Áhrif búvöruverðs á almenna verðlagsþróun og forsendur kjarasamninga

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:12:16 (1550)

1995-12-04 15:12:16# 120. lþ. 50.1 fundur 114#B áhrif búvöruverðs á almenna verðlagsþróun og forsendur kjarasamninga# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:12]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að gagnstætt því sem margir héldu fram, þá stóðust þessar verðlagsforsendur samninganna. Engu að síður er það svo að þegar maður skoðar þau viðbrögð sem hafa komið fram eftir að þessi yfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar leit dagsins ljós, þá er það ljóst að viðsemjendurnir, a.m.k. fulltrúi Alþýðusambands Íslands, lítur þannig á að frá því sé gengið að það verði gripið til ákveðinna aðgerða til þess að breyta þessum hlutum. Ég minni á að í viðtali við hagfræðing Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnsson, í Morgunblaðinu sl. laugardag segir hann, með leyfi virðulegs forseta:

,,Miðað væri við að þær breytingar, sem gerðar yrðu á verði grænmetis og afurðum svína og alifugla, vægju upp þau verðlagsáhrif sem yrðu af hækkun desemberuppbótar og 0,5% hækkun á tryggingagjaldi.`` Og síðan segir hann: ,,Desemberuppbótin mundi þess vegna að öllu leyti fara í vasa launþega og leiða til raunhækkunar á kaupmætti.``

Það er því út af fyrir sig rétt sem hæstv. landbrh. sagði. Yfirlýsingin felur það fyrst og fremst í sér að menn taki upp þessar viðræður. Engu að síður er það svo að það er túlkun a.m.k. þessa talsmanns Alþýðusambands Íslands að þetta sé meira en viljayfirlýsing um einhverjar óljósar viðræður. Þetta er viljayfirlýsing um það að ganga til ákveðinna verka, til ákveðinna breytinga á mikilvægum hlutum.