Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 14:46:43 (1601)

1995-12-05 14:46:43# 120. lþ. 53.3 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[14:46]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Fyrir það fyrsta hvernig það er lagt fyrir þingið. Í öðru lagi fyrir það hvernig það er afgreitt úr hv. landbn. Og í þriðja lagi vegna þeirra efnisatriða sem komu inn í frv. í meðförum nefndarinnar og gefa bændum nokkra vonarglætu um það að á næstu fimm árum megi sauðfjárræktinni takast að vinna sig út úr þeim vanda sem framleiðslustýring, kvótasetning og flatur niðurskurður hafa hneppt greinina í á undanförnum árum. Ég vík nú að fyrsta atriðinu.

Frv. var lagt fyrir Alþingi í samræmi við samning sem þegar var gerður og undirritaður af forustumönnum samtaka bænda og ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þannig hafði ríkisstjórn, ráðherrar og flokksformenn lagt pólitískan orðstír sinn að veði fyrir því að ekki yrðu gerðar breytingar á lagafrv. í meðferð þingsins sem færu út yfir eða brytu í bága við hinn yfirlýsta og undirritaða samning. Þetta var raunar þvert á endurteknar yfirlýsingar hæstv. landbrh. um að höfð yrðu samráð við þingið um gerð nýs búvörusamnings. Raunar höfðu einstakir nefndarmenn margsinnis gengið eftir því í sumar að við það yrði staðið og landbn. kölluð saman. Það var ekki gert og þegar leið að hausti lét hæstv. landbrh. ummæli falla á þá leið að það væri greinarinnar að leysa sín mál og leggja síðan fyrir Alþingi.

Hið nýja þing búnaðarsamtakanna samþykkti svo hinn nýja samning og felldi um leið að vísa honum til almennrar atkvæðagreiðslu meðal bænda. Rótgróin óánægja kom fram á kynningarfundum um samninginn meðal bænda og að baki þessum samningi stóð því enginn einhugur þeirra sem við hann eiga að búa. Þvert á móti virðist óhætt að fullyrða að á samningnum sé almenn vantrú meðal bænda.

Að mínu áliti eru með afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar, þ.e. stjórnarþingmannanna, sett fram skýr skilaboð til landbrh. og ríkisstjórnar um að þessi vinnubrögð séu óhafandi í framtíðinni. Í ýmsum atriðum var reynt á þanþol samningsins til hins ýtrasta og a.m.k. í tveimur atriðum farið út fyrir samningsrammann þannig að stjórn Bændasamtakanna verður að taka samninginn fyrir aftur. Með þessu sýnist mér að meiri hluti nefndarinnar sé að segja: ,,Svona gerir maður ekki`` svo að fleyg ummæli forsrh. af öðru tilefni séu notuð. Þingmenn frábiðja sér að vera stillt upp við vegg. Þeir vilja hafa frjálsar hendur til að koma að löggjafarstarfinu og vonandi hefur þetta komist til skila til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar.

Ég vil líka geta þess að það ber að segja hv. stjórnarandstöðuþingmönnum í landbn. til hróss að þeir unnu mjög skilmerkilega að afgreiðslu málsins í nefndinni og nefndarálit bæði 1. og 2. minni hluta bera vott um vönduð vinnubrögð.

Það hefur einnig komið fram, sérstaklega hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni, að peningahlið samningsins sé út af fyrir sig ekki stórt ágreiningsatriði milli manna eða flokka. Þvert á móti þótti honum ekki nógu rausnarlega staðið að framlögum til uppkaupa á framleiðslurétti og hefði viljað bæta þar verulega við. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki hefði mátt ná pólitískri sátt um málið á þingi, hefðu opin samningsdrög verið lögð fyrir nefndina og hún fengið að vinna úr þeim ásamt tillögum umsagnaraðila sem margir höfðu merkar athugasemdir fram að færa við samninginn og ekki síst ýmsar stofnanir á vegu Bændasamtakanna sjálfra sem gerðu ýmsar athugasemdir við frv. eins og það lá fyrir í drögum.

Kannski er ekki fyllilega að marka hvað hv. stjórnarandstæðingar segja nú eftir að nefndin hefur klofnað í meiri hluta og minni hluta. Úr því sem komið er þýðir ekki að fárast yfir því að á þetta skuli ekki hafa reynt, en hitt er víst að fjölmargir þingmenn sjálfstæðismanna hefðu getað tekið undir ýmislegt í málflutningi og málatilbúningi stjórnarandstöðuþingmanna. Ég hefði sem sagt viljað og kosið helst að það yrði reynt að ná þjóðarsátt um málið í líkingu við það sem varð um síðasta búvörusamning, en með þessum málatilbúnaði gat ekki af því orðið.

