Endurskoðun slysabóta sjómanna

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:03:58 (1546)

1995-12-04 15:03:58# 120. lþ. 50.1 fundur 113#B endurskoðun slysabóta sjómanna# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:03]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til samgrh. vegna þál. um endurskoðun slysabóta sjómanna samkvæmt siglingalögum sem samþykkt var á 117. löggjafarþingi 1993, en í þeirri þál. segir svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að endurskoða ákvæði siglingalaga, nr. 34/1985, um bótarétt sjómanna á íslenskum skipum vegna líf- eða líkamstjóns. Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, rannsóknarnefndar sjóslysa, Sambands íslenskra tryggingafélaga og Siglingamálastofnunar.``

Tilefni þessa, virðulegi forseti, var m.a. það að siglingalögin eru ekki aðgengilegri en það að ef sjómenn slasast við það að bjarga félögum sínum sem hafa fallið fyrir borð, þ.e. kasta sér í sjóinn á eftir félaga sínum og slasast við það, þá er ekki gert ráð fyrir því í siglingalögum að þeir eigi rétt til bóta. Af þeim sökum og vegna þess að upphæðir tryggingabóta siglingalaganna eru orðnar það lágar að full ástæða er til þess að skoða þær beini ég þeirri fyrirspurn til samgrh. hvað líði endurskoðun þessara ákvæða siglingalaga og hvort ekki sé þegar hafin vinna hvað þetta varðar.