Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 17:07:03 (1587)

1995-12-04 17:07:03# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[17:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í seinni hluta umræðunnar hefur ekki mjög margt nýtt komið fram. Auðvitað eru mjög skiptar skoðanir um samninginn og ég ítreka að hann er svo sem ekki óskasamningur. Sjálfsagt væri samningurinn öðruvísi ef einhver einstaklingur hefði fengið að skrifa hann upp eins og hann vildi hafa hann. Það er svo með alla samninga. Ég held að ávallt þegar menn setjist niður við að komast að niðurstöðu um eitthvað þar sem skiptar skoðanir eru hlýtur niðurstaðan að bera þess merki að þar hefur verið reynt að ná samkomulagi.

Ég þarf svo sem ekki að ítreka enn einu sinni að ég held að í samningnum séu fjölmörg ný ákvæði sem kveða á um það og geta fullvissað menn um að við erum að fara inn í annað rekstrarumhverfi en verið hefur með sauðfjárframleiðsluna og þann hluta landbúnaðarins þó svo að auðvitað sé í þessu ákveðin óvissa sem ég hef ekki reynt að gera lítið úr. Ég hef verið mjög meðvitaður um að við sjáum ekki allt fyrir í þessu. Ég hef líka ítrekað margsinnis þá skoðun mína að að samningstímanum loknum sitjum við uppi með allt annað ástand í sauðfjárræktinni en núna. Það eru einmitt áhrif samningsins í þá átt sem markmið hans kveða á um og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, ásamt reyndar fleiri þingmönnum, hefur haft miklar efasemdir um og sagt að með fyrirvörum væri tekið eitt og annað til baka af því sem þó var getið um í markmiðunum og fyrirheitunum sem samningurinn felur í sér. Þrátt fyrir fyrirvara og að ná þurfi ákveðnu samkomulagi um hvernig að útflutningnum skuli staðið o.s.frv. eru þó í samningnum þau efnisatriði sem sýna það á samningstímanum að það eru umtalsverðar breytingar í aðsigi.

Ég fékk spurningar frá sumum hv. þm. sem ég vil reyna að leitast við að svara. Hv. þm. Gísli Einarsson spurði t.d. um hve margir hefðu nú þegar selt fullvirðisrétt sinn að fullu samkvæmt samningnum í aðdraganda hans nú. 110 eða 111 bændur hafa gert samning með þeim margumrædda fyrirvara sem var gerður að umræðuefni í upphafi umræðunnar en á sér eðlilegar skýringar og ég tel ekki að þurfi að hafa áhyggjur af. Hann spurði einnig um það á hvaða aldri þeir væru sem hefðu gert þennan samning. Ég býst við að hann hafi þá verið að hugsa um hve margir væru sjötugir eða yrðu sjötugir á samningstímanum. Okkur telst til að af þessum 111 bændum séu 46 bændur 65 ára eða eldri. Hann spurði einnig um það hve margir sætu áfram á jörðum sínum við önnur störf. Það er kannski fullsnemmt enn þá að segja til um það en enn sitja auðvitað flestir, kannski allir. Ég býst við að menn hafi ekki enn flust búferlum og ég á von á því að meiri hluti þessara bænda muni áfram sitja á jörðum sínum. Snúa sér þá að annarri atvinnu eða nýta tímann sem þeir hafa samkvæmt samningnum og fá fyrir beingreiðslur, fá þann hluta sem ríkið tryggir með beingreiðslum, greitt á samningstímanum. Þeir muni þá nota þann tíma til að hverfa að öðru þannig að ekki er við því að búast að þeir hafi nú þegar flutt búferlum.

Hv. þm. Gísli Einarsson ræddi mikið um útflutningsmál. Mér fannst hann reyndar ekki alveg sammála áherslum í því efni eins og hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. að útflutningur á sauðfjárafurðum séu gyllivonir og væntingar sem við eigum ekki að horfa til og við eigum sem fyrst að koma okkur út úr þeirri umræðu. Þeir sem vilja ganga lengra lögðu mikla áherslu á að það hefði í upphafi átt að gera mönnum betri tilboð um að hætta framleiðslu og koma í veg fyrir það að bændur væru að horfa til þess að einhverjar vonir gætu verið bundnar við útflutning síðar. Auðvitað er rétt að útflutningsmál hafa í gegnum tíðina verið með þeim hætti að þau hafa ekki gefið okkur ásættanlegt verð. Þó er ég viss um að margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Gísla Einarssonar gæti gefið vonir um breytt hugarfar hvað þetta varðar. Þá á ég fyrst og fremst við það sem er að gerast úti í hinum stóra heimi, þ.e. að neytandinn krefst vöru sem er framleidd við önnur skilyrði en þar er nú algengast sem hafa mikil umhverfisáhrif og þau ekki öll til góðs. Matvæli eru framleidd með ýmiss konar aukefnum, hormónum og lyfjum. Við höfum státað okkur af því að við framleiðum okkar landbúnaðarvörur með öðrum hætti. En þetta er nú enn þá sýn en ekki raunveruleiki. Ég hef varað við því og sagt að ég tel að menn yrðu að hafa ákveðinn fyrirvara á því að hefja framleiðslu til útflutnings í meiri mæli en þegar er gert miðað við þessar væntingar en þær geta kannski leitt til þess einhvern tíma að okkar ágæta landbúnaðarframleiðsla, sem framleidd er við þær aðstæður sem allir þekkja og þarf ekki að tíunda frekar, eigi meiri markaðsmöguleika.

