvöll en landbúnað af þeim sem hafa selt fullvirðisrétt sinn.

Ég tek undir örfá atriði sem hv. landbn. tók sér fyrir hendur að lagfæra. Ég tel að það hafi verið rétt að fella á brott ákvæðið um að réttur til beingreiðslna falli niður þegar 70 ára aldri er náð. Úr því að ég sé hv. formann landbn. þakka ég honum fyrir þá vinnu því ég tel að þarna hafi verið um nauðsynlegt ákvæði að ræða þar sem næstum því hafi verið um að ræða mannréttindabrot. Ég er þó ekki það fróður í lögum að ég viti hvort það er rétt en einhvern veginn segir mér svo hugur um að það hafi ekki verið unnt að fara fram á þennan máta eins og gert var ráð fyrir. Úr breytingartillögunum má lesa stuðning við tilraunir til sölu á búfjárafurðum sérstaklega á erlenda markaði.

[10:15]

Herra forseti. Sá sem hér talar hefur sagt frá upphafi í málatilbúningi sínum að einu möguleikar sauðfjárbænda á framleiðslu í einhverri líkingu við síðustu ár liggi í möguleikum í útflutningi á grundvelli hágæðavöru inn á dýra markaði erlendis. Ef þær tilraunir, sem nú er verið að gera og Alþingi samþykkti framlög til, bera ekki árangur á næstu tveimur til þremur árum er staða sauðfjárræktar í núverandi mynd í kalda koli. Ég hef þá skoðun að jafnframt þessum tilraunum verði að losa um hömlur. Það verður að rjúfa múrana sem bændur hafa verið umluktir, hv. form. landbn. Því miður hafa bændur verið blekktir til að afsala sér frelsi til að ráða sínum gjörðum. Leiðin er að vísu nokkuð löng að hinu gullna hliði frelsisins, svo notað sé orðalag í líkingu við það sem hv. form. landbn. temur sér í málflutningi, og þeir hlekkir sem brjóta þarf á þeirri leið eru misöflugir. En það mun gerast nokkuð hratt, trúi ég, eftir að stærstu hindrunum er rutt úr vegi.

Herra forseti. Ég á því láni að fagna að vera skipaður í þann hóp manna sem vinnur að því að ná framgangi á þeim lögum sem sett voru um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. landbrh. það traust sem hann sýndi mér, eða hæstv. umhvrh. í því tilviki, með því að fara að tillögu forvera síns í embætti um að ég fengi að vinna að þessum málaflokki. Eins og ég sagði áðan er mér þetta mikið áhugamál.

Lögin sem okkur ber að fara þar eftir eru í sex greinum örstuttum sem ég vil aðeins fá að fara yfir, með leyfi forseta:

,,1. gr. Efnt skal til átaksverkefnis um vöruþróun og sölu íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar á innlendum og erlendum mörkuðum.

2. gr. Landbrh. skipar fjóra menn í stjórn átaksverkefnisins og skal einn tilnefndur af landbrn., einn af umhvrn., einn úr Bændasamtökunum og einn samkvæmt tilnefningu VOR, landssamtaka bænda í lífrænum búskap.

Landbrh. skipar formann úr hópi stjórnarmanna. Ef atkvæði falla jafnt við ákvarðanatöku hjá stjórninni ræður atkvæði formanns.

3. gr. Stjórn verkefnisins skal stuðla að verkefnum á sviði fræðslu um vistvæna og lífræna framleiðslu, gæðastjórnunar, áætlanagerðar, vöruþróunar og markaðssetningar íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða.``

Þetta eru meginatriði þeirra laga sem sá hópur sem ég vinn með á að fara eftir. Það er kannski rétt að geta þeirra aðila sem eru að vinna að þessu verkefni. Þeir eru auk mín: Haukur Halldórsson, Jón Helgason og Guðmundur Elíasson. Starfsmaður okkar er Baldvin Jónsson. Ég tel að hann hafi lyft grettistaki í þessum málum og mér finnst ástæða til að það komi hér fram í máli mínu að þessi hópur er mjög vel samstæður við sína vinnu sem tengist mjög því lagafrv. sem við erum að ræða um. Þar kemur greinilega fram að menn telja og eru sammála um að það sé verið að vinna á réttum nótum að lausn þess vanda sem sauðfjárræktin býr við.

Ég hef unnið að þessu verkefni af fullum heilindum og ég er sannfærður um að það er unnt að koma afurðum okkar í flokk hágæða vistvænna vara. En í þessum málum er því miður mikið verk óunnið. Reyndar er það svo að eftir að hafa unnið að þessu í hálft ár hef ég því miður komist að því að hvergi var að finna nokkurn þann aðila sem hafði áhuga á að kaupa íslenskar sauðfjárafurðir. Það var hörmulegt að komast að því eftir allt sem á undan er gengið. Erlendir markaðir eru því miður sem sviðinn akur, hvar sem komið er. Það er hörmulegt eftir að tugum milljarða hefur verið varið til útflutnings á undangengnum árum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að skýra nokkuð stöðu mála eins og þau blasa við mér sem köld staðreynd. Áður en ég hóf starf sem stjórnaraðili við umrætt átaksverkefni sem nefnist Áform hélt ég að ástandið væri betra en það í rauninni er. Ég tel að það sé fyllsta ástæða til að gera hv. Alþingi grein fyrir þessari reynslu þó ekki sé nema til að koma henni á síður Alþingistíðinda og að þingið fái að vita um að hverju hefur verið unnið frá samþykkt laganna.

