Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 13:22:27 (1545)

1995-11-30 13:22:27# 120. lþ. 47.1 fundur 204. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (frestun greiðslumarks) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur


[13:22]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessu litla frestunarfrv. hefur hæstv. landbrh. að mínu mati staðfest að sú gagnrýni sem fram hefur verið borin á málsmeðferðina er réttmæt. En hann hefur brugðist við með sanngjörnum hætti. Staðreyndin er sú að þetta mál hefur verið lengi til umfjöllunar í landbn. Það hefur dregist mjög lengi að samkomulag tækist milli stjórnarliða um málið. Síðan er það að þegar þeir hafa loksins náð samkomulagi um brtt., þá stóð til að keyra málið í gegnum þing án þess að hæfilegur tími gæfist fyrir stjórnarandstöðu að kynna sér þær breytingar sem á voru orðnar eða undirbúa hugsanlega aðrar breytingar. Með þessari niðurstöðu, frestun málsins fram í næstu viku, er raunverulega verið að viðurkenna að málsmeðferðinni hafi verið áfátt.

Ég vil líka benda á að umræðan sem fram hefur farið hefur verið með þeim hætti að jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar hafa sett fram gagnrýni á málið, á málsmeðferð, efnistök og efnisinnihald þess. Ég vil því fagna frv. landbrh. og tel að hann hafi tekið skynsamlegan kost með því að flytja það.