Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:01:54 (1572)

1995-12-04 16:01:54# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:01]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það í fullri hreinskilni að það gladdi mitt gamla hjarta að heyra ræðu þá sem hv. þm. Pétur Blöndal flutti áðan. Það eru ár og dagar síðan við höfum heyrt sjónarmið af þessu tagi frá þingmanni úr röðum Sjálfstfl., þess flokks sem sögulega séð hefur kennt sig við einstaklingshyggju, athafnafrelsi, einkaframtak, sem burðarása í efnahags- og atvinnulífi og lýst sig andvígan ríkisforsjá, kerfisforsjá, miðstjórnarvaldi o.s.frv. Ég þarf ekki að taka fram að ég er algerlega sammála greiningu hv. þm. á afleiðingum þessa frv. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að ríkisvaldið standi að svona samningsgerð. Ég tel stórlega ámælisvert þegar það gerist kjörtímabil eftir kjörtímabil að sitjandi þingmeirihluti ætlar að binda hendur næsta þingmeirihluta eftir næstu kosningar að slíkum samningum. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. hefur rétt fyrir sér í því að þetta er vondur samningur hvernig sem á hann er litið þrátt fyrir að ég viðurkenni að í markmiðssetningunni felst ákveðin uppgjöf frá kerfinu. Þar er því lýst yfir að menn vilji stefna frá þessu kerfi, að menn vilji afnema í verki, ekki bara í orði heldur í verki, framleiðslustýringu og kvótasetningu, að menn vilji aftengja fjárhagslegan stuðning við bændur framleiðslumagninu og falla þannig frá framleiðsluhvetjandi kerfi, að menn vilji stefna að því að koma á frjálsu markaðskerfi. Þessu er öllu lýst. En í raun og veru er allt saman tekið til baka í frv. og mikið hugvit er lagt í það að finna leiðir til þess að kippa þessu öllu úr sambandi. Þrátt fyrir afnám kvóta er framleiðslustýringu viðhaldið og þá eru miðstjórnarákvarðanir bæði um framleiðslumagn og þar af leiðandi um verð. Þrátt fyrir aftengingu beingreiðslna við framleiðslu er það samt sem áður svo að þeim bændum sem vildu kannski nota tækifærið og segja sig úr lögum við þetta ofstjórnarkerfi eru allar bjargir bannaðar. Ég er alveg sömu skoðunar og hv. þm. Pétur Blöndal um það að litlar líkur eru á því að markmiðið um að hætta opinberum afskiptum af verðmyndunni 1998 náist. Hvers vegna er ég þeirrar skoðunar? Það er einfaldlega vegna þess að ég held að viðbrögð bænda í verki við samningnum verði einfaldlega þau að tryggja sig gagnvart skaðlegum áhrifum þessa ofstjórnarkerfis með því að auka framleiðslu sína, með því að nýta vannýtta framleiðslugetu sína og tryggja sig gagnvart þeirri ólíðanlegu kvöð, liggur mér við að segja, sem á þá er sett með því að binda hendur þeirra í gegnum svokallaða útflutningsmarkaðsstýringu. Þeir þurfa að tryggja sig gagnvart því og ég tel þess vegna allar líkur til þess að við sitjum uppi þrátt fyrir þessa frómu markmiðsyfirlýsingar síðar meir með sama offramleiðsluvandann þegar kemur að því að endurskoða samninginn.

