Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:38:37 (1577)

1995-12-04 16:38:37# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:38]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er vissulega ekki óskastaða í íslenskri sauðfjárrækt eftir 15 ára framleiðslustýringu, eins og fram hefur komið í ræðum fjölmargra þingmanna, en núverandi staða er afleiðing þeirrar stefnu sem hefur verið rekin gagnvart sauðfjárræktinni í langan tíma. Síðasti búvörusamningur sem Alþfl. átti sannarlega þátt í að gera gerði ráð fyrir að sala næstliðins verðlagsárs yrði höfð til hliðsjónar við ákvörðun á greiðslumarki. Auk þess var ekki tekið með nægilega miklum þunga á birgðamálum. Því varð afleiðingin minnkandi bú og birgðir hlóðust upp.

Við vonumst nú til með nýjum búvörulögum í kjölfar búvörusamnings að ná markmiðunum árið 2000 sem hefðu átt að vera komin árið 1985, hefði verið farið rétt í framleiðslustýringuna. Okkur sárnar það, nýjum þingmönnum Sjálfstfl. eins og öðrum, að 15 ár hafi farið til spillis og hér talaði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson um gáleysi og ábyrgðarleysi við okkur sem aðra. En hvernig getur hann talað þannig og einnig um misvægi atkvæða? Getur hann talað sig frá ábyrgðinni á sauðfjárræktinni og búvörumálum á Íslandi eitthvað frekar en aðrir? Allir stjórnmálaflokkarnir hafa tekið þátt í landsstjórninni, ekki síst einmitt Alþfl. sem hefur átt þátt í fleiri stjórnarmyndunum en aðrir flokkar á undanförnum árum. Þessi litli flokkur hefur átt jafnmarga ráðherra frá upphafi viðreisnar og Sjálfstfl., eða þar um bil. Þeir hafa þannig mótað stefnuna langt umfram aðra, þ.e. miðað við stærð flokksins. Atkvæðavægi alþýðuflokksmanna hefur verið langtum meira en annarra. Svo talaði hv. þm. um misvægi atkvæða.

Sannleikurinn er nefnilega sá að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ber a.m.k. sömu ábyrgð á því og aðrir hvernig komið er fyrir íslenskum sauðfjárbúskap. Hann ber sömu ábyrgð og væri hann hreinræktaður framsóknarmaður.