Í fjárlögum fyrir árið 1995 var ríkisstjórninni veitt heimild til að verja 25 millj. kr. til stuðnings við markaðsstarf fyrir hreinar íslenskar landbúnaðarafurðir. Þá hafði verið í undirbúningi lagafrv. um það efni sem formenn þingflokkanna höfðu tekið að sér að flytja. Það var algjör samstaða um það en þó dróst að frv. yrði lagt fram, þótt efni þess væri grundvöllur fjárlagaheimildar. Hugmyndin með þessari fjárlagaheimild var einkum að tryggja að framhald yrði á því kynningar- og markaðsstarfi sem bændasamtökin höfðu beitt sér fyrir að hefja í ársbyrjun 1994 með ráðningu umrædds Baldvins Jónssonar til þessa verkefnis. Þar sem mikilvægt var að sú vinna félli ekki niður eftir áramótin, ákvað landbrn. með samþykki fjmrn. og í samráði við Bændasamtökin að ráða Baldvin tímabundið til að halda því starfi áfram. Jafnframt var honum heimilað að leita aðstoðar Carls Haest og Thomas Harding. Þeir höfðu veitt margvíslega ráðgjöf á síðasta ári með viðtölum og heimsóknum hingað ásamt Mel Coleman eldri og yngri, Shari Lieberman, Jonelle og A. Gordon Reynolds, Patrick Quillin og James S. Logan. Þá var miðað við að verja mætti að allt að 6 millj. kr. í þessu skyni. Fyrrnefnt frv. var lagt fram á Alþingi í febrúar og það var afgreitt skömmu fyrir þinglok. Það var staðfest 3. mars af forseta. Samkvæmt því skyldi skipa í verkefnisstjórn til að annast framkvæmd átaksverkefnisins um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Þessi skipun, eins og ég gat um áðan, dróst fram til 22. maí og var því ekki hægt að koma að verkefninu fram að þeim tíma. Í marsmánuði náði Baldvin Jónsson sambandi við fyrirtækið Cooking Excellence í New York. Það er matvæladreifingarfyrirtæki og eru eigendur þess systkinin Karítas og Sigurður Baldvin Sigurðsson. Eftir viðræður Baldvins við þau kom í ljós að þau höfðu áhuga á að gera tilraun til innflutnings á lambakjöti til Bandaríkjanna og var gerður samningur við eigendur verslunarinnar Red Apple í New York og veitingahúsakeðjunnar Louis Food Service á sama svæði um að þeir aðilar gerðu tilraun til að selja íslenskt lambakjöt á komandi sumri, þ.e. á síðasta sumri. Yrði tilraunin svo árangursrík að hún gæfi vonir um áframhaldandi sölu á hækkandi verði, yrðu kannaðir möguleikar til stuðnings við gerð kynningarkvikmyndar um lambakjötið og Ísland. Eftir að fram höfðu komið eindregin tilmæli Bændasamtaka Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins um að gengið yrði að þessu tilboði Cooking Excellence samþykkti landbrn. að varið yrði 2 millj. kr. af fjárlagaheimild til markaðsátaksins, jafnframt því sem stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins samþykkti sömu upphæð í þessu skyni. Þar sem stjórn átaksverkefnisins hafði enn ekki verið skipuð gerði Framleiðsluráð landbúnaðarins samstarfssamning við Cooking Excellence hinn 6. apríl sl. samhljóða því sem það gerði samning við Kjötumboðið hf. um kjötkaupin. Fyrsta kjötsendingin var síðan tollafgreidd í Bandaríkjunum og fór í verslun og er búið að ganga frá næstu sendingu.

Það eru fjölmörg önnur verkefni sem við höfum verið að vinna að og eru skemmra á veg komin. Þau bíða þess að teknar verði ákvarðanir um næstu áfanga við vinnu á þeim. Þar má benda á þá möguleika sem lögin um lífræna landbúnaðarframleiðslu skapa en Bændasamtökin höfðu forgöngu um undirbúning þeirra á síðasta ári ásamt lögum um átaksverkefnið.

Herra forseti. Hér er í nokkru um getið fyrstu skrefanna í þessu verkefni. Ég tel ástæðu til þess að menn viti rækilega hvað hér er á ferðinni og við hvað er að etja í þessum málum sem við erum raunverulega að setja lög um að miklum hluta. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er eini möguleikinn til þess að afsetja sauðfjárafurðirnar að koma þeim á markað erlendis, annars verður að draga verulega saman. Eitt er þar í mínum huga algjört bannorð. Það má ekki selja þessa vöru okkar á erlenda markaði sem umframframleiðslu. Það orð á að vera bannorð. Umframframleiðsla er hlutur sem erlendir menn segja mér að við eigum ekki að nefna.

Mig langar að geta um markaðskannanir í Evrópu og Japan. Við í verkefnishópnum erum nú að láta vinna að markaðsrannsóknum í Evrópu og Japan. Það er unnið í samvinnu við ráðgjafana Carl Haest og Thomas Harding. Það hefur verið gert samkomulag við verslanir Delhaize í Belgíu og SuperBrugsen í Danmörku um markaðssetningu á lambakjöti núna í haust. Ég á eftir að koma mun betur að því hvernig það gekk nákvæmlega fyrir sig, allt frá því að þessir aðilar spurðust fyrir um lambakjöt eða kjöt á Íslandi og hvernig þar til kjötið var komið í búðirnar. Ágætur félagi minn, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sagði í gær að í hans huga væri ferlið tiltölulega einfalt frá því að slátrun færi fram þar til að afurðin væri komin á borð neytandans. Ég get tekið undir að það er kannski einfalt þegar maður segir það svona. En þegar maður lítur yfir alla kerfisuppbygginguna er málið flókið. Það er meira að segja mjög flókið.

[10:30]

Innkaupastjórar þeirra verslana sem ég nefndi áðan komu hingað til lands nú í september. Þeir kynntu sér kjötið, sláturhúsin og vinnslustöðvar. Þeir unnu upp verklýsingar fyrir afurðastöðvarnar og að því er ég best veit, var unnið þar kjöt til prufu samkvæmt þeirra fyrirmælum. Báðar verslanirnar virtust hafa mestan áhuga á að fá ferskt kjöt. Þeir vilja vinna að því að slátrun hefjist --- ég bið menn að taka eftir því --- í ágúst og standi fram í lok nóvember. Þeir telja að með þessum hætti munum við geta náð ákveðnu forskoti á samkeppnisaðilana sem koma með sitt ferska kjöt um miðjan september. Meiningin er að það fari fram nokkuð umfangsmikil kynning í verslununum í samvinnu við Flugleiðir og e.t.v. fleiri aðila. Einnig á að kanna möguleika á öðrum afurðum eins og gert er ráð fyrir í þeim lögum sem ég kynnti fyrr í ræðu minni. Þessar verslanir sem ég nefndi hér áðan Delhaize og SuperBrugsen eru stærstu verslanirnar í hvoru landi fyrir sig. Auk þess hafa staðið yfir viðræður við sambærilegar verslanir í Frakklandi og á Englandi.

