Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 17:01:43 (1584)

1995-12-04 17:01:43# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[17:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók fram í ræðu minni að ég teldi ekki að meginvandinn væri sá að kjötið væri of dýrt heldur að allt of margir sauðfjárbændur væru að bítast um of lítinn markað. Við erum einnig með birgðavandamál og það á að reyna útflutning sem ekki hefur gefið nógu góða raun og það á að halda áfram á þeirri sömu braut. Ég tel þær leiðir sem lagðar eru til til að fækka sauðfjárbændum af hinu góðu eins og að greiða þeim fyrir full afköst þó þeir hafi ekki jafnmikið fé og að greiða þeim fyrir það þó þeir fari í önnur verkefni, hvetja þá til að fara í landgræðslu og annað slíkt. Það sem vantar er einhvers konar hvati til að gera vel. Þar sem ekki er ljóst að hverju er stefnt eða hvað tekur við árið 2000 getur bóndinn ekki vitað hvort sé skynsamlegt eða ekki að selja framleiðslurétt sinn. Ég tel mjög mikilvægt og til bóta fyrir bændur sjálfa til að koma á hagkvæmri sauðfjárrækt og fækka þeim sem eru um hituna að fólk viti nákvæmlega fyrir fram hver staðan verður árið 2000. Það kemur ekki fram og þess vegna getur bóndinn með engu móti tryggt sig nema með því að hafa þá að minnsta kosti þá framleiðslu sem stendur undir fullum beingreiðslum.