Hvers vegna skyldi það ekki vera svo? Þetta kerfi er orðið gamalgróið. Við þekkjum það í þaula og við þekkjum afleiðingar þess. Kerfið byggir einfaldlega á því annars vegar að ríkið tekur að sér að hvetja bændur til framleiðslu með því að tryggja þeim greiðslur. Þær eru núna beingreiðslur, framleiðslutengdar, voru áður í öðru formi þannig að með annarri hendinni kemur ríkið til bænda og hvetur þá til þess að auka framleiðsluna. Þetta gerir ríkið þrátt fyrir þá staðreynd að við höfum búið við offramleiðsluvanda lengi. Þá kemur ríkið með hinni hendinni og hyggst leysa það vandamál með því að skerða framleiðslurétt hvers og eins bónda og er búið að gera það árum saman. Það sem önnur höndin gerir er að hvetja til aukinnar framleiðslu. Það sem gert er með hinni hendinni er að hefta athafnafrelsi manna og draga úr framleiðslunni. Afleiðingin er sú að tilkostnaður í framleiðslu landbúnaðarvara hjá bóndanum fer stöðugt hækkandi. Afleiðingin er sú að framleiðni í þessari atvinnugrein fer stöðugt minnkandi. Afleiðingin er sú að framleiðni í þessu, hvort heldur er landbúnaðarframleiðslu eða úrvinnslu landbúnaðarvara, í ofstjórnarkerfinu hefur farið minnkandi á öllum undangengnum árum og áratugum. Heildarniðurstaðan af kerfinu er því þessi: Þrátt fyrir að þrír fjórðu hlutar af tekjum bænda komi frá skattgreiðendum í formi beingreiðslu og annarra styrkja fer samkeppnisstaða þeirra á markaðnum versnandi og afkoma bænda versnandi og afkoma sauðfjárbænda versnandi svo mjög að þeir hafa verið leiddir í svokallaða fátæktargildru af þeim sem teljast vera sjálfskipaðir vinir þeirra.

Hver er hlutur neytenda? Hlutur neytenda er sá að þeir búa við afleiðingarnar sem eitthvert hæsta verðlag á matvælum sem þekkist á byggðu bóli. Hver er hlutur skattgreiðenda? Jú, við erum nr. fjögur í heimssamanburðinum þegar kemur að því að meta hlutfallslega framlög og styrki frá skattgreiðendum til þess að halda kerfinu gangandi. Þetta er allt saman gamalkunnugt. Enginn maður sem hefur raunverulega skoðað þetta kerfi eitthvað getur haldið fram neinum skynsamlegum rökum fyrir því að viðhalda því öðrum en vandræðagangsrökunum að við erum sokknir svo djúpt í þetta kerfi og það er búið að koma kjörum bænda í svo illt efni að við þurfum enn einu sinni að gefa tiltekna aðlögun. Rökstuðningur hæstv. landbrh. snýst ekki lengur um það að verja kerfið sem flokksbróðir hans hefur staðið fyrir, varið áratugum saman, það snýst raunverulega ekki lengur um það. Það snýst um það að þeir geta ekki fallið frá kerfinu fyrirvaralaust, það þurfi aðlögunartíma.

Málefni bænda voru ekki rædd af mikilli hreinskilni í seinustu kosningabaráttu. Flestir voru þeir af því taginu sem riðu um héruð og ræddu málefni bænda að þeir fóru með harmatölur um hvernig komið væri kjörum bænda og töluðu síðan um að nauðsynlegt væri að bæta hag þeirra og það fólst fyrst og fremst í því að leggja meiri fjármuni í kerfið. Þrátt fyrir þá staðreynd að frá því t.d. að við tókum upp útflutningsbætur fyrst og eitt form útflutningsstyrkja er búið að verja af hálfu skattgreiðenda, af meiri hluta Alþingis Íslendinga framreiknað til verðlags 1994, 48 þús. millj. kr. til þess að reyna að koma offramleiðslunni í verð í útlöndum. Þessar tilraunir hafa staðið yfir árum og áratugum saman. Hver er árangurinn? Árangurinn eftir að búið er að moka þessum 48 þús. millj. kr. í þetta kerfi til að reyna að hasla sér völl með þessar afurðir á erlendum markaði er nákvæmlega enginn. Það eru raunverulega engar ýkjur þótt sagt sé að þessum fjármunum hafi verið sópað út um gluggann. Síðan velta menn því fyrir sér hvernig stendur á því að lífskjör á Íslandi eru miklu lakari en við gætum raunverulega ætlað þegar við lítum á hver þjóðarframleiðslan er á mann. Ein meginskýringin á því hvers vegna lífskjör á Íslandi fara versnandi er einmitt sú að það hefur verið farið af þvílíku gáleysi og þvílíku ábyrgðarleysi með svo hrikalegar upphæðir sem hafa ekki nýst einum eða neinum til þess að byggja upp lífskjör til frambúðar.

