Launakjör í utanríkisþjónustunni

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 15:18:39 (1555)

1995-12-04 15:18:39# 120. lþ. 50.1 fundur 115#B launakjör í utanríkisþjónustunni# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur


[15:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera þá játningu strax að ég er ekki viss um að ég geti svarað þessari fyrirspurn hér og nú. Ég er ekki heldur viss um að henni sé beint til rétts aðila. Ég sá ekki þessa umræddu frétt og get ekki svarað því hvort upplýsingarnar séu réttar. Ég get þaðan af síður dæmt um það hvort hér sé um eðlileg launakjör að ræða, enda hugsa sé að það sé nokkuð afstætt. Ég minnist þess þó, af því að það er spurt um breytingar, að fyrir einu eða tveimur árum síðan var gerð tilraun til þess af hálfu fjmrn. að gera breytingar á skattalögum þess efnis að nánast allar greiðslur til sendiherra og sendiráðsstarfsmanna yrðu skattskyldar, en frá því var horfið, að mig minnir fyrst og fremst vegna þess að talið er að að stórum hluta sé um að ræða kostnaðargreiðslur sem séu sambærilegar kostnaðargreiðslum sem falla á sendiráðsstarfsmenn sendiráða annarra landa.

Loks hygg ég, og það byggir líka á minni frekar en öðru, að frá fjmrn. renni þessar greiðslur í einn sjóð sem heyri undir utanrrn. og úr honum sé deilt á þess vegum.

Það eina sem ég vil segja að lokum er það að ég bið menn um að hafa fyrirvara á því hvað teljist laun og hvað kostnaður í þessum efnum. Að öðru leyti verð ég að óska eftir því við hv. fyrirspyrjanda að hann, til þess að fá fyllri upplýsingar, leggi fram formlega fyrirspurn í þinginu og þá er án efa hægt að greiða betur úr hans máli og hans fyrirspurn heldur en mér tekst að gera hér og nú.