Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:32:23 (1574)

1995-12-04 16:32:23# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:32]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. þm. hefði getað farið lengra aftur í söguna. Hann hefði getað farið aftur til ársins 1934 eða 1935 og ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta þegar Alþfl. í samstarfi við Framsfl. tók fyrst upp á kreppuárunum miðstýrt skipulag á framleiðslu, sölu og dreifingu landbúnaðarafurða sem lagði grundvöllinn að því kerfi sem við höfum búið við síðan.

Ég er ekki hingað kominn til að neita sögulegum staðreyndum. Það er líka söguleg staðreynd sem hv. þm. vísaði til að útflutningsbótakerfið var tekið upp í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. þó það hafi að vísu verið gert að frumkvæði hv. þm. og fyrrum ráðherra, Ingólfs á Hellu. Munurinn er hins vegar þessi: Þegar fyrsta löggjöfin í tíð ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta var sett var kreppuástand, og matarskortur á Íslandi. Í byrjun viðreisnar höfðum við ekki búið við offramleiðsluvanda, þó að sú ríkisstjórn hafi sett það kerfi sem vissulega stuðlaði að því. Reginmunurinn er hins vegar sá að um leið og menn sjá afleiðingarnar kerfisins, hverjar þær eru og hvað þær kosta og til hvers þær leiða, hefur Alþfl. auðvitað lært af þeirri reynslu, snúist gegn því og verið sjálfum sér samkvæmur sem andstæðingur þess alla tíð. Og hv. þm., ég ætla að bæta því við að þegar við, árið 1989 gerðum fyrsta tilboð af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi GATT-samkomulagið, þegar sá sem hér stendur var utanríkisviðskiptaráðherra, náðist loksins fram eftir margra ára og kjörtímabila baráttu að koma útflutningsbótakerfinu fyrir kattarnef. Það tókst og það skal tekið fram, í samstarfi við landbrh. Alþb., hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Alþfl. á það þannig a.m.k. með réttu, þó það hafi tekið langan tíma, að honum tókst að koma fyrir kattarnef þessu óhagkvæmasta, dýrasta og vitlausasta formi á stuðningi við landbúnað sem til er, þ.e. að styrkja neyslu útlendinga á slíkri vöru með útflutningsbótum.

Einn höfuðgallinn við það kerfi sem nú er verið að taka upp með þessum samningi er að verið er að smygla útflutningsbótakerfinu inn í kerfið á nýjan leik.