Ákveðin atriði í samningnum geta líka leitt til þess að menn snúi sér að öðrum þáttum. Talað hefur verið um framleiðsluhvatann og mér finnst aðeins gæta misskilnings í því sem kom fram í máli bæði hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að beingreiðslurnar séu framleiðslutengdar. Ég held að ég hafi skrifað rétt eftir hv. þm. Pétri Blöndal að það væru kvaðir um framleiðslu tengda 0,6 ærgildum. Það eru í raun ekki kvaðir um framleiðslu. Það eru kvaðir um að halda þetta fé. Kannski er út í hött að segja það en menn geta haldið fé án þess að framleiða kjöt. Það er auðvitað hægt. (Gripið fram í: Er það upp á ullina?) Það gæti verið upp á ullina. Það er sem sagt ekki lengur framleiðslutenging. Beingreiðslurnar eru ekki bundnar við magn kjöts sem lagt er inn heldur við þá ásetningu sauðfjár sem bóndinn hefur.

[17:15]

Ég hvarf aðeins frá því sem ég var að hafa hér eftir hv. þm. Gísla Einarssyni þegar ég fór að tala um framleiðsluhvatann sem tengist auðvitað þessu með útflutningsmálin. Hann rakti það mjög ítarlega og í löngu máli að það væri auðvitað ýmislegt að hjá okkur sjálfum varðandi útflutningsmálin. Það eru ýmsir þættir sem við þurfum að skoða hér innan lands varðandi það hvernig við stöndum að þeim. Það eru kannski smáatriði eins og t.d. tryggingamál og ýmislegt sem varðar pökkun og slíkt. En þetta verður stórmál þegar það er komið á erlenda grund og veldur því á síðasta stigi að það er ekki hægt að selja kjötið vegna þess að þessi smáatriði eru ekki í lagi og þá er auðvitað ekki við neinn að sakast nema okkur sjálf. Ég er sammála hv. þm. um það að hér þurfum við að taka okkur á á ýmsum sviðum og hafa hlutina þannig að þeir geti gengið. Þetta er auðvitað hluti af því að kunna að markaðssetja vöruna og gera það á þann hátt sem við höfum lært. T.d. varðandi fisk, sem við erum þekktust fyrir og færust um að flytja á erlenda markaði. Og þar höfum við gengist undir það að svara kröfum markaðarins. Það þurfum við auðvitað að gera á þessu sviði líka. Það á ekki bara við um útflutninginn. Það á líka við um innanlandsmarkaðinn okkar. Það á auðvitað að bæta og auka vöruvöndun og markaðssetninguna þannig að við getum svarað markaðskröfunum betur en við höfum gert.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson fór líka nokkrum orðum um samninginn og greindi frá því í hverju hans fyrirvari við nefndarálitið væri fólginn. Það beinist kannski einkum að því að hann telur að í raun sé þeim hyglað sem ekki hafa farið að óskum og kröfum um framleiðslustjórnun og stýringu á undanförnum árum og jafnframt gengið á rétt þeirra sem hafa virt leikreglurnar. Þetta er auðvitað hluti af því frelsi sem samningurinn gerir ráð fyrir og sumir hafa viljað gera lítið úr. Þetta er hluti af því frelsi sem verið er að reyna að koma hér á, menn eiga að hafa aukið svigrúm og frjálsræði í framleiðslunni. En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Við getum ekki bæði haldið í hugsanlega kosti gamla samningsins og jafnframt gert kröfu um að við hverfum frá framleiðslustýringu til annarra og frjálsari aðferða. Það á auðvitað að hluta til líka við um verðlagninguna og frelsið á því sviði.

Hv. þm. Kristján Pálsson, spurði mig ítrekað um hugmyndirnar um stefnumótun og endurskoðunarákvæði samningsins. Ég var reyndar búinn að gera grein fyrir því í svari mínu áður að í samningnum eru skýr ákvæði um það að hvor aðili um sig geti óskað eftir viðræðum um endurskoðun hans. En þar segir líka að að þremur árum liðnum skuli samningsaðilar gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Í framhaldi af því skal hefja undirbúning viðræðna um áframhaldandi stefnumörkun á þessu sviði. Ég vitna hér til samningsins orðrétt og vona að hæstv. forseti lái mér það ekki, þótt ég hafi ekki beðið um það fyrir fram.