Þótt ég sé ekki að flytja hér neina skýrslu um þessi mál finnst mér fyllsta ástæða til að gera hv. Alþingi grein fyrir hvernig þeim hefur farnast. Því miður hafa verið uppi víða um land illar tungur í garð þessa verkefnis og ég tel ástæðu til að gera rækilega grein fyrir því, hæstv. forseti, sem ég vinn að í umboði hæstv. umhvrh. Jafnvel innan þess hóps sem á mestra hagsmuna að gæta, þ.e. bænda, hefur verið í gangi rógburður um þetta verkefni okkar og það er ástæða til að mótmæla því. Og ég vil ítreka það að starfsmaður þessa hóps, Baldvin Jónsson, hefur að mínu mati lyft grettistaki.

Ég vil nefna að það hafa verði veittir styrkir til bænda til lífrænnar ræktunar, til að breyta búskaparháttum. Einnig hafa verið veittir styrkir sem ég kem heldur betur að á eftir til rannsókna á fitusýrum í lambakjöti og það er verið að vinna það verkefni undir stjórn Jóhanns Axelssonar hjá líftæknideild Háskóla Íslands.

Ég held að það sé rétt að geta um það að hér var haldinn alþjóðlegur fundur í haust, IFOAM en IFOAM stendur fyrir International Federation of Organic Agricultural Movements. Alþjóðasamtök í lífrænni ræktun héldu sem sagt fund sinn hér á Íslandi í september. Rétt er að geta þess að forseti Íslands var við setningu þessa fundar ásamt fjölmörgum áhugamönnum um þessi málefni. En því miður voru ekki margir þingmenn af Alþingi Íslendinga við þessa setningu.

Fundurinn bauð upp á tækifæri fyrir sérfræðinga okkar til að kynnast gaumgæfilega lífrænum búskap á heimsvísu. Það var boðið upp á ráðstefnu þar sem fjallað var um alla helstu þætti lífræns búskapar, þróun hans og markaðstækifæri. Eftir að hafa rætt við marga sem fundinn sóttu get ég sagt að mönnum þótti hann takast vel og samtökin hafa staðfest vilja sinn til að vera okkur innan handar við þróun vistvæns og lífræns búskapar hér á landi. Það kom fram hjá gestunum --- og ég bið menn að taka eftir því --- að ekkert land hefði jafnmikla möguleika og Ísland til að verða fyrsta lífræna landið. Með því gætum við styrkt stöðu okkar á erlendum mörkuðum og orðið fyrirmyndarþjóð á þessu sviði. Þá var einnig samþykkt að gefa fulltrúum frá Íslandi tækifæri til að taka þátt í gerð vottunarkerfis fyrir fisk og fiskeldisfisk. Hér er átt við það sem kallað er Organic-vottun sem mun styrkja gæðaímynd okkar fiskafurða. Þegar hefur verið samþykkt reglugerð um lífrænan búskap á Íslandi og vonandi er alveg á næstu grösum reglugerð fyrir vistvænan búskap. Þessi reglugerð verður að koma til þess að menn geti vottað eða sett upp vottunarstofu til að votta okkar framleiðslu og það er grundvallarskilyrði til þess að við komumst með vöru, okkar dýrmætu og hreinu og góðu vöru eins og hv. formenn landbn. gjarnan tala um í sínum ræðum, hvort sem þær eru til hátíðabrigða eða annars staðar. Þeir tveir ágætu herrar ræða gjarnan um íslenskar afurðir sem hreinustu og bestu vöru og þess vegna þurfum við að vinna að því að hér verði komið upp vottunarstofu til að staðfesta að þær hugmyndir sem þeir, ásamt mörgum öðrum, hafa um þessa vöru séu réttar.

Þá kemur að því að ræða um stefnumótun. Það er unnið að því að kanna möguleika á samvinnu aðila um sölumál landbúnaðarafurða á erlendum mörkuðum. Með þessu móti verður hægt að vinna markvisst að sölumálum og koma í veg fyrir undirboð sem því miður virðast eiga sér stað. Ég bið menn að taka vel eftir máli mínu. Það er hörmung að vita til þess að hér skuli viðgangast með þessa viðkvæmu afurð okkar að hafi einn aðili náð góðum samningi miðað við það sem þekkist, kemur annar og býður vöruna t.d. lambakjötið, fram á lægra verði. Sami aðili fær því tilboð frá fleirum upp á mismunandi verð á þeirri afurð sem við erum að reyna að ná mörkuðum fyrir.

En með því móti sem ég lýsti,verður hægt að vinna landbúnaðarafurðum sess á erlendum mörkuðum, vinna markvisst að sölumálum og koma í veg fyrir undirboð, sem því miður virðast eiga sér stað vegna ósamstöðu söluaðila. Það þarf að koma á vottunarstofu fyrir lífræna og vistvæna vottun. Það þarf að gera úttekt á stöðu landbúnaðar með tilliti til framangreindra vottunarkerfa og marka svo stefnu landbúnaðarins. Ég vil beina því til hæstv. landbrh., að það er bráðnauðsynlegt að móta stefnu, heildstæða og markvissa stefnu í þeim málum sem ég er hér að fjalla um.