Fyrir seinustu kosningar sögðum við fullum fetum af hálfu Alþfl. að þetta kerfi væri búið að ganga sér endanlega til húðar, það væri engin leið að skynsamleg rök væru fyrir því að framlengja það. Nú yrði að snúa blaðinu við. Menn yrðu að horfast í augu við þessar nöktu staðreyndir um afkomu bænda, um hlut neytenda og um það að komið er að endimörkum vaxtar þegar að því er komið að pína skattgreiðendur til þess að fleygja eins og nú er komið á daginn 12 milljörðum til viðbótar í þessa hít. Hvað lögðum við til? Við lögðum til nákvæmlega það sem hv. þm. Pétur Blöndal var núna að segja. Við lögðum til að kvótakerfið yrði afnumið, ekki aðeins í orði heldur á borði. Að bændur yrðu frjálsir að framleiðslu sinni, fengju aftur athafnafrelsi sem frjálsir atvinnurekendur, þeir yrðu tengdir markaðnum og þeir bæru sjálfir ábyrgð á framleiðslu, gæðum og verðlagningu sinnar vöru. Við rökstuddum þetta sérstaklega með því fyrir seinustu kosningar að þetta væri nauðsynlegt vegna þess að við gengum að sjálfsögðu út frá því sem gefnu að eftir kosningar yrði framkvæmd GATT-samninga hagað á þann veg að bændur fengju að vísu sína samningsskuldbundnu tollvernd í upphafi en þeir yrðu að búa sig undir aðlögun aukinnar samkeppni við innflutning á næstu sex árum. Þess vegna væri ekki hægt að ætlast til þess að bændur á Íslandi og aðrir úrvinnsluaðilar í matvælaiðnaðinum mæti þeirri samkeppni með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak en það er raunverulega það sem til er ætlast ef kerfinu er haldið áfram.

Að vísu er það svo að núverandi stjórnarmeirihluti hefur haldið þannig á málum að því er varðar framkvæmd GATT-samningsins að engin aðlögun verður á þessu sex ára tímabili. Að því leyti hefur ríkisstjórnin þar með tekið þá ákvörðun að viðhalda óbreyttu kerfi, þ.e. viðhalda í reynd innflutningsverndinni, og þar með má hugsanlega segja að ekki sé eins mikil knýjandi nauðsyn til þess að hefja þessa aðlögun nú þegar.

Í annan stað sögðum við við bændur: Jafnhliða því að afnema kvótakerfið, viljum við að beingreiðslur til bænda verði með þeim hætti sem ráð er fyrir gert í tengslum við þessa alþjóðasamninga, GATT-samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir, þ.e. þetta verði grænar greiðslur, þær verði ekki framleiðslutengdar, þær verði ekki framleiðsluhvetjandi heldur beri að líta á þær sem búsetu- eða afkomutryggingu bænda á ákveðnu aðlögunartímabili sem síðan ættu að trappast niður eftir því sem landbúnaðurinn í verki í krafti athafnafrelsis lagaði sig að samkeppni og við upplifðum þá tíð að bjargálna bændur gætu séð sér sjálfir farborða.

[16:15]

Í þriðja lagi lögðum við til að verðmyndun landbúnaðarafurða yrði gefin frjáls. Það sem er einna ógeðfelldast í samningnum af öllu því sem hér er verið að gera er hvernig verið er að sýna það markmið af því að menn þora ekki annað en játa því einhvern tíma í framtíðinni en samt sem áður eiga menn að nálgast markmiðið bundnir á höndum og fótum og bændur eru þvingaðir í einhvers konar samyrkjubú um útflutningsábyrgð og jöfnunargreiðslur milli útflutningsmarkaða innbyrðis þannig að það sé alveg tryggt að engin hagkvæmni sé í þessum samningi og enginn hvati til þess að standa sig eða njóta af bóndans hálfu hans eigin framtaks jafnframt því sem þau fjögur sláturhús í landinu sem hafa útflutningsleyfi eru líka bundin á sama klafa.