Víkjum nú að málinu sjálfu. Ég held að útilokað hefði verið fyrir mig og fleiri sjálfstæðismenn að standa að frv. í þeim búningi sem það var lagt fyrir þingið af hæstv. ríkisstjórn. Ekki nóg með að það væri flausturslega unnið og þurft hafi aðstoð einhverra færustu lögfræðinga landsins til að færa það í búning sem forðaði ýmsum ákvæðum frá því að brjóta í bága við stjórnarskrána. Það sem úrslitum veldur þó fyrir mig þannig að ég geti fallist á að styðja frv. er sú veigamikla breyting um afnám verðjöfnunar í útflutningi. Með fullkominni verðjöfnun í útflutningi hefði allur hvati verið í burtu til að ná fram hámarksverði í útflutningi, stunda vöruþróun og vöruvöndun í þessari grein. Við hefðum haldið áfram að líta á útflutning dilkakjöts sem einhvern ,,dumping-markað``, einhvers konar næsta bæ við haugana þar sem við fleygðum inn því kjöti sem umfram væri innanlandsmarkaðinn til að komast hjá því að linsur sjónvarpsmyndavélanna stæðu okkur að verki við að sturta skrokkunum í Sorpu. Ef við höfum ekki trú á því að við getum unnið markaði erlendis fyrir kjötið okkar sem gæðakjöt, vistvænt ræktað kjöt eða lífrænt ræktað kjöt sem fái verulega hærra verð á mörkuðum erlendis, þá erum við sannfærð um að framleiðsluna eigi að miða við u.þ.b. 6--7 þús. tonna innanlandsmarkað og þá þurfum við engan búvörusamning, framleiðslukvóta eða framleiðslustýringu. Þá þurfum við ekki nema helming þeirra bænda sem nú stunda sauðfjárbúskap. Þá væri langbest að gefa verðið frjálst og láta markaðinn ráða því hvort og hvar verða nokkrir sauðfjárbændur. Út úr þeirri samkeppni gæti komið sú óvænta niðurstaða að það væru ekki sérhæfðu sauðfjárbúin sem héldu velli, heldur þeir bændur sem væru með sauðfé sem aukabúgrein og gætu sinnt þeim í hjáverkum með öðru.

Ég er hins vegar sannfærður um að það er hægt að koma á útflutningi dilkakjöts ef rétt er að málum staðið, vinna markaði og halda þeim. Með því móti væri hægt að framleiða um 10 þús. tonn í landinu, u.þ.b. 2.000--2.500 tonn fyrir erlendan markað og 7.500--8.000 tonn fyrir innanlandsmarkaðinn. En til þess þarf gerbreytt hugarfar, bæði hjá bændum en ekki síst hjá sláturhúsunum og sölufyrirtækjunum.

Ég vil geta þess hér að ég veit um skilmerka, erlenda aðila sem hafa tröllatrú á þessu líka. Þeir hafa sýnt áhuga á því og eru að kanna hvort ekki sé hægt að byggja upp sláturhús frá grunni hér á landi sem byggja á danskri tækni og verkkunnáttu og slátri eingöngu til útflutnings með samningum við bændur sem fari þá út úr kvótakerfi, ríkisframlögum og framleiðslustýringu en framleiði eftir fyrir fram gerðum samningum við sláturhúsið vistvænt kjöt eða lífrænt ræktað. Engum mundi láta sér detta nokkuð slíkt í hug með verðjöfnun í útflutningi. Svona sláturhús gæti veitt þeim dauðadofnu afurðastöðvum sem hér eru fyrir verðuga samkeppni og kannski blásið lífsanda í nasir þeirra.

Ég hef haft nokkra reynslu af sláturhúsum og sláturhúsamálum á undanförnum árum og ég hef enga sérstaka tröllatrú á því að þau muni standa sig samkvæmt þeim möguleikum sem eru opnaðir í þessu frv. Hins vegar getur Alþingi ekki skyldað sláturhúsin, sláturaðilana eða söluaðilana til þess að standa sig. Það getur aðeins opnað leiðina og ég er viss um það að þessi opnunarleið til útflutnings getur leitt til þess að það komist á samkeppni og almennir viðskiptahættir í þessari grein eins og öðrum. Það sem fyrst og fremst hefur háð bændum og takmarkað þeirra afrakstursgetu er hvað sláturhúsunum hefur lítið farið fram og hvað söluaðilarnir kunna lítið fyrir sér í almennum viðskiptum og hafa haft lítinn áhuga á þeim.