Varðandi þessi ákvæði hef ég ekki miklu við að bæta. Eins og ég hef áður sagt í þingræðum er skoðun mín sú að mikilvægt sé að fá á ný aðila vinnumarkaðarins og aðra þá sem gætu haft gott til málanna að leggja til slíkrar stefnumótunar. Ég ætla ekki að tíunda einstaka aðila í því efni, en ítreka það sem ég sagði áður að málið varðar fyrst og fremst ríkisvaldið og Bændasamtökin. Þeir aðilar verða að ákveða hverjum þeir bjóða til slíkra viðræðna og gæta þess að ekki verði öðrum boðið að samningaborði en þeim sem vilja taka þátt í stefnumótun til framtíðar. Það er mjög mikilvægt að um stefnumótun í landbúnaði náist víðtæk og breið samstaða.

Hv. þm. spurði líka hvenær slík nefnd gæti tekið til starfa samkvæmt samningnum og hvenær hún gæti hugsanlega lokið störfum. Ég held að slík stefnumótun og viðræður séu nú kannski eitthvað sem ætti að vera stöðugt í gangi. En ég get upplýst hv. þm. um það að nú hafa fulltrúar Landsambands kúabænda komið á minn fund og beðið um að farið yrði að ræða við þá um hugsanlegt framhald eða hugsanlega afstöðu stjórnvalda til samningsins sem við köllum nú stundum í þessari umræðu ,,gamla búvörusamninginn`` en er auðvitað sá samningur sem er í gildi í dag og rennur út að tveimur árum liðnum. Fulltrúar þessarar greinar landbúnaðarins hafa nú þegar óskað eftir viðræðum. Þeir hafa jafnframt óskað eftir að til þeirra viðræðna kæmu aðilar vinnumarkaðarins. Auðvitað þyrfti því að byrja fljótlega á því að ræða við þá aðila um áframhaldandi stefnumótun í landbúnaði og af þessu sést að stjórnvöld eru enn að ræða við aðila atvinnugreinarinnar um stefnumótun og málefni hennar, eins og við á. Ég hygg að stjórnvöld séu út af fyrir sig alltaf að ræða við hagsmunaaðila, t.d. í sjávarútvegi svo ég taki annað dæmi, þótt þau séu ekki að gera við þá neina samninga í líkingu við búvörusamningana. Það leiðir hins vegar hugann að því að þessi atvinnugrein hefur á undanförnum árum verið rekin með allt öðrum hætti. Þótt hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kjósi að segja sem svo að landbrh. núv., sá sem hér stendur, sé með þeim breytingum sem hér eru a.m.k. boðaðar og þeim stefnumarkmiðum sem settar eru fram í samningnum að viðurkenna að núverandi kerfi hafi beðið skipbrot og það þurfi að byrja að nýju, þá er mér það ekkert viðkvæmt mál. Ég hef lýst því yfir og ég held að ég hafi meira að segja líka gert það í kosningabaráttunni í vor ... (Gripið fram í: Ertu viss?) Já, ég er alveg viss um það, hv. þm., að það kom oft til umræðu á fundum okkar í Norðurl. e. að það þyrfti að gera breytingar í landbúnaði. Frambjóðandinn, sem nú er orðinn landbrh., stendur við það sem hann sagði þá og er með því sem hann leggur til hér að stíga skrefi í þá átt. Hann viðurkennir hins vegar líka þau orð hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að það væri enn einu sinni verið að sætta sig við aðlögun. Ég sagði held ég einhvern tímann fyrr í þessari umræðu þegar við skiptumst hér á skoðunum, ég og hv. þm., að ég væri ekki mikill byltingarsinni, ég teldi að við yrðum að horfast í augu við það hvernig þessum málum hefur verið háttað og að við þyrftum að gefa okkur tíma til að koma þeim breytingum á sem hér eru boðaðar. Og ég held að sá samningur sem við erum að fjalla hér um sé einmitt mikilvægt skref á þeirri leið að gera raunverulegar breytingar varðandi þessa stjórnun og þá samninga sem gilt hafa um sauðfjárræktina og það á síðan örugglega eftir að koma fram gagnvart öðrum þáttum landbúnaðarins.

Hæstv. forseti. Ég held að fleiri spurningum hafi ekki verið beinlínis beint til mín. Auðvitað eru skoðanir mjög skiptar, það hefur komið fram í umræðunni. Ég held að ég muni í sjálfu sér ekki bæta hana mikið með því að lengja hana með því að fara yfir það sem við kunnum að vera ósammála um, ég og sumir hv. þm. Ég álít enn, þrátt fyrir umræðuna, að hér sé verið að stíga mikilvæg skref í rétta átt. Ég vona sannarlega að hv. Alþingi samþykki það frv. sem hér liggur fyrir með þeim breytingum sem meiri hluti hv. landbn. hefur lagt til að gerðar verði á því. Á þann hátt náum við að stíga mikilvæg skref í þá veru að tryggja þau markmið sem samningurinn gerir ráð fyrir.