Það versta við þennan samning er að verið er að réttlæta útgjöld upp á 12 þús. millj., væntanlega í seinasta sinn, væntanlega vegna þess að nú er kerfið búið að leiða alla aðila í þvílíkar ógöngur að nú verði að gera viðbótarátak. Dregin er upp nákvæmlega eins mynd og gert var í gamla búvörusamningnum og nánast með sömu orðum, að að loknum samningstímanum verði allt annað ástand ríkjandi og allt annars konar umhverfi. Þá geti menn farið að nálgast eðlilegt viðskiptaumhverfi fyrir landbúnað og landbúnaðarvinnslu. En gamli samningurinn skilaði ekki þeirri niðurstöðu og hann er harðlega fordæmdur af þeim sem flytja þetta mál. En, og það er kannski kjarni málsins, af því sem hv. þm. Pétur Blöndal var að segja að allar líkur eru á því ef menn reyna að setja sig í spor bænda að þetta yfirlýsta markmið um að eyða birgðum með þessum hætti takist ekki. Þessu fé verði því enn einn ganginn hent í þessa botnlausu hít og menn standi í sömu sporum þegar kemur að því að endurskoða samninginn. Ég er þess vegna fullkomlega sammála hv. þm. Pétri Blöndal þegar hann segir nánast að nýi sáttmálinn muni trúlega ekki reynast miklu betur en gamli sáttmáli í þessum málum.

Samstaða hefur tekist milli þriggja stjórnarandstöðuflokka og þá vísa ég til nefndarálits 1. minni hluta um andstöðu við samninginn og reyndar samstaða milli stjórnarandstöðuflokkanna allra um það að taka þannig á málinu að samningnum verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Það þýðir að verið er að segja við hv. stjórnarmeirihluta og ríkisstjórn: Samningurinn er ekki boðlegur, ekki fyrir bændur, ekki fyrir neytendur, ekki fyrir skattgreiðendur og ekki fyrir þjóðfélagið í heild. Á honum eru það alvarlegir gallar að við hljótum að hafna honum. Við erum hins vegar að segja við hæstv. ríkisstjórn: Þið eigið að ganga til samninga á ný á grundvelli ákveðinna meginreglna um það að snúa ykkur að því verkefni að vinda ofan af þessu kerfi. Þið eigið einfaldlega að afnema þetta kvótakerfi nú þegar frá og með næsta ári. Þið eigið að aftengja þessar beingreiðslur. Þið eigið raunverulega að nýta hluta af því fé sem varið er til stuðnings bændum og réttlætt er á aðlögunartíma til þess að leita starfslokasamninga við bændur þannig að þeir hrekist ekki slyppir og snauðir frá eigum sínum fyrirvaralaust. Það er einn angi þessa máls að nýlega varð það niðurstaða að kröfu þeirra sem eru sjálfskipaðir vinir bænda að brugðist var við EES-samningnum með því að herða enn á svokölluðum girðingarákvæðum í jarðalögunum. Afleiðingarnar af því hafa verið þær að svipta bændur í stórum dráttum eðlilegu viðskiptafrelsi með eigur sínar. Þessi löggjöf var óþörf á sínum tíma. Hún var hins vegar sett af því að menn vildu setja slíkar girðingar af ótta við það að hér yrði einhver innrás erlends fjármagns í tengslum við EES-samninginn. Það voru að vísu órar einir eins og reynslan hefur leitt í ljós en niðurstaðan varð sú engu að síður að hagur bænda og eðlilegt viðskiptafrelsi þeirra með eigur sínar var enn þá skert frá því sem það var fyrir og var það þó nóg og ekki á bætandi.