Að lokinni gerð búvörusamnings er sem sagt brýnt að það verði mörkuð stefna sem tekur tillit til stefnu ríkisstjórnarinnar um umhverfismál svo og Bændasamtaka Íslands. Það þarf að kanna hvaða sláturhús muni fá framleiðsluleyfi á Ameríku- og Evrópumarkaði. Sem stendur eru aðeins fjögur hús með slíkt leyfi. Það þarf fljótlega að huga að því hvernig standa eigi að slátrun og framleiðslu fyrir haustslátrun 1996. Það er einnig nauðsynlegt að fá staðfestingu Evrópubandalagsins á kvóta Íslands inn á Evrópumarkað og hér beini ég máli mínu til hv. formanns landbn. Þetta er algjör nauðsyn og ég veit að formaður landbn. mun koma þessum boðum til hæstv. landbrh. Hæstv. landbrh. er nú kominn í salinn og ég vil ítreka orð mín áðan. Það er nauðsynlegt, hæstv. landbrh., að fá staðfestingu Evrópubandalagsins á kvóta Íslands inn á Evrópumarkað. Það er ekki ljóst hver kvóti Íslands er eftir inngöngu Svía í Evrópubandalagið.

Ég hef verið að fjalla hér að nokkru leyti um skort á stefnumörkun í íslenskum landbúnaði. Það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt og gaman að fara í gegnum stefnuskrá norsku og sænsku bændasamtakanna sem stefna að heimsins hreinasta landbúnaði og gera síðan grein fyrir því átaksverkefni sem er til eflingar og framþróunar lífrænnar matvælaframleiðslu í Danmörku. Sá tími sem ég hafði ætlað mér til þess að gera grein fyrir þessum málum endist ekki til þess að fara rækilega í gegnum það sem upp á skortir varðandi umfjöllun mína um þennan málaflokk, stefnumótun í framleiðslu lífrænna og vistvænna afurða. Ég vil þó í nokkrum orðum geta um að hlutur lífrænnar landbúnaðarframleiðslu í Danmörku á að verða 20% af heildarframleiðslu um aldamót. Danir stefna að því að auka markaðshlutdeild lífrænnar framleiðslu í grænmeti, mjólk og eggjum úr 1% í 15--20% um aldamót. Þetta eru staðreyndir sem við okkur blasa. Danir voru fyrsta þjóðin í Evrópu sem settu lög um lífræna ræktun árið 1988. Í nokkuð langan tíma var nánast stöðnun í þessari þróun. Ég ætla að vona að eftir að við erum farin af stað hér á Íslandi þá lendum við ekki í þeirri stöðnun. Þá kemur til kasta þeirra aðila sem að þessum málum vinna. Stöðnunin má ekki eiga sér stað. Danir voru fyrsta þjóðin til að setja lög um lífærna ræktun árið 1988 en þá var eggjaframleiðsla þeirra t.d. aðeins 0,14% og kartöflur 1,8% af heildarframleiðslu landsins. En á undanförnum tveimur árum hefur framleiðslan tekið mikinn kipp og það er ekkert sem bendir til þess að þróunin stöðvist. Hinn nýi landbúnaðarráðherra Dana, Henrik Dam Kristensen, sem tók við embætti 1994 gerði það eitt af sínum fyrstu verkefnum að fá gerða áætlun um heildarstefnu í lífrænni ræktun og markaðssetningu og vöruþróun. Ég bið menn að taka eftir því að sú áætlun var lögð fram nú í maí 1995 og gefur vísbendingu um að bjart sé fram undan fyrir þá bændur sem eru tilbúnir að breyta búskaparháttum sínum.

[10:45]

Ef spá þessa átaksverkefnis rætist mun danskur landbúnaður verða fyrirmynd annarra þjóða Evrópu. Áætlunin gerir ráð fyrir að hlutur lífrænna afurða verði orðinn á milli 15--20% af heildarlandbúnaðarframleiðslu Dana um aldamót. Danir stefna að því árið 2010 verði 20--40% af heildarakurlendi landsins orðið lífrænt. Samkvæmt áætluninni virðist ekki vera nokkurt vafamál að eftirspurnin eftir lífrænum afurðum fer mjög hratt vaxandi, ekki síst í Danmörku og þá helst í norðurhluta landsins. Hvergi í Evrópu er meiri áhugi en einmitt þar. Danmörk, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar í þessum málum, er talið vera eitt þróaðasta markaðsland í heimi. Þeir hafa lagt höfuðáherslu á markaðssetningu með tilliti til útflutnings og líta svo á að með þessari stefnumótun megi staðsetja danskar afurðir sem lífrænar og styrkja þar með ímynd landsins og afurðanna. Þessi staðsetning á markaðnum er þó enn á vissu byrjunarstigi sem í vitund almennings í Evrópu er rétt að vakna og því þarf áherslan á markaðsmálin að taka mið af því að fræða viðskiptavinina.

Þessi atriði sem ég hef verið að geta um ættum við að taka okkur til fyrirmyndar. Svona eigum við að vinna og ég mun gera það sem ég get til þess að vinna að stefnumótun á þennan hátt. Ég geri mér grein fyrir að það verður að vinna að þessu með styrkjum í upphafi. Þá er rétt að fá sem flesta bændur til að breyta búskaparháttum úr hefðbundnum búskap í lífrænan. Að þessum málum tel ég að sé verið að vinna með þessari lagasetningu og að því leyti styð ég þetta verkefni. Ég geri svo rækilega grein fyrir því hversu illa við stöndum að mínu mati og hversu lítt við erum tilbúin til að selja okkar vöru frá upphafi til enda vegna þess sem hv. ræðumaður hér í gær og félagi minn Lúðvík Bergvinsson gat um. Hann taldi þetta ferli einfalt, en ferlið er flókið.

Danir stefna ekki að því að styrkir verði til langframa. Styrkjunum er ætlað að koma mönnum af stað og gera bændum og byggðum kleift að vera sjálfbær eins og fram kemur í þeirra áætlun. Með öflugri kynningu í Danmörku er reiknað með því að neytendur muni styðja þessa stefnu og hvetja bændur og matvælaframleiðsluna til að láta hana ná fram að ganga eins og segir í viðtali við Mathiesen. Búist er við að verð á eggjum muni hækka um 20--25% og fyrir lífrænt framleitt korn muni fást allt að 40% meira. Nútíma- og framtíðarneytandinn mun tvímælalaust gera sér grein fyrir mikilvægi hollra afurða sem ekki hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Þess vegna er verið að vinna að slíkri stefnumótun.

