Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 11:25:03 (1525)

1995-11-30 11:25:03# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[11:25]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson hefur lokið stuttri en bráðsnjallri ræðu um búvörusamninginn sem hér hefur verið fjallað um og eyddi þó aðeins örfáum orðum að útflutnings- og markaðsmálunum sem eru eitt það stærsta í huga okkar sem fjalla almennt um vanda landbúnaðarins. Ég er á margan hátt sammála honum að þar hefur ekki verið vel staðið að verki og get meira að segja kveðið fastar að. Þar hefur verið staðið illa að.

Mig langar að fá skýringu frá Gísla S. Einarssyni, sem hefur unnið að þessum málum ásamt fleirum, við því sem hann sagði: Við kunnum ekki að pakka í gáma. Við kunnum ekki að fylla út útflutningsskýrslur.

Nú er eins og það hvarfli að mér og mig minnir að við flytjum út töluvert af sjávarafurðum og þar virðast menn kunna þau handbrögð að pakka í gáma og menn virðast líka kunna þar að fylla út útflutningsskýrslur. Hvernig má þetta vera, hv. þm., að menn geti ekki farið í smiðju í svo einföldum málum sem þessum?

Ég vil hins vegar taka undir það sem hv. þm. sagði að ég held að það sé meginmál í útflutningsmálum í landbúnaði að vinna skipulega að markaðsmálum og þeir sem standa í slíku þurfa að læra þá einföldu reglu, þá einföldu, skýru og kláru reglu að menn þurfa að hugsa að utan og heim. Ég endurtek: Menn þurfa að hugsa að utan og heim en ekki öfugt eins og allt of lengi hefur verið gert í markaðsmálum.