Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 17:03:49 (1585)

1995-12-04 17:03:49# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[17:03]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins og karlinn sagði forðum: Það er erfitt að spá og sérstaklega um framtíðina. Ég hygg að hver og einn eigi erfitt með að sjá hvað verður. Ég held að í samningnum liggi þau atriði að menn eigi að geta náð tökum á þessum málum og a.m.k. sumar breytingar, sem hér hafa verið gerðar, eru til bóta. Hv. þm. fullyrðir útflutningur verði sem sama hætti og verið hefur. Þetta er alrangt. Nýir sérmarkaðir blasa við þar sem greitt er mjög hátt verð fyrir kjötvöru. Heimurinn spyr eftir hreinni vöru, vistvænni vöru og menn telja að íslenskar kjötvörur eigi þarna mjög mikla möguleika. Það fullyrða þeir sem færastir eru á þessu sviði í heiminum

Nú eru afurðastöðvarnar farnar að þróa fullunna vöru sem fer beint á markað. Það er kannski eina leiðin sem við eigum. Samningurinn og það frv. sem liggur fyrir gerir okkur kleift að feta nýja leið í þessum efnum sem ég trúi að geti skilað árangri. Það kunna að vera einhver ár í það að við náum því marki sem við viljum en þarna eigum við mikla möguleika. Við þurfum einnig að muna eftir ull og gæru sem er dýrmæt afurð hér í landinu og því er mikilvægt fyrir okkur að styrkja sauðfjárræktina. Ég get tekið undir með hv. þm. að auðvitað er staðan sú miðað við þann flata niðurskurð sem hefur skollið á bændum og samdráttinn í þessari grein að allt of margir hafa framleitt of lítið. Búvörusamningurinn er gerður til þess að menn fái ekki á sig flatan niðurskurð og við getum horfið inn á nýjar brautir sem samningurinn og frv. gera ráð fyrir.