Með tilkomu styrkja landbúnaðarráðuneytisins í Danmörku er gert ráð fyrir að bændum sem breyta búskaparháttum fjölgi hratt. Bændur og framleiðendur hafa borið við miklum kostnaði við breytingarnar sem skiljanlegt er og það hefur komið í veg fyrir hraðar breytingar. Styrkir munu nema allt að 40% til að byrja með vegna breytinga fyrir minni og meðalstóra framleiðendur en stærri framleiðendur fá allt að 25% kostnaðar í styrki.

Það væri kannski fróðlegt fyrir þingið að fá að vita hvað ég var að fjalla um þegar ég gat um styrki sem átaksverkefnið hefur veitt vegna greiningar á fitusýru í lambakjöti. Ég mun gera það í nokkrum orðum. Ég hef hér þó nokkurt ræðumál um það efni en mun gera grein fyrir því í nokkrum orðum.

Um áramótin 1993/1994 voru hafnar athuganir á því hvaða fitusýrur væri að finna í lambakjöti, þá sérstaklega hlutfall mettaðra og ómettaðra fitusýra. Ástæða þess var að í rannsóknum sem höfðu verið gerðar á fólki sem býr á Fljótsdalshéraði hafi komið fram merkilega hár styrkur ómettaðra fitusýra, einkum svokallaðra Omega-3 fitusýra sem nær eingöngu eru taldar komnar frá sjávarafurðum og eru álitnar mjög hollar. Í athugunum sem Manneldisráð hefur gert kom í ljós að fólk af Fljótsdalshéraði borðar mjög lítinn fisk en mikið kjöt og þá einkum lambakjöt. Því vaknaði sú spurning hvaðan þessar hollu sjávarfitusýrur væru komnar. Menn reiknuðu með að þær væru komnar úr fæðunni því líkaminn getur ekki búið þær til. Þessar rannsóknir voru framkvæmdar með því að farið var til Egilsstaða í janúar 1994 og tekin sýni úr átta lömbum sem hafði verið slátrað um haustið. (Gripið fram í: Var þeim slátrað með fyrirvara?) Það var ákveðið að taka sýni úr vöðvunum sjálfum en ekki hreinum fituvef. En fólk borðar nú mun meiri vöðva en fitu. Sýni voru tekin úr læri og hrygg lamba frá Geitadal í Skriðdal og Unaósi við Héraðsflóa. Bæirnir voru valdir til að fá sýni frá bæjum í ólíku umhverfi, þ.e. upp til heiða og niður við sjó. Niðurstöður voru ákaflega merkilegar og sýndu að hlutfall fitusýra af Omega-3 gerð var ótrúlega hátt, nærri tíu sinnum hærri en menn höfðu nokkurn tímann reiknað með. Þessi niðurstaða fékkst úr öllum sýnum bæði úr hryggvöðva og lærvöðva og enginn marktækur munur var á milli bæjanna Geitadals og Unaóss. Rætt var við bændurna og kom þá í ljós að gefið var fiskimjöl og lýsi yfir veturinn á báðum stöðunum. Þar er kannski skýringin komin á því að það var enginn munur. Einfaldasta skýringin er að sjálfsögðu sú að fitusýrurnar hafa borist yfir í lömbin á meðgöngu þegar mæðrunum var gefið fiskimjöl og annars konar fóðurbætir. Mönnum fannst frekar ótrúlegt að fitusýrur gætu haldist svo miklar sem að raun bar vitni þegar að lömb komu af fjalli eftir sumarið.

Framhaldið var að haldnir voru fyrirlestrar í tilefni af afmæli heilsugæslu á Héraði um þessi mál. Þar voru birtar niðurstöður úr blóðfiturannsóknum á Héraðsbúum og hugsanlegar skýringar á hinum óvæntu niðurstöðum sem þar höfðu fengist. Þegar þessi ráðstefna var haldin var rætt við bændur og ráðunauta á Héraði. Menn náðu vel saman og kominn er góður grundvöllur fyrir því hvernig á að standa að rannsóknum og athugunum í framhaldinu. Það sem ég er hér að fjalla um er ákaflega merkilegt og getur orðið til þess að við munum á grundvelli rannsókna vinna markaði fyrir okkar vörur vegna þess hlutverks sem Omega-3 sýrur hafa að gegna í fæðukeðjunni.

Ég vil nú geta um raunniðurstöður þeirra athuganna sem hingað til hafa farið fram og veit að þingmönnum er mætavel kunnugt um hverjir standa að þessu. Þessar rannsóknir er verið að vinna undir forustu landlæknis ásamt háskólanum. Átaksverkefnið Áform lagði fjármuni til verkefnisins af því sem okkur er falið að fara með, til þess að kaupa greiningartæki. Niðurstöðurnar sýna fram á að Omega-3 fitusýrur eru í talsverðum mæli í íslensku lambakjöti. Þessar niðurstöður voru mjög óvæntar því að hingað til hefur verið talið að kjöt af landdýrum innihaldi óverulegt magn af svona fitusýrum. Mesta magn þeirra fannst þó í nýfæddum lömbum eða 13--15% af heildarfitusýrunum.

Þessar niðurstöður sem liggja fyrir eru hvatning til bænda til að halda áfram þessum forna sið að gefa lýsi og fiskimjöl í hæfilegu magni með það í huga að auka hraustleika dýranna, en niðurstöður sýna að þetta leiðir einnig til framleiðslu á heilsusamlegri afurðum. Og sannast nú einu sinni enn hið fornkveðna, að við erum það sem við borðum. Hér með fagna ég komu hv. formanns Framsfl. í salinn, en því miður vék hann af vettvangi jafnskjótt. (Gripið fram í: Formaður þingflokksins, hann er hér.) Fyrirgefðu ég ætlaði að segja formaður flokksins en skriplaði nokkuð, því ég hef um margt að hugsa, hv. þm., bæði hugsanleg svör til hv. forseta, bréfleg svör sem þá myndu væntanlega verða og síðan er ég að velta fyrir mér hversu ítarlega grein ég á að gera þinginu fyrir þeim störfum sem ég hef verið að vinna að.

Ég á enn langt í land. Ég tel þó að ég geti stytt mitt mál, en ef ég á að gera það væri æskilegt að hér verði meiri hluti af hv. landbn. viðstaddur til að hlusta á það sem ég hef fram að færa um raunverulegt ástand varðandi markaðssetningu og meðferð okkar ágætu hreinu og dýrlegu afurða eins og hv. formaður landbn. hefur svo margsinnis sagt. (SvG: En þau verða öll á Bessastöðum. Það má ræða þetta þar.) (Gripið fram í: Er þetta áskorun til þingmannsins um að bjóða sig fram?)

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að gera þingmönnum góða grein fyrir því hvernig málum er háttað varðandi það að við erum að reyna að selja íslenskar landbúnaðarafurðir og þá helst lambakjöt á erlendum mörkuðum.

[11:00]

Í maí og júní sl. fóru fram kynningar í 30 verslunum Gristedes og Sloanes á Manhattan-eyju. Cooking Exellence stóð að kynningunni í samvinnu við átaksverkefnið sem ég var að geta um. Matvælakynning fór fram þrisvar sinnum í hverri búð, samtals 90 kynningar. Sérhæft starfsfólk var fengið til kynninganna, viðskiptavinum var gefið að smakka lambakjötið, taka þátt í spurningaleikjum um Ísland þar sem vinningshafar fengu Íslandsferð í verðlaun í boði Flugleiða. Þá voru birtar auglýsingar í blöðum verslananna. Gefnir voru út kynningabæklingar með uppskriftum. Þá voru prentuð og sett upp veggspjöld í glugga og í framhaldi af þessum kynningum var eigendum og innkaupastjórum Red Apple og Louis Food Service boðið til Íslands þar sem kynntar voru afurðir sem þeir fannst vera áhugaverðar. Rétt er að gera hv. Alþingi grein fyrir því sem ég veit og ég er sannfærður um að fæstir hér vita að nú þegar er búið að gera pantanir á afurðum fyrir 60 millj. kr. Mönnum finnst það kannski ekki mikið. Það er alveg rétt. Það er ekki mikið. En það er þó meira en áður hefur verið. Á þessa staði hefur ekkert farið fyrr en nú nema í gegnum ágæta verslun hér sem sendir í hraðsendipósti einhver örfá læri og hryggi til áhugamanna í Bandaríkjunum um sérstakt kjöt.

Ástæða er til að gera grein fyrir matvælakynningu hjá Shop Rite í New Jersey þar sem ég heyri að menn hafa mikinn áhuga fyrir þessu málefni og ég mun því gera það og gera vel grein fyrir því. Í ágúst fór fram svipuð matvælakynning í fjórum Shop Rite stórverslunum í New Jersey svokallað ,,pilot project``. Kynningin fór fram með þeim hætti að Karítas Sigurðsson ásamt öðrum matreiðslumeistara héldu námskeið um meðferð og eldun á lambakjöti. Þá voru birtar heilsíðuauglýsingar í blöðum Shop Rite á svæðinu og kynningar á Íslandi voru í gluggum verslananna og kynningabæklingum með spurningaleikjum var dreift á meðal viðskiptavinanna og auglýsingum dreift um verslanir og stöðugar kynningar stóðu yfir í innanhússhljóðkerfi búðanna. Þessi kynning hefur leitt af sér ákvörðun allra Shop Rite verslananna um að taka til sölu lambakjöt til reynslu á næstu mánuðum. Kynning verður núna á morgun, 1. og 2. des. og 9. og 10. des. í 91 verslun á þessu svæði. Þessar verslanir eru í New York, New Jersey, Connecticut, Delaware og Pennsylvaniu. Birtar verða heilsíðuauglýsingar í blöðum í 10 millj. eintaka á framangreindum svæðum. Auðvitað verður fróðlegt fyrir mig og alla sem hér eru að fá að vita hvernig salan gengur fram til jóla því að ráðgert er að þróa þessi viðskipti áfram á næstu þremur árum. Við höfum gert markaðsáætlun fram til maí 1996 en þá er einmitt eitt ár liðið frá því að fyrsta sending fór til Bandaríkjanna.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig að málum hefur verið staðið að mjög litlu leyti. Ég þyrfti í raun miklu lengri tíma. En ég hafði sjálfur ekki ætlað mér nema klukkutíma og 20 mín. til þess að gera grein fyrir því hvernig staðan er og því mun ég stytta mál mitt um svona um það bil helming miðað við það sem þörf væri á.

Ég bið menn að taka eftir því sem hér verður sagt. Eins og ég gat um áðan þá hófum við könnun í mars sl. á möguleikum á sölu á íslensku lambakjöti á erlendum markaði. Við skoðuðum möguleika í Bandaríkjunum og við kynntum kjötið í að minnsta kosti 30 verslunum í eigu Red Apple og við kynntum þessa vöru undir vörumerkinu All Natural Icelandic Lamb. Þessi kynning var önnur herferðin af þeim fjórum sem ætlað er að fara í verslanir Shop Rite. Kynningin sem fór fram í lok ágúst gekk það vel að flestar verslanirnar voru núna í nóvember og verða í desember með íslenskt lambakjöt og þær ætla að hafa það á boðstólum fram að páskum 1997. Það er um að ræða 130--140 verslanir. Núna er í gangi umfangsmikil og mjög vel unnin vörukynning fyrstu tvær vikurnar í desember. Það er búið að hafa samband við verslanakeðju í Belgíu, Danmörku, Bretlandi og Frakklandi. Fulltrúar frá verslununum Delhaize í Belgíu og SuperBrugsen í Danmörku komu hingað til lands um miðjan september og kynntu sér aðstæður. Þeir fengu sendingar og það tókst það vel að kjötið var metið af kjötsérfræðingum þeirra í Belgíu og það vakti mikla athygli fyrir gæði. Menn telja að möguleiki sé á því að íslenska lambakjötið geti náð 25% markaðshlutdeild innan þeirra verslana. Vandamálið sem kom upp þegar sendingin kom til Belgíu --- og þá er ég kominn að því máli sem mér finnst ástæða til að menn fylgist vel með. (StG: Er það búvörusamningurinn?) Það tengist svo sannarlega, hv. þm. Stefán Guðmundsson, búvörusamningnum og þeim málum sem við erum að fjalla um og ég gerði að umtalsefni og gerði grein fyrir áður en hv. þm. var kominn í salinn vegna hvers og í hvaða sambandi ég færi svona rækilega í gegnum þessi mál. Það er vegna þess að sá samningur, sem liggur fyrir að ræða um og búvörulögin, tengjast þessum málum mjög alvarlega. Í þeim er tilhneiging til að styðja við útflutning á lambakjöti.

