Áhrif búvöruverðs á almenna verðlagsþróun og forsendur kjarasamninga

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:07:44 (1548)

1995-12-04 15:07:44# 120. lþ. 50.1 fundur 114#B áhrif búvöruverðs á almenna verðlagsþróun og forsendur kjarasamninga# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:07]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þann 29. nóv. sl. afhenti ríkisstjórnin aðilum vinnumarkaðarins yfirlýsingu vegna þeirra viðræðna sem þá höfðu farið fram undangengna daga um launamál í launanefnd. Í þeirri yfirlýsingu segir m.a. svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Aðilar vinnumarkaðarins hafa lýst áhyggjum sínum vegna mögulegra áhrifa búvöruverðs á almenna verðlagsþróun á næsta ári. Hafa þeir einkum nefnt breytingar á verðlagi grænmetis og afurðum svína og alifugla.

Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa framleiðenda kanna ábendingar ASÍ og VSÍ og leita leiða til að koma í veg fyrir að verðlagsbreytingar á áðurnefndum afurðum raski verðlagsforsendum kjarasamninga.``

Það er ljóst að hér er verið að vísa m.a. til minnisblaðs sem aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt fram um þessi mál sem m.a. kveður á um verulegar breytingar, í fyrsta lagi á magntollum vegna landbúnaðarafurða, þ.e. allt að helmingslækkun strax á magntollum. Enn fremur er gert ráð fyrir því í þessu minnisblaði að svína-, alifugla- og eggjaframleiðsla falli undir samkeppnislög. Þess vegna er ljóst að hér er verið að tala um býsna stóra hluti. Það liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingum talsmanna m.a. Alþýðusambands Íslands, t.d. Gylfa Arnbjörnssonar, hagfræðings Alþýðusambandsins, í Morgunblaðinu að það er mjög byggt á því að verðlagsforsendur kjarasamningsins standist að þetta muni ganga eftir.

Þess vegna hef ég áhuga á því að spyrja hæstv. landbrh. hvað þarna búi að baki, hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hafi um það að breyta þannig málum að það megi takast að halda verðlagsþróuninni innan þeirra marka sem að er stefnt, eða um 2,4% verðbólgu á næsta ári. Hér erum við að tala um einn af hornsteinum þess að hægt sé að tryggja frið á vinnumarkaði og lágt verðbólgustig og þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. landbrh. svari því nú með hvaða hætti hann muni vinna að því að tryggja þessa nauðsynlegu forsendu þess að friður megi haldast á vinnumarkaði.