Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 12:17:33 (1539)

1995-11-30 12:17:33# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[12:17]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla og orða hv. þm. Kristjáns Pálssonar og reyndar véku hv. þm. Hjálmar Jónsson o.fl. einnig aðeins að því hvað varðar útflutningsmálin og þann árangur sem þar hefur náðst og menn orða það jafnvel svo að það hafi verið frekar verið um skipbrot að ræða. Ég vil ekki orða það svo þó að mistök hafi vissulega orðið en umræðan er a.m.k. góð um útflutningsmálin.

En alvarlegra er þó, og það er það sem hefur farið fram hjá mönnum að ræða um og taka á, er hversu við höfum misst mikla hlutdeild í þeim markaði sem skilar bændum hæsta skilaverði. En það er einmitt innanlandsmarkaðurinn. Sú umræða hefur því miður nánast setið á hakanum það sem af er umræðunni um þetta mikilsverða mál. Menn hafa nánast eingöngu talað um markaðsmálin, hvað lýtur að útflutningi á þessum afurðum. Ekki hefur verið farið ítarlega yfir þann þáttinn er lýtur að innanlandsneyslunni og vegna hvers við höfum tapað jafndýrmætum mörkuðum og þar hafa verið og reynt að kryfja til mergjar þá neyslubreytingu sem orðið hefur hjá þjóðinni.

Auðvitað mjög mikilvægt í þessu máli sem öllum öðrum að menn reyni að kryfja þann vanda sem við er að fást ef menn ætla á annað borð að sækjast eftir einhverjum árangri í þeim málum sem verið er að fjalla um.