Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 12:05:09 (1531)

1995-11-30 12:05:09# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[12:05]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson taldi sig hafa gert tvenns konar fyrirvara ef ég skildi ræðu hans rétt, áður en frv. kom aftur úr nefndinni og hefur sætt sig við frv. núna. Annars vegar vegna þess að landbrh. ætlar að skipa nefnd sem á að vera í framhaldi af sjö manna nefnd. Nú er rétt að rifja það upp að sjö manna nefnd sú hin síðasta hóf störf eftir samkomulag í þjóðfélaginu árið 1990 í tengslum við kjarasamninga þar sem verkalýðshreyfingin og vinnveitendur lögðu á ráðin með ríkisvaldi og bændum um tilteknar breytingar í landbúnaðarmálum. Ég hygg að þó að þær hafi kostað mikið, þá hafi þær skilað okkur nokkuð á veg og það hefði verið eðlilegt að vinna í framhaldi af þeim núna.

Það sem gerðist síðan í tíð núv. ríkisstjórnar var að þetta samkomulag var rofið. Það sem hefur mjög ljóslega gerst og eru kannski ein mestu pólitísku tíðindi sumarsins á landinu er að ASÍ, VSÍ og BSRB hrökkluðust frá þessu samkomulagi, frá þessari samstöðu um málefni landbúnaðarins sem þau höfðu áður. Því er sá gerningur sem hér er að fara fram ekki með samþykki þeirra. Ég fagna því að Kristján Pálsson skuli nú með sínum fyrirvara hafa komið þessu í lag aftur og kallað VSÍ, ASÍ og BSRB að borðinu.

Á hinn veginn hafði Kristján ,,reddað`` málinu með verðtryggingunum og telur að nú séu ekki ákvæði um verðtryggingu á þessum upphæðum sem þarna eru nefndar. Hann hefur sennilega ekki lesið greinargerð sem fylgir nefndaráliti meiri hlutans og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, innan úr henni í 4. lið:

,,Ekki er talin ástæða til að hafa í lögum ákvæði um verðtryggingu einstakra atriða samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, svo sem á upphæð beingreiðslna, þar sem skýr ákvæði er að finna í samningnum um að allar fjárhæðir skuli miðaðar við verðlag 1. október 1995 og að þær taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs ... Ljóst er að stjórnvöld eru bundin af því ákvæði þó að ekki sé að finna ákvæði um verðtryggingu í lögum.``

Kristján segir hins vegar: Þetta er þannig að Alþing ákveður hverju sinni hvort verðtryggingin sé eða ekki.

Ég hef ekki setið lengi á þingi en mér sýnast orð stangast á. Ég vildi gjarnan kalla á það, bæði frá Kristjáni og hæstv. landbrh., hvort Alþingi geti afnumið verðtrygginguna, næst þegar þetta þarf að ákveða með formlegum hætti, hvort það geti lækkað upphæðina eða hvort það geti það ekki. Þetta er ósköp einfalt og þarf að koma fram.