Fyrir nokkrum dögum birtist í Morgunblaðinu viðtal við Baldvin Jónsson sem fór þar yfir helstu atriði sem hafa komið upp í sambandi við þá merku útflutningsstarfsemi sem hann er að reka. Þar kom fram að þegar hann hefur verið búinn að útvega markaði, senda kjötsýnishorn, þá hafa hver mistökin rekið önnur hjá aðilum innan lands sem sýnir bæði lítinn áhuga og ákaflega litla verkkunnáttu á þessu sviði. Í einu tilfellinu lagði utanrrn. til röng eyðublöð sem þýddu að á kjöt sem flutt var til Evrópu lögðust háir innflutningstollar vegna þess að eyðublöðin voru gefin út á pappíra sem giltu aðeins til 1. júlí en aðrar reglur giltu eftir 1. júlí. Í öðrum tilfelli var pökkun ábótavant. Menn pökkuðu frystu kjöti inn í plast sem átti að vera fyrir ófryst kjöt, fyrir ferskt kjöt og svo öfugt fyrir ferska kjötið. Síðan skemmdist þetta plast á leiðinni til áfangastaðar og kjötið skemmdist að einhverju leyti og sumt af því var endursent.

Þetta eru náttúrlega mál sem hið háa Alþingi setur ekki reglur um. Það hefur hins vegar með þessum búvörulögum opnað leiðina til þess að á næsta tímabili búvörusamningsins, fjögur til fimm ár, þá hafi bændur möguleika á því að byggja upp fyrirtæki sem geti staðið að þessum málum eins og menn og geti farið að stunda vöruþróun sem hæfir erlendum mörkuðum og mun jafnframt vera til bóta fyrir íslenska markaðinn því að eftir að hafa þróað vöru fyrir erlenda markaði mundum við náttúrlega ekki gera minni kröfur til vörunnar hér á innanlandsmarkaði.

[15:00]

Með þessu tel ég að það hafi verið opnuð vonarglæta fyrir bændur. Ég vil ekki segja mikið meira og ég ætla ekki að leyfa mér í lok þessarar tölu minnar að vera mjög bjartsýnn. Ég held að þau skilaboð sem bændur þurfa að fá séu þau að þeir þurfi nú að sýna forustumönnum sínum í afurðastöðvunum mikið aðhald og gera þá kröfu til þess að þau fyrirtæki séu rekin með svipuðum hætti og okkur hefur tekist að koma upp matvælafyrirtækjum okkar í fyrstiiðnaðinum. Það tók langan tíma að vísu að byggja upp frystiiðnaðinn með þeim hætti að vöruvöndun væri í fyrirrúmi. Lengi fram eftir áttu sölufyrirtækin við það að stríða að frá einstökum frystihúsum kom gölluð vara, ýmist of seint unnin, hnífar gleymdust inni í miðjum blokkum, sjóvettlingar og annað slíkt, og það tók verulega hörku að snúa þessu við og það sem gerði það mögulegt var hinn kröfuharði ameríski markaður sem gerði mikar kröfur og menn urðu að verða við þeim þó að freistingin væri sú í því ríkisstýrða kerfi sem þá var, þar sem ríkið lögfesti ákveðið fiskverð og ábyrgðist síðan ákveðið afurðaverð, sem leiddi til þess að menn höfðu sem mestan áhuga á því að rusla sem mestu í gegnum hús sín og í sem einföldustum pakkningum meðan ameríski markaðurinn lagði höfðuðáherslu á vöruvöndun og neytendapakkningar. Þetta er það sem landbúnaðurinn þarf á að halda í dag og ég held að með þessu frv. fái hann nánast síðustu aðvörun um það að laga til hjá sér og koma afurðasölunni í það form og reki hana með þeim hætti að samræmist alþjóðlegum viðskiptavenjum og að með því sé sköpuð sú samkeppni sem leiðir til þess að sláturkostnaðurinn færist niður, að menn hætti að framleiða með það fyrir augum að frysta sem allra mest og geyma það sem allra lengst, sem sagt að framleiðslan sé að ná inn einhverjum frysti- og geymslukostnaði frá ríkinu.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri en legg áherslu á það að eins og nefndin hefur gengið frá þessu frv. núna, þá tel ég að í því séu veruleg sóknarfæri fyrir landbúnaðinn. Ef hann ekki nýtir þau og nær árangri í að markaðssetja kjötið erlendis, þá blasir það við að innanlandsmarkaðurinn einn er fyrir hendi með kannski 5--6 þús. tonna sölu á ári og kannski minna en það í æ takmarkaðri mæli vegna aukinnar heimaslátrunar og þá þurfum við ekki að halda uppi neinu ríkisstýrðu kerfi fyrir bændur. Þá er langbest að markaðurinn og frjáls samkeppni leysi það mál hvernig búsetunni í landinu verður háttað.