Fjáraukalög 1994

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:25:45 (1607)

1995-12-05 15:25:45# 120. lþ. 53.4 fundur 45. mál: #A fjáraukalög 1994# (niðurstöðutölur ársins) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:25]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur mælt fyrir nál. meiri hluta fjárln. um það frv. sem hér er til afgreiðslu, þ.e. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994 sem er eins og fram hefur komið í raun uppgjörsfrv. fyrir það ár. Það er ekki miklu við það að bæta sem þar kom fram og svo aftur hins vegar hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, frsm. minni hluta fjárln., og vil ég þakka hv. þm. fyrir málefnalegar athugasemdir og umræður og athugasemdir við frv. sem ég tel að sé í fyllsta máta eðlilegt að komi fram við þessa umræðu.

Það má svo aftur deila um það hvort þessi frávik frá tekjum annars vegar og gjöldum hins vegar, 2,8 milljarðar, séu yfir eða undir þeim mörkum sem megi ætla að verði í hinum flókna og margbrotna ríkisrekstri, en hins vegar er ástæða til þess fyrir okkur hv. þm. að gera ríkar kröfur til embættismanna um það að vinna vel að áætlanagerð. En þeim sem sitja í fjárln. er það held ég öllum ljóst að það er ekki alltaf á vísan að róa með tekjur ríkissjóðs annars vegar og svo hins vegar rekstrarútgjöld ríkisstofnana og er þar skemmst að minnast upplýsinga sem hafa komið fram um útgjöld heilbrigðiskerfisins m.a. sem er auðvitað mikið vandamál, hversu erfitt er að hafa hönd á.

Ég tel, virðulegur forseti, að það sé í fyllsta máta eðlilegt að þær ábendingar, sem koma fram í nefndaráliti hv. minni hluta fjárln., eigi fullkomlega rétt á sér, sú hvatning sem kom þar fram og er um það að vandað sé til áætlanagerðar.

En það sem ég vildi segja um það sem kom fram hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um þessar reglur og venjur sem hafa skapast um færslur á milli ára, þá tel ég að það sé mjög mikilvægt atriði og það hafi í rauninni verið mörkuð nokkur tímamót þegar farið var að standa þannig að málum í rekstri ríkisins að stofnunum væri heimilt að færa á milli ára. Það er talið, og við þykjumst sjá þess nokkur merki, að stofnanir gæti sín og vandi sig í rekstrinum þegar nálgast áramót, en það mun hafa tíðkast hér áður og fyrr að forstöðumenn stofnana hafi lagt sig alla fram um að eyða þeim fjármunum sem á fjárlögum hafa verið hverju sinni til þess að sitja ekki inni með ,,eignir`` sem þeir hefðu annars átt að eyða. Nú er forstöðumönnum ríkisstofnana heimilt að eiga fyrningar til næsta árs, þ.e. að eiga inni ónýttar fjárveitingar og ég tel það af hinu góða. Hins vegar hefur sú regla jafnframt verið mótuð, og ég tel að hún sé jafnmikilvæg, að fari stofnanir fram úr fylgir það til næsta árs sem skuld sem verður þá að ná upp á næsta ári nema eitthvað sérstakt hafi gerst sem réttlæti það að aukafjárveiting komi til og fjáraukalög taki þá á með þeim hætti sem við erum að gera hér.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu, virðulegi forseti, og jafnframt geta þess að Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli okkar þingmanna á því, ekki síst vegna þess að það er skömm reynsla af þessu fyrirkomulagi með færslur heimilda á milli ára, að það sé nauðsynlegt að skoða reglur um þetta og gæta þess að þarna séu færslur á milli ára með skynsamlegum hætti. Ég held að það gæti verið verkefni fjárln. að fara mjög vandlega ofan í það.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki meiru við að bæta, en tel að öll aðalatriði þessa máls hafi komið fram í þessum umræðum.