Vandamálið sem kom upp var að þegar sendingin kom til Belgíu voru útflutningspappírar --- nú væri gott að fá hæstv. utanrrh. í salinn, herra forseti. Eða ég verð að treysta því að hæstv. landbrh. komi þeim ágöllum til skila sem eru varðandi það ráðuneyti vegna flutnings á okkar dýrmætu afurð á erlendan markað. Ég treysti því að hæstv. landbrh. geri það.

Vandamálið sem kom upp var að útflutningspappírar frá utanrrn. voru ekki réttir og Delhaize varð að greiða 240 kr. í toll af hverju kg og 19% skatt sem var þó reyndar endurgreiddur síðar. Þetta er aðeins fyrsta atriðið sem ég nefni um það sem er að hjá okkur sjálfum. Annað atriði er að ekki vannst tími til að vinna kjöt í því magni sem þessir aðilar óskuðu eftir að fá. Þeir fengu vísbendingu frá okkur um að unnt væri að útvega 400--500 lömb. En þær upplýsingar sem við gáfum reyndust vera rangar þegar upp var staðið.

Það langalvarlegasta við þessa tilraunasendingu sem ég er nú að geta um er að kjötinu var skilað að hluta til vegna þess að það aflitaðist. Það er vegna þess að ferska kjötinu var pakkað í plast sem er ætlað fyrir fryst kjöt en ekki ferskt og þar af leiðandi er plastið of þétt. Það er vegna þess að hitastigið á vatninu, sem notað er við pökkunina, var of hátt. Þetta leiðir hugann að því hversu vanbúin við erum til þess að takast á við þetta verkefni sem við héldum að við værum snillingar í, þ.e. að framleiða lambakjöt fyrir neytendur.

Herra forseti. Eftir þau átök að reyna að koma íslensku kjöti á almennan neytendamarkað virðist mér staðreynd að við kunnum aðeins að flytja út frosið íslenskt lambakjöt í heilum skrokkum í kjötpokum. Búið og basta.

Hvað varðar Super Brugsen gerðist það að annar aðili í Danmörku fékk kjöt á lægra verði en þeim hafði verið kynnt og það olli því að þessir aðilar vilja að sjálfsögðu endurskoða áætlun sína um kaup á kjöti frá Íslandi. Reiknað var með að það væri hægt að selja þeim, ég vil ekki tiltaka verðið, á mjög þokkalegu verði sem hefði skilað til bænda sæmilegu verði og hærra en það sem menn hafa hér verið að ræða um að gengi til þeirra. Hvað gerðist þá? Þá kemur þriðji aðilinn og býður íslenskt lambakjöt á lægra verði til sömu verslunarkeðju og var búið að gera samning við og þar með var búið að eyðileggja markaðinn. Þarna eigum við Íslendingar eftir að taka okkur tak og læra.

Ég vil gera hæstv. landbrh. og reyndar hæstv. utanrrh. grein fyrir því --- vegna þess að það er á þeirra svæði að koma því í réttan farveg --- að ekki liggur fyrir hversu stóran kvóta við höfum til lambakjötsútflutnings í Evrópu. Við vitum að kvótinn á Evrópu var 600 tonn og þar af voru aðeins heimil 10% til útflutnings á fersku kjöti. Menn eru nefnilega ekki sammála um og vita ekki nákvæmlega hvort að kvótinn, sem var 600 tonn og þar af 10% af fersku kjöti, hafi fylgt inn á Evrópu eftir að Svíar gerðust aðilar að Evrópubandalaginu. Væri gott að biðja hæstv. landbrh. að gera grein fyrir þessu ásamt öðru því sem ég er búinn að leggja hér fram sem spurningar og hann hefur verið svo vinsamlegur að vera viðstaddur.

Ég nefni nokkur atriði í viðbót. Ég vil tala um húsin sem hafa leyfi. Það liggur fyrir núna fljótlega --- og jafnvel er það komið nú þegar þó ég sé ekki búinn að fá það núna í hendur --- hvaða sláturhús og afurðastöðvar hafi útflutningsleyfi á Evrópumarkað og Ameríku. Þegar það liggur endanlega fyrir er afar brýnt að stillt verði upp vinnsluáætlun fyrir haustslátrun 1996. Ég er farinn að tala um næsta haust. Þá verður að koma því á hreint hvaða hús geta pakkað fersku kjöti og hver geta pakkað frystu kjöti með tilliti til þess sem hægt verður að áætla um sölumöguleika í næstu sláturtíð á fersku kjöti. Delhaize og SuperBrugsen mikla áherslu á að geta fengið kjöt frá byrjun ágúst og fá síðan kjötið sent með flugi reglulega á sláturtímabilinu allt fram til loka nóvember. Við þurfum að geta lengt sláturtíma okkar á þann tíma frá byrjun ágúst eða jafnvel í lok júlí og út nóvember. Þeir sem gerst þekkja til segja mér að þetta muni vera hægt. Þessir aðilar telja að með því að við komum með kjötið okkar snemma á markaðinn munum við ná fótfestu áður en samkeppnisaðilar frá Nýja-Sjálandi og Englandi koma með sitt ferska kjöt því þeir eru einum til hálfum mánuði á eftir þeim tíma sem ég nefndi áðan. Þessir aðilar vilja síðan taka vöru okkar til rækilegrar kynningar í ágúst og september 1996 þannig að við eigum möguleika.

[11:15]

Ég fór í nokkrun orðum yfir stefnumótun því að það var örlítið brot af því sem Danir hafa verið að vinna varðandi stefnumótun um lífræna og vistvæna ræktun. Ég þyrfti langan tíma til að kynna stefnuskrá norsku bændasamtakanna, sænskra bænda og danskra og það hef ég auðvitað með mér til þess að geta vitnað til þess ef ég verð spurður um það á eftir hvernig þessum málum er háttað hjá þeim og ég mun þá reyna að gera grein fyrir því.

En það sem okkur vantar á Íslandi er stefnumörkun í landbúnaði. Um þetta veit ég að hæstv. landbrh. er mér algerlega sammála. Því miður er það þannig að eftir þá stjórnun sem verið hefur undanfarna áratugi er alveg með ólíkindum að það skuli ekki vera til mörkuð heildstæð stefna um hvernig við eigum að standa að landbúnaði okkar og þá sérstaklega varðandi útflutning á kjöti sem við erum búnir að leggja til tugi milljarða og ekkert stendur eftir nema sviðinn akur og kaldakol. Enginn finnanlegur kaupandi eða áhugamaður um íslenskt kjöt var eftir nema þá einhverjir örfáir einstaklingar sem hafa kynnst þessum ágætu gæðum sem ég er sannfærður um að við höfum fram að bjóða.

Ég tel að við eigum að fara að dæmi Norðmanna, Svía og Dana um stefnumörkun varðandi þessi málefni. Ég tel að landbrn., umhvrn. og Bændasamtökin eigi að standa að þessu og sem starfsmaður í þessum hópi mun ég leggja mitt af mörkum til þess að vinna það verk. Mér til mikillar ánægju er starfsmaður þessa hóps nú kominn á pallana og ég vil ítreka það sem ég hef tvítekið áður að ég tel að sá starfsmaður, sem heitir Baldvin Jónsson og hefur verið að vinna að þessum málum, hafi lyft grettistaki við þessa vinnu og hann hefur upplýst, ekki bara mig heldur hundruð manna um það hvernig við erum stödd varðandi útflutninginn.

Þá er vert að fara yfir það sem er að. Við kunnum ekki að pakka í gáma. Fylgiskjöl um útflutning til Evrópu eru ekki í lagi. Tryggingamál okkar eru ekki í lagi. Það vantar reglugerðarform frá Evrópubandalaginu. Við erum ekki klár á því hvernig best er að standa að útflutningi með skipum eða flugi. Við höfum með ólíkindum litla yfirsýn yfir slátrunina. Þeir aðilar sem vildu kaupa kjöt geta ekki bara hringt og sagt: Ég þarf að fá 300 skrokka á bilinu 15--16 kg á þessum tíma vegna þess að framkvæmdin er svo handahófskennd við slátrun í landinu. Því miður er þetta sannleikur. Það er vegna þess að við höfum ekki gert okkur grein fyrir því að það þyrfti að vera svona. Ég er ekki að ásaka nokkurn mann í sambandi við þetta heldur er ég að benda á að það kom í ljós með þessu átaksverkefni að við erum mjög vanbúin til að selja þessa hágæðavöru og fara með hana á réttan hátt.

Ég nefni örfá atriði til viðbótar. Það er t.d. um óstöðugleikann sem við eigum við að etja. Við erum að tala um þann verðmun sem við erum að slást við innan sömu markaða þegar það gerist þannig að búið er að ná samningum um þokkalegt verð sem skilar vel til bænda. Hvað gerist þá? Þá kemur annar eða þriðji aðili og býður sömu vöru á lægra verði og raunverulega eyðileggur það sem hefur verið gert og áunnist. Að sjálfsögðu vantar samræmda markaðsstarfsemi.

Það vantar verulega á að við getum pakkað kjöti á þann veg sem til er ætlast. Við viljum ekki fá húsin okkar vottuð. Við eigum eftir að koma upp vottunarstöðvum bæði fyrir vistvæna og lífræna framleiðslu. Þetta er hluti af því átaki sem við eigum eftir að gera og eigum eftir að vinna við stefnumörkun.

Ýmislegt fleira er að. Það er kannski það versta að sumir aðilar, sem fást við þessi mál, hafa ekki minnsta áhuga á því að koma þessari vöru á markað. Ég hef áður nefnt hvernig staðan er innan landbúnaðargeirans. Við sem erum að vinna í þessum átakshópi höfum fengið það á okkur að við höfum ekki staðið að þessu verkefni af heilindum. Það er alrangt. Ég tel að sá hópur sem þarna hefur verið að vinna hafi gert það mjög einarðlega og heiðarlega og komið því fram sem til var ætlast.

Herra forseti. Ég er nálægt því að vera innan þeirra tímamarka sem ég taldi mig þurfa til að koma að í nokkrum orðum athugasemdum bæði um það frv. sem við erum að ræða hér og afleitt verkefni af því frv. Að sjálfsögðu þarf að fara miklu nákvæmar í málið og ég kannski geri það einhvern tíma við gott tækifæri. Ég vonast til að það gefist seinna. Ég er u.þ.b. hálfnaður í umfjöllun um þetta verkefni sem ég er að reyna að gera grein fyrir. Auðvitað á að biðja um skýrslu um hvernig til hafi tekist varðandi þetta. Það er eðlilegt því að ég er sannfærður um að það er fullur vilji þegar menn hafa kynnt sér málefnin á Alþingi fyrir því að þessu verði haldið áfram. Auðvitað væri gaman að vitna í ýmsar greinar og fréttir um hvernig til hefur tekist varðandi markaðssetninguna og umsagnir í blöðum. Ég er t.d. með umsögn úr The New York Times frá 15. nóv. sem ég tel að sé í meginatriðum jákvæð frétt. Í henni kemur fram sú vinna sem ég gat um áðan og ég er ekki viss um að menn viti almennt um að kjötið okkar er talið ljúffengt og safaríkt og sé verulega gott. Þó er í þessari frétt nefndur ákveðinn neikvæður punktur sem ég hef minnst á og er ástæða til að tala um.

Herra forseti. Ég læt lokið máli mínu að sinni en ef til kemur að menn hafi áhuga á því að vita frekar um skoðanir mínar varðandi það sem ég tel að upp á vanta er ég reiðubúinn að svara þar um.