Því næst er það svo að fyrir utan þessar aðgerðir, afnám kvótakerfis og beingreiðslur, sem eru þá raunverulega búsetustyrkur en ekki framleiðendastyrkur og afkomutrygging á aðlögunartíma, er meginkrafan að sjálfsögðu sú að komið verði á raunverulegri samkeppni um verð og gæði og þessari opinberu ráðsmennsku lokið að því er varðar verðmyndunarkerfið. Ekki er nokkur vafi á því að ef bændur yrðu frjálsir að því að haga sínum málum með þeim hætti sem hér er lýst eru þeir einu mennirnir sem geta raunverulega bjargað sjálfum sér undan afleiðingum kerfisins. Þessi vantrú á getu bænda til þess að standa sem sjálfstæðir framleiðendur er orðin slík að keyrir úr öllu hófi. Kerfið hefur auðvitað grafið undan sjálfsbjargarviðleitninni, sjálfstraustinu smám saman vegna þess að bændur upplifa þennan ramma utan um starfsemi sína á þann veg að þeim eru raunverulega allar bjargir bannaðar. Það er satt að segja alveg ótrúlegt og segir stóra sögu um stjórnmálaástandið á Íslandi að aðeins einn þingmaður stærsta flokks þjóðarinnar með um 37--38% fylgi skuli standa upp í umræðum á hinu háa Alþingi um slíkan samning og segja: Það er engin leið að ég geti staðið að því að samþykkja slíkan samning því að hann er raunverulega brot á öllum þeim grundvallarreglum og öllum þeim grundvallarsjónarmiðum sem þessi flokkur hefur uppi gagnvart kjósendum fyrir kosningar og öllu því sem hann kennir sig raunverulega við í pólitískri hugsun sinni. (Samgrh.: Kennir hann sig við eitthvað?) Já, hv. þm. Eins og hv. þm. er auðvitað vel kunnugt um þrátt fyrir það að hann spyrji svo er það svo að Sjálfstfl. hefur lýst sjálfstæðisstefnunni mjög fjálglega á þann veg að hún byggi á þeim mannskilningi að óheft framtak einstaklingsins og samkeppni einstaklinga á markaði sé drifkraftur efnahagslegra framfara. Þessi flokkur hefur jafnframt sagt í utanríkispólitískri afstöðu sinni að til þess séu vítin að varast þau, þ.e. ofstjórnarkerfi af þessu tagi geti ekki haft nema eina niðurstöðu, þá að drepa niður allt framtak einstaklinganna sem er að lokum það eina sem hægt er að byggja á þegar um er að ræða sjálfbæra þróun í efnahagslegu tilliti. (KÁ: Hvers vegna samþykkir Sjálfstfl. þetta? Kanntu einhverja skýringu á því?) Hvers vegna, spyr hv. þm., samþykkir Sjálfstfl. þetta og hvers vegna hefur hann gert það á umliðnum árum? Hvers vegna hefur hann þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu yfirleitt reynt að yfirbjóða hinn Framsfl. í ríkisstuðningi við þetta kerfi? Ef hv. þm. spyr einlæglega og er að leita að svörum er kannski skýringanna að sumu leyti að leita í því kosningakerfi sem við búum við. Með öðrum orðum, þetta eru þeir tveir stjórnmálaflokkar sem heyja stöðugt kapp sín í milli um fylgi bænda. Að vísu er þar sitthvað með öðrum hætti en menn trúa því að skoðanakannanir benda til þess að um 60% bænda styðji framsóknarflokk númer eitt en einungis innan við 20% framsóknarflokk númer tvö og þeir sem vilja blanda sér í að reyna að afla fylgis bænda með slíkum gylliboðum og ríkisverndarloforðum eins og Alþb. hefur gert að hluta til, hafa ekki upp skorið mjög mikið í fylgi meðal bænda út á það, svona um það bil 9%.

