Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:05:36 (1602)

1995-12-05 15:05:36# 120. lþ. 53.2 fundur 75. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (fjárhagsaðstoð til sambúðarfólks) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:05]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta mál lætur ekki mikið yfir sér, en það skiptir einhver sveitarfélögin í landinu nokkru máli. Í stuttu máli sagt gerir frv. ráð fyrir því að karl og kona sem hafa verið skráð í sambúð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár hafi sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með því er komið í veg fyrir að sambúðarfólk geti fengið umtalsvert hærri fjárhæð til framfærslu en hjón sem búa við sambærilega fjárhagslega afkomu. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Þetta mál á sér þá skýringu að upp hafa komið tilfelli hjá ýmsum sveitarfélögum þar sem ekki hefur verið hægt að beita sömu reglum gagnvart fólki í sambúð og gagnvart hjónafólki og hefur þetta kostað sveitarfélögin, t.d. Reykjavík, nokkurt fé. Það er því að dómi okkar í félmn. mjög sanngjarnt að þessi breyting nái fram að ganga.

En það er eitt atriði sem ég vil gera að umtalsefni og notfæra mér það að hæstv. dómsmrh. er staddur í salnum. Í greinargerð með frv. kemur fram eins konar ákall um það að löggjöf verði sett um fólk í sambúð. Bent er á það að víða í lögum er að finna sérstök ákvæði um fólk í sambúð en engin samfelld eða heildstæð löggjöf til og það kemur skýrt fram í greinargerðinni að talin er mikil þörf á því að slík lög verði sett. Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort fyrirhugað er að setja slíka löggjöf og hvar það mál er statt í hans ráðuneyti ef slíkt er í vinnslu.

Ég ítreka það, hæstv. forseti, að félmn. er einróma samþykk þessu frv.