Rekstrarskilyrði smáfyrirtækja

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 13:36:50 (1622)

1995-12-06 13:36:50# 120. lþ. 54.1 fundur 122. mál: #A rekstrarskilyrði smáfyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur


[13:36]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason spyr:

,,Hyggst ráðherra gera tillögur um bætt rekstrarskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi líkt og nágrannaþjóðir okkar hafa gert?``

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún leggi megináherslu á aðgerðir til atvinnu- og verðmætasköpunar með því að stuðla að nýsköpun og sókn í atvinnulífinu, m.a. í vöruþróun og markaðssetningu. Í framhaldi af þessu var sett á fót á vegum viðskrn. sérstök nefnd skipuð fulltrúum úr atvinnulífinu, verkalýðshreyfingu og stjórnkerfinu, mjög fjölmennur hópur sem var ráðgjafarnefnd til þess að gera tillögur um með hvaða hætti mætti ganga til móts og aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi sem eru öll íslensk fyrirtæki ef menn nota skilgreiningu Evrópusambandsins í þeim efnum. Þessi nefnd hefur verið að störfum frá því í sumar og bar fyrst og fremst að leggja áherslu á með hvaða hætti væri hægt að nýta þau tækifæri sem EES-samningurinn gæfi.

Nefndin er þessa dagana að skila frá sér sínum fyrstu tillögum í bæklingi sem hefur verið gefinn út, og kom reyndar út í dag, um Evrópuverkefni á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem nákvæmlega er skilgreint með hvaða hætti íslensk fyrirtæki geta hagnýtt sér þau tækifæri sem EES-samningurinn býður upp á. Í framhaldi af þessu er gert ráð fyrir því að halda í þessari viku kynningarfund með öllum atvinnuráðgjöfum í landinu þar sem þeim er kynnt innihald þessa bæklings og síðan verði þeir í raun og veru útverðir okkar í kynningu á þeim verkefnum sem þarna eru í fyrirtækjunum. Á þriðjudaginn í næstu viku er gert ráð fyrir að halda slíkan kynningarfund fyrir fyrirtæki í Reykjavík og í byrjun janúar að fara um allt land þar sem fulltrúar nefndarinnar kynna hvað þarna er á ferðinni.

Tillögur nefndarinnar eru einnig fleiri en bara þessi bæklingur. Þær munu koma fram um miðja næstu viku og ganga síðan til ríkisstjórnar. Þetta eru að mörgu leyti fyrst og fremst aðgerðir til stuðnings litlum og meðalstórum fyrirtækjum og með hvaða hætti stjórnvöld geta brugðist við til að bæta rekstrarstöðu þeirra. Einnig er í undirbúningi á vegum iðnrn. sérstakt verkefni í samvinnu við Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Iðntæknistofnun sem við köllum Átak til atvinnusköpunar, þar sem er verið að undirbúa verkefni til þess að standa við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum í markaðsleit, rannsóknum og markaðssetningu á afurðum sem þau vilja koma frá sér.

Það má segja að þessi verkefni nefndarinnar sé þríþætt: Í fyrsta lagi að draga saman þau kynningarverkefni og þá möguleika sem lítil og meðalstór fyrirtæki hafa til að nýta sér EES-samninginn. Í öðru lagi er starfsmaður í hlutastarfi á vegum ráðuneytisins úti í Brussel. Hann hefur unnið fyrir nefndina og mun síðan vera litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja nýta sér þau verkefni í Evrópusamstarfinu til aðstoðar og ráðgjafar með hvaða hætti þau geta það gert. Í þriðja lagi eru í undirbúningi af hálfu nefndarinnar sérstakar aðgerðir til stuðnings litlum og meðalstórum fyrirtækjum, m.a. tillögur um það hvernig breyta skal fjárfestingarlánasjóðakerfi atvinnulífsins. Allt miðar þetta að því eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að auka verðmætasköpunina og fjölga störfum.