Misvægi atkvæðisréttar á nokkurn hlut að máli vegna þess að oft og tíðum er þetta kapphlaup um seinasta þingsætið eða seinustu tvö þingsætin í mörgum landsbyggðarkjördæmum. Það er kannski sá atkvæðakaupamarkaður sem vegur þyngra en raunverulega trúin á yfirburði markaðsskipulags umfram ríkisforsjá þegar á reynir. (Gripið fram í.) Það skiptir í rauninni engu máli og allra síst nú þegar fyrir liggur að þessir tveir flokkar hafa sameinast um stjórn landsins. Þeir hafa gert það með ótvíræðu umboði kjósenda. Þeir fengu um 60% atkvæða í seinustu kosningum og spurningin er út á hvað þeir fengu það umboð. Sannleikurinn er náttúrlega sá að það einkenndi annan, þ.e. forustuflokk ríkisstjórnarinnar, að tala sem fæst um stefnu sína til þess að hafa óbundnar hendur en hinn stjórnarflokkurinn lofaði öllum gulli og grænum skógum og hafði ekki miklar áhyggjur af því hvernig efndirnar yrðu enda verða þær vissulega allar í skötulíki.

Ef við reynum að setja málið í samhengi hlýtur það að vera raunverulegum kjósendum Sjálfstfl. mikið umhugsunarefni hvernig á því stendur að flokkur þeirra kemur fram með þessum hætti sem ríkisstjórnarflokkur. Það er þrátt fyrir allt staðreynd að hann fær yfirgnæfandi meiri hluta fylgisins meðal kjósenda í þéttbýli og sérstaklega á suðvesturhorninu og hann fær það út á yfirlýsingar frambjóðenda og stefnuyfirlýsingu um það að þetta sé flokkur einkaframtaksins, þetta sé flokkurinn sem hægt sé að treysta sem talsmanni þeirra sjónarmiða sem skilur nauðsyn frjáls framtaks, yfirburði samkeppni á markaði til þess að gæta hagsmuna neytenda og til þess að drífa framleiðsluvélina áfram. Út á þetta fær flokkurinn atkvæði. Út á þetta sitja svo margir þingmenn sem raun ber vitni fyrir hönd Sjálfstfl. fyrir Reykjavík og Reykjanes. En það heyrist og hefur yfirleitt aldrei heyrst neitt frá þessum hv. þm. þegar kemur að því að taka pólitískar ákvarðanir sem ganga þvert á þessar pólitísku yfirlýsingar og ræða hv. þm. Péturs Blöndals er einmitt ánægjuleg og eiginlega söguleg undantekning frá þeirri meginreglu að Sjálfstfl. þegir þunnu hljóði þegar kemur að því að standa við stóru orðin og greiðir svo atkvæði í grundvallaratriðum gegn því sem hann boðar. Þetta er ekki bara þetta einstaka mál. Þetta er orðið að heilu mynstri í tíð núverandi stjórnarflokka. Þetta gerðist að því er það varðar hvernig Sjálfstfl. stóð að framkvæmd GATT-samningsins þar sem hann þverbraut ekki aðeins anda samningsins heldur allar grundvallarreglur sínar. Þetta gilti líka almennt séð, getum við sagt, að því er varðar þennan búvörusamning og það er rauði þráðurinn í stefnu Sjálfstfl. að því er varðar landbúnaðarmál yfirleitt.

Það er jafnvel svo að Sjálfstfl. gengur lengra nú en hann hefur yfirleitt gert í þessum málum vegna þess að hingað til hefur hann reynt að vera í samræmi við sögulega arfleifð sína og stefnu að því er varðar utanríkisviðskipti en líka á því sviði virðist hann vera að snúa baki við hefðbundinni stefnu sinni. (SvG: Það var kominn tími til.) Þetta frammíkall hv. þm. Svavars Gestssonar virðist benda til þess að hann telji að Sjálfstfl. sé að nálgast Alþb. að því er varðar afstöðu til verndarstefnu í utanríkisviðskiptamálum og er þá kannski kominn tími til að kalla á einhvern fulltrúa Sjálfstfl. að borði þeirra alþýðubandalagsmanna þegar þeir ræða sameiningu flokka seinna á þessum degi.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál.