Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:44:15 (1580)

1995-12-04 16:44:15# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:44]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að rifja það upp að í seinustu kosningum mátti heyra það á frambjóðendum Framsfl. og sumum frambjóðendum Sjálfstfl. að ástandið í landbúnaðinum væri svona slæmt vegna þess að Alþfl. og sér í lagi formaður hans sem hefðu raunverulega ráðið lögum og lofum um framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. (Gripið fram í.) Sjáum til, hér stendur strax upp vitni sem segir að það hafi verið svo. Og svo kemur hv. þm. og segir að við höfum ævinlega látið í minni pokann. Ekki ber þeim saman stjórnarliðum í þessu frekar en kannski öðru.

Kjarni málsins er sá að þrátt fyrir að við höfum aldrei með landbúnaðarmálin farið, er rétt að það tókst að ná nokkrum árangri í sparnaði að því er varðar ríkisútgjöld í þessa botnlausu hít, í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það gerðist fyrst og fremst í samstarfi okkar við hæstv. fyrrv. landbrh. Steingrím J. Sigfússon. Það gekk öllu verr að því er varðaði fyrrv. hæstv. landbrh., Halldór Blöndal, sem var að því leyti meiri kerfishagsmunavörslumaður þessa úrelta kerfis en finnanlegur var jafnvel í Alþb. eða Framsfl. En aðalávinningurinn var þessi sem réttlætti það þegar við lítum til baka að Alþfl. hefur skilað verulegum árangri þrátt fyrir tregðulögmálið, þrátt fyrir andstöðu ráðandi afla í Sjálfstfl. Það er að sjálfsögðu GATT-samningarnar og það er í gegnum margvísleg valdsvið utanríkisviðskiptaráðuneytisins sem tókst með löggjöf og skuldbindingum alþjóðasamnings að knýja þetta kerfi til undanhalds.