Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 11:52:40 (1530)

1995-11-30 11:52:40# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[11:52]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er nokkuð liðið á þessa umræðu um búvörulögin og búið að segja trúlega flest af því sem segja þarf. Margt af því sem hefur komið fram var einnig sagt við 1. umr. en ég var einn af þeim stjórnarliðum sem tóku þátt í þeirri umræðu.

Í ræðu minni gagnrýndi ég ýmislegt í þessum nýja samningi og frv. sem ég tel að mætti verða með öðrum hætti svo að bændur sæju betri tíma. Eitt af því sem ég hafði sérstaklega orð á voru útflutningsmál bænda sem að mati flestra hafa beðið mikið skipbrot, því að markaðir fyrir lambakjöt erlendis gefa bónda ekki nema um 100 kr. fyrir kg þegar heim er komið. Allir sjá og vita að það mun aldrei verða til þess að halda uppi íslenskri bændastétt. Ég get ekki séð að þessi lög verði til þess að útflutningur á lambakjöti verði betri eða öflugri en hann hefur verið og ekki er við breytingum að búast fyrr en á málum verður tekið með einhverjum nýjum hætti.

Þau atriði sem ég hafði kannski fyrst og fremst orð á í ræðu minni og gerði fyrirvara um þegar málið var sent til nefndar varða vísitölutengingu beingreiðslunnar og uppkaupanna. Ég taldi þetta stílbrot miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar og samninga á almennum vinnumarkaði og þeim almennu viðhorfum í landinu að laun og annað sem tengist greiðslum væri bundið við vísitölu. Að koma slíku í lög fannst mér og mörgum fleirum algert stílbrot á þá stefnu sem mörkuð hefur verið. Ég kom þessum áhyggjum mínum og athugasemdum á framfæri við hv. landbn. og í meðförum nefndarinnar var þessu ákvæði í frv. breytt. Ég ætla að leyfa mér að lesa þau atriði sem ég sendi til hv. nefndar, með leyfi forseta. Ég fór fram á að þar bættist við sérstök grein sem hljóðaði svo:

,,Ríkisstjórnin skal fyrir lok desember 1995 hafa skipað nefnd hagsmunaaðila, þ.e. ríkis, Bændasamtaka og neytenda sem hefur það hlutverk að leggja tillögur fyrir Alþingi fyrir árslok 1996 um hvernig stuðningi við landbúnað verði hætt á ákveðnu árabili eftir árið 2000 þegar samningurinn rennur út. Slíkar tillögur næðu bæði til sauðfjár- og kúabænda.``

Þessi tillaga fékk umfjöllun í nefndinni að því er mér er sagt og ég veit að það sérstaka atriði hefur verið tekið ákveðnum tökum af hálfu hæstv. landbrh. Hann upplýsti í umræðunni í gær að hann mundi, varðandi þetta atriði og endurskoðunarákvæði í samningnum, skipa sérstaka nefnd, kannski einhvers konar arftaka svokallaðrar sjö manna nefndar, sem færi ofan í stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað á nýrri öld. Í þessari nefnd eiga að vera fulltrúar ríkisins, bænda, ASÍ, VSÍ, BSRB og Vinnumálasambandsins. Aðrir sem vilja vera í nefndinni, eftir því sem ég skildi hæstv. ráðherra, ættu einnig möguleika á því að koma nálægt þessu verki. Ég spurði sérstaklega hæstv. ráðherra í andsvari í gær hvort Neytendasamtökin gætu átt hlut að því máli eða jafnvel samtök kaupmanna. Ég held að með slíkri framtíðarsýn gætum við kannski nálgast þau vandamál sem varða bæði það hvernig bændastéttin ætlar að komast af í markaðsþjóðfélagi nútímans og ná sátt við þéttbýlið og hvernig bændur ætla að yrkja jörðina í framhaldi af því. Ég held að það séu allir áfram um það að íslenskum landbúnaði vegni vel, en þær aðgerðir sem nýttar hafa verið hingað til hafa ekki leitt til þess. Ég get því fyrir mitt leyti verið ánægður með þá yfirlýsingu hæstv. landbrh. að hann setji nefnd á laggirnar til að móta framtíðarstefnu í landbúnaðinum yfirleitt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvenær þessi nefnd muni taka til starfa og hvort hann muni setja henni tímamörk, t.d. á komandi ári. Það finnst mér mjög mikilvægt.

Annað atriði sem ég setti fyrirvara við og lagði til við hv. landbn. að yrði breytt varðar setningu í 9. gr. sem hljóðaði svo: ,,Það tekur breytingum með vísitölu neysluverðs, sbr. 39. gr. laga þessara.``

Í staðinn kæmi: ,,Það tekur breytingum samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.``

Í breytingartillögum hv. nefndar er lagt til að ákvæði 9. gr. sem hljóðar svo: ,,Það tekur breytingum með vísitölu neysluverðs, sbr. 39. gr. laga þessara`` falli brott þannig að vísitölutenging við neysluverð fellur út.

[12:00]

Í 11. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Beingreiðsla skal vera 3.734 kr. á hvert ærgildi á ári og tekur árlegum breytingum eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 174,1 stig 1. október 1995.`` Samkvæmt brtt. falla orðin ,,... og tekur árlega breytingum eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 174,1 stig 1. október 1995`` brott þannig að bæði ákvæðin sem tengdust samningnum í frv. eru felld brott. Og sá fyrirvari sem ég setti fram var einvörðungu um að þetta yrði fellt brott.

Ég heyri að minnihlutaaðilar í hv. landbn. ásamt fleirum hafa gert lítið úr þessu og telja að þetta skipti engu máli. Mér finnst það mjög merkilegt í ljósi þess að öll hagsmunasamtök þjóðarinnar hafa lagt höfuðáherslu á að þetta ákvæði félli brott og að þeir bændur sem fá greiðslur samkvæmt þessu fái enga sérstaka meðferð umfram aðra þjóðfélagsþegna. Þarna er verið að taka út sjálfvirkni hækkana og í stað þess mun Alþingi sjálft mun ákveða hver hækkunin verður. Auðvitað leggur ríkisstjórnin samkvæmt samningnum fram tillögu um að þessi viðbót sem kemur inn vegna vísitölunnar verði í fjárlögunum og fái eðlilega meðferð að hennar áliti, enda hefur ríkisstjórnin skrifað undir þennan samning. En Alþingi hefur ekki staðfest þetta ákvæði í samningnum og það er grundvallaratriði.

Ég læt mér jafnvel detta í hug að minnihlutaaðilum sem hafa talað um léttvægi þessa ákvæðis, fyndist trúlega allt í lagi að það væri í lögunum. Þeim finnst sennilega allt í lagi að það sé í lögum að slík ákvæði séu föst, lagabundin og óbreytanleg nema með samþykki þingmanna. Í mínum huga er þetta mjög mikið grundvallarmál og réttlætismál sem snýr að allri þjóðinni þannig að ég fagna því sérstaklega og vil þakka meiri hluta landbn., því mér skilst að minni hluta landbn. hafi verið alveg sama þó að þetta væri í lögunum.

Ég ætla að rifja upp það sem ég sagði við fyrri umræðu varðandi þessi tvö ákvæði. Með leyfi forseta hljóðar það svo: ,,Ég tel nauðsynlegt til að almennt sé hægt að samþykkja áframhaldandi stuðning við bændur að við sjáum einhvern tímann til lands og að styrkjatímabilinu ljúki. Enginn ætlast til þess að það gerist á næsta ári en að það sjái fyrir endann á þessari píslargöngu. Og bændur standi uppréttir og standi undir eigin framleiðslu. Á meðan þeir eru launaðir af ríkinu ættu þeir einnig að lúta sömu ákvæðum um vísitölutengingu bóta og aðrir launþegar.``

Fyrirvararnir hafa því að mínu viti verið teknir út hvað mig varðar þó svo ég sjái ekki fyrir mér að þessi samningur muni hjálpa bændum mjög langt. Ýmis ákvæði eru til frjálsræðisáttar þó að miklu lengra þyrfti að ganga. Til að það geti gengið þurfa bændur algert frelsi.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að lýsa því yfir að við atkvæðagreiðsluna á morgun mun ég samþykkja þetta frv.