Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 15:44:07 (1611)

1995-12-05 15:44:07# 120. lþ. 53.3 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KPál (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[15:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um búfjárlögin var ég með tvo fyrirvara fyrir samþykki mínu á þeim:

Í fyrsta lagi að vísitöluákvæði yrðu felld út úr lögunum. Með brtt. frá meiri hluta hv. landbn. er gerð tillaga um að vísitöluákvæði falli úr þeim. Það verður því á valdi fjárveitingavaldsins, Alþingis, hvernig ákvæði 9. og 11. gr. breytast.

Í öðru lagi lagði ég fram ákvæði um að sett yrði á laggirnar nefnd hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, Neytendasamtaka og fleiri sem gerðu tillögur um hvernig séð yrði fyrir endann á styrkjakerfi til landbúnaðarins Við 2. umr. lýsti hæstv. landbrh. því yfir að strax á næsta ári verði skipuð nefnd hagsmunaaðila, BSRB, VSÍ, ASÍ og hugsanlega fleiri sem hefðu það hlutverk að skoða framtíðarsýn íslensks landbúnaðar, bæði sauðfjár og kúabúskapar. Þar með hefur þeim tveim fyrirvörum verið eytt sem ég hafði á þessu frv. til samþykktar og ég mun því segja já.