Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 11:27:08 (1526)

1995-11-30 11:27:08# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[11:27]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Í síðustu orðum hv. þm. Stefáns Guðmundssonar var sú rækilega undirtekt við mál mitt að ég þarf varla að útfæra það frekar. Það sem hv. þm. missti af í upphafi máls mín var að fyrstu 20 mínúturnar sem ég talaði ræddi ég um þau lög sem liggja fyrir og búvörusamninginn, þó reyndar að litlu leyti og gat þá aðeins um þau atriði sem ég taldi vera verulega til bóta og ég get ítrekað hvað það er.

Hv. þm. spurði um hvernig mætti það vera að við kunnum ekki að pakka í gáma og vera með þennan mikla útflutning á fiski og þar tækist vel til. Það er alveg rétt. Þar hafa menn lært af reynslunni. Það sem ég átti við er að það hefur komið í ljós að við erum að pakka mjög litlu magni í óheppilegum umbúðum og við tökum allt of mikið pláss í gámum miðað við það sem við gætum sent út þannig að útflutningurinn verður miklu dýrari en þarf að vera. Síðan á eftir að laga millistarfsemi en þetta eru allt saman atriði, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem þarf að taka á. Við þessa markaðssetningu komu fyrst í ljós þeir annmarkar sem eru á því að koma þessari vöru út á markað. Þess vegna komu öll þessi atriði upp. Það hafði ekkert reynt á það fyrr, því miður. Það er sárt að þurfa að fara þessa leið. En ég tel þó að það sé ekki þannig að við getum ekki haldið áfram. Við eigum skýlaust að halda áfram. Við eigum að lagfæra það sem að er. Síðan eigum við að halda áfram og ég segi það hér og ég stend við það að við þurfum 3--4 ár til viðbótar því sem nú er hafið. Ef við náum ekki árangri á þeim tíma verður að draga úr sauðfjárrækt a.m.k. 25--30% til viðbótar við það sem